Að því sögðu geta dómsmorð vissulega átt sér stað. Stundum eru menn dæmdir saklausir. Og dómsmorð er aldrei hægt að réttlæta. Það má aldrei fórna manneskju fyrir málstað. Hvort sem sá málstaður eru konur og börn sem hafa verið beitt ofbeldi – eða eitthvað allt annað (ég held t.d. að dómurinn í Geirfinnsmálinu hafi gegnt því „mikilvæga“ hlutverki að breiða yfir vanhæfni íslensks réttarríkis).
Telji maður að dómsmorð hafi átt sér stað held ég að undirskriftalistar séu röng viðbrögð. Undirskriftir eru sem slíkar ekki málefnalegar. Þær gegna því hlutverki að taka afstöðu með einum – oftast gegn öðrum. Lýðræðislegt hlutverk undirskriftarlista á hér ekki við. Réttarkerfið byggir ekki á meirihlutalýðræði.
En mér finnst líka dálítið ógeðfellt að sjá fólk koma fram og fordæma þá sem skrifa undir Árbótar-listann með þeim orðum að búið sé að dæma í málinu á tveim dómstigum og „að það dugi“ viðkomandi til að taka afstöðu. Oft eru nefnilega ekki nema nokkrar vikur síðan þetta fólk stóð sjálft í því að styðja „nímenningana“ svokölluðu og krefjast þess að þeirra mál yrðu tekin úr réttarfarslegri meðferð. Ég held allir viti að hefðu nímenningarnir fengið harða dóma, sem staðfestir hefðu verið í Hæstarétti, þá hefði það alls ekki „dugað“ þessu sama fólki.
Það er ekki tiltrú á réttarkerfinu sem hvetur fólk til að „sættast á“ niðurstöðu dómstóla í þessu máli. Það er ánægja með niðurstöðuna. Það er gjarnan þannig að menn mæra þá ferla sem skila því sem þeir óska – en fordæma sömu ferla þegar niðurstaðan er mótdræg.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli