Eineltismálið í Hveragerði tekur á sig margar (fyrirsjáanlegar) myndir. Þar halda fjölmiðlar áfram á þeirri vafasömu og siðferðilega tvíbentu braut að leggja málpípu sína yfir þagnarmúrinn. Í annan endann eru hrópaðar ásakanir (í þessu tilfelli mjög alvarlegar) sem styrkjast aðeins við þögnina sem yfirgnæfir allt annað sem kemur frá hinum endanum.
Einfeldningsleg umræða og upphrópanir eru lélegar lausnir þegar vandamálið er flókið. Myndun félagslegra tengsla hjá börnum og unglingum (en einelti er hluti af því) er mjög flókið mál og margbreytilegt. Og fá mál reyna meira á fullorðna fólkið. Við höfum enda innbyggða samúð með þeim sem okkur finnst félagslega afskiptir (að ég tali ekki um sviknir eða ofsóttir) og andúð á þeim sem níðast í krafti valds á þeim sem eru minni máttar. Varnarleysi foreldra þegar börn þeirra gráta yfir því að vera skilin eftir útundan er tærandi og reiðin blossar upp.
Ég vil þó að því sé haldið til haga að ákveðin félagsleg grimmd er óumflýjanlegur þáttur í eðlilegum félagsþroska. Að neita að kannast við það er afneitun sem varpar röngu ljósi á vandann. Ég hef kennt einhverjum þúsundum barna og unglinga og ég hef ekki enn hitt þann hóp sem ekki gengur gegnum félagslega skálmöld einhverntímann á aldrinum 10 - 15 ára.
Fram að þeim aldri eru börn frekar leiðitöm og oftast auðvelt að bregðast við stríðni eða útskúfun ef vel er haldið á málum. Árangur er næstum öruggur ef rætt er um málin fyrir opnum tjöldum og foreldrar standa saman og njóta stuðning skólans við lausn vandans.
En upp úr tíu ára aldri vandast málin. Það þarf yfirleitt sérlega sterkar taugar til að kenna sjöunda bekk til að mynda. Ekki vegna þess að námsmúrinn sé þar sérlega brattur (þvert á móti má vel halda því fram að ef einhversstaðar er færi til að koma að meira námsefni þá er það einmitt þar) heldur vegna þess að félagstengsl fara að taka stóran hlut af tíma kennarans. Ef vel tekst til gengur fárið að mestu yfir á einu eða tveim árum, en stundum stendur vandinn yfir út grunnskólann og getur fylgt inn í framhaldsskóla (sérstaklega í dreifbýli þar sem flestir fara í sama skólann).
Tvennt gerir vandann sérlega skæðan. Hið fyrra er að á þessum aldri verður rof í tengslum barna við fullorðna. Upphaf kynþroska skapar þörf hjá barninu til að halda hluta af lífi sínu aðgreindum frá foreldrunum og öðrum áhrifamiklum fullorðnum. Þetta þroskaskref er mörgum armæða og sumir upplifa mikla höfnun þegar barnið læsir sig inni í herbergi og vill ekki lengur koma með í Húsdýragarðinn eða í heimsókn til ömmu. En þroskaskrefið er gagnlegt því það er greiðfærasta leiðin til sjálfstæðis. Um leið minnkar áhrifavald foreldrisins. Hitt vandamálið er að um þetta leyti fer barnið að finna þörf fyrir öðruvísi vinasambönd. Það vill meiri „dýpt“ og trúnað í vináttuna. En þar sem slíkt dýpt verður ekki með góðu móti til nema gegnum sameiginlega eða deilda reynslu eða áhugamál þá kemur upp vandi. Börnin eru að stíga sín fyrstu skref út í líf fullorðinna og þau skortir allar forsendur fyrir trúnaðarvináttu. En þörfin fyrir nánd lætur ekki að sér hæða og börn á þessum aldri eru ótrúlega nösk á að finna einhvern grundvöll til að byggja hina nýju og dýpri vináttu á. Áhugamál geta orðið næsta þráhyggjukennd á þessum tíma. Lífið snýst um Justin Bieber, Harry Potter; fimleika, fótbolta; hesta eða hvolpa. Og þannig afhendir samfélagið börnunum á silfurfati sjóð sameiginlegrar reynslu sem félagslegir vaxtarbroddar barnsins vaxa upp úr.
En fæst áhugamál eru nógu afgerandi til að duga til að fullnægja þörf barnanna fyrir djúp vinatengsl. Menn þurfa tilfinningalega dýpt og sameiginlega reynslu. Og þar sem hún er ekki til staðar búa menn hana til. Menn trúa hverjum öðrum fyrir leyndum þrám og draumum (sem oft rista álíka djúpt og kúfönd á Kyrrahafi) og sífellt hækkar í pottinum sem vináttan er byggð utan um. Vítisenglar þurfa að rota gamlar konur eða skjóta stöðumælaverði til að fá vængi á jakkana sína en börnin þurfa að leggja leyndarmál sín að veði. Raunveruleg hluttekning með þrám og vanda annarra er þó á þessum aldri ekki nærri því jafn þroskuð og löngunin til aðildar. Og þar sem vinasamböndin skortir í raun allt það sem er frjósamt og gefandi við þroskaða vináttu eiga menn sérlega auðvelt að snúa bakinu við „vinum“ sínum og leita á ný mið. Og þá er ekkert betur til marks um traust og trúnað en að blaðra í smáatriðum um fyrrverandi vininn. Og því háðulegar sem maður fer orðum um hann og því meira sem maður svíkur trúnað við hann, því meira traust sýnir maður nýja vininum. Maður stingur nú höfðinu í gin ljónsins og finnur munnvatnið drjúpa af beittum vígtönnunum.
Og svo er maður bitinn.
Því ekkert breytir þeirri staðreynd að sönn vinátta getur aðeins byggt á uppbyggilegri, sameiginlegri reynslu og áhugamálum. Og þessar fyrstu tilraunir til náinnar vináttu enda yfirleitt með hringekju þar sem menn skiptast á að vera skúrkur og fórnarlamb – og baktala vini og kunningja grimmt við aðra vini og kunningja sem svo fara og baktala mann við hina.
Loks standa menn uppi vígamóðir eins og sjóblautir berserkir í lok sturlungaaldar og þá er lag. Þá opnast aftur glufa fyrir hina fullorðnu til að leggja til sjókort á hinum kræklótta vegi dygðarinnar og hin sameiginlega (en oft á tíðum neikvæða) reynsla verður grunnur að einhverju sem er réttnefnd vinátta. Svo hlæja menn að því hve þeir voru miklar smágelgjur og setja á sig maskara eða kreppa magavöðvana og halda að þeir séu voða fullorðnir.
Allur þessi ferill inniheldur hjaðningavíg, stríðni og réttnefnt einelti. En samt er þetta ofur venjulegur fylgifiskur þess að setja hóp unglinga í eina deiglu. Og þótt þetta geti verið sárt. Þá læra menn af sársaukanum eins og þegar menn brenna sig á kerti. Og stundum þarf hreinlega að leyfa unglingum að líða illa – áður en þeir komast á þann stað í lífinu að eiga kost á farsæld.
Maður verður þó að forðast þá ranghugmynd að félagslegur þroski barna sé einsleitur. Hann er það alls ekki. Sumir þarfnast hinnar nýju „nándar“ hreint ekkert. Aðrir kjósa einveruna fram eftir öllum aldri og blómstra þá skyndilega og verða félagsmálatröll. Sumir eiga ekki kost á nánd á þessum aldri. Upplifa sig í sífelldum stólaleik þar sem þeir sjá aldrei auðan stól. Félagsleg fábreytni getur valdið félagslegri einangrun. Það er ekki auðvelt að vera samkynhneigður í samfélagi sem kann ekki að díla við það. Það er ekki auðvelt að vera fantasíusjúkt bókanörd í árgangi þar sem enginn hugsar um neitt nema fótbolta. Og það er ekki auðvelt að sitja uppi með eitthvert ægilegt leyndarmál sem getur rústað fjölskyldunni eða jafnvel heimabyggðinni ef maður trúir einhverjum fyrir því. Sumir kjósa að mynda félagsleg tengsl gegnum netið en ekki skólafélagana. Fjölbreytnin er mikil.
En ef maður er kominn með þörf fyrir félagslega nánd en er samt útskúfaður eru áhrifin töluverð. Sjálfsmyndin getur laskast og maður fengið ranghugmynd um eigið virði. Mjög oft fylgir þessu margvísleg áhættuhegðun og ögrun við félagslegar venjur.
Samfélagið hefur gríðarlega fordóma fyrir því unga fólki sem fetar þennan veg. Fólk er álitið skrítið og óskiljanlegt. Gömlum konum og hjartveikum körlum stendur stuggur af því. Menn sjá tattúin, fyllerísmyndirnar á feisbúkk og svarta naglalakkið og finna að fegurðarskyni þeirra er ögrað og álykta – ranglega – að ljótt útlit sé afleiðing af ljótu sálarlífi.
Ekkert gæti verið fjær sanni. Flestir sem feta þennan veg rata fyrr eða síðar aftur inn á veginn sem lagt var upp frá. En þá með dýrmæta reynslu í nesti. Menn hafa kafað inn á svið samfélagsins sem eru á skjön við normið og lifa lífi sínu upp frá þessu á öðrum forsendum, sjálfstæðari, næmari og – að mínu áliti – frjálsari. Þessi reynsla verður grunnur djúpra tilfinningatengsla við vini og börn.
En þessi útúrdúr er ekki hættulaus. Sumir snúa ekki til baka. Sumir lenda í hringiðu sem þeir megna ekki að synda út úr. Sumir deyja. Langt fyrir aldur fram. Aðrir koma skaðaðir til baka. Tilfinningalega brenndir, tortryggnir, meiddir.
Það er ekki til neitt einfalt fyrirbæri sem heitir einelti. Einkenni þess geta í senn valdið miklum skaða og verið fullkomnlega eðlileg. Sá sem ætlar að breyta heiminum með því að útrýma einelti berst við vindmyllur. Vandinn verður ekki smættaður í einhver júníversal einkenni.
Ég hef í nokkurn tíma ætlað að skrifa mikla skammargrein um barnavernd. Að mínu mati er hún léleg. Það þarf helst að nauðga barni eða berja til ólífis til að barnavernd geri eitthvað af viti. Barn getur setið í suðupotti vansældar og ónýtra heimilsaðstæðna árum saman án þess að félagsmálayfirvöld breyti neinu sem um er vert.
Aðalvandi barnaverndar er samt hvernig hún er hugsuð. Allir sem vinna með börnum og unglingum eru tilkynningarskyldir. Þeir eiga að hringja í 112 og láta vita ef barn er vanrækt eða líður kvalir. Þetta mættu fjölmiðlar hugsa næst þegar þeir ákveða frekar að kalla til áhorfendur en kalla á hjálp.
Þegar við þetta er bætt að lögð er mikil áhersla á það að heimilið sé friðhelgt og að hver megi ala sín börn upp nokkurnveginn eins og hann kýs – þá er niðurstaðan sú að barnavernd á Íslandi er viðbragðamiðuð. Það þarf eitthvað að skaðast til að eitthvað sé gert. Nei, það þarf einhver að skaðast.
Það er auðvitað fráleit hugsun!
Barnavernd snýst um líkamlega og sálræna heilsu. Það er ekkert því til fyrirstöðu að barnavernd felist fyrst og fremst í forvörnum. Gróið tekur aldrei heilu fram.
Manneskja sem fær tækifæri til að þroskast getur þroskast í þúsund áttir. Hommi er aldrei bara hommi. Það er ekkert því til fyristöðu að hann hafi önnur félagsleg hlutverk í samfélaginu. Hann getur t.d. verið góður í fótbolta. Nexus-nördinn getur verið rafgítarsnillingur. Barnið með leyndarmálið sem það þorir ekki að trúa neinum fyrir getur haft ástríðu fyrir matseld.
Það á ekki að kosta handlegg að æfa íþrótt eða stunda félagsstarf. Fjöldinn allur af börnum gengur til sálfræðings vegna afleiðinga félagslegrar einangrunar. Það kostar miklu meiri pening en það hefði kostað að leyfa barninu að æfa íþrótt eða læra á hljóðfæri eða fara í myndlistarskóla þegar það hafði aldur og áhuga til.
Félagslegir þættir eiga að vera miklu viðameiri í námskrá grunnskóla. Við eigum að kenna börnum að vera manneskjur í samfélagi en ekki lífræn geymslurými fyrir bóklegar staðreyndir. Við eigum að standa fyrir skólaferðalögum, árshátíðum – og við eigum að búa til rými fyrir áhugamál barnanna í skólanum. Börn eiga að læra að njóta lífsins – en ekki hlaupa um eins og kanínan í Undralandi undir sítifandi skeiðklukku prófdómarans. Við eigum að blanda árgöngum og kynjum, vinna markvisst gegn óþarfri en sjálfkrafa hópamyndun.
Félagslegir þættir eiga að vera miklu viðameiri í námskrá grunnskóla. Við eigum að kenna börnum að vera manneskjur í samfélagi en ekki lífræn geymslurými fyrir bóklegar staðreyndir. Við eigum að standa fyrir skólaferðalögum, árshátíðum – og við eigum að búa til rými fyrir áhugamál barnanna í skólanum. Börn eiga að læra að njóta lífsins – en ekki hlaupa um eins og kanínan í Undralandi undir sítifandi skeiðklukku prófdómarans. Við eigum að blanda árgöngum og kynjum, vinna markvisst gegn óþarfri en sjálfkrafa hópamyndun.
Með því að gera þetta –og gera það vel– getum við hætt að vaða áfram í einsleitninni og tína upp „hræin“ af þeim sem hafa orðið undir á leiðinni.
Og mér finnst þetta einhvernveginn augljóst. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að á sama tíma og kreppir að hjá almenningi og viðvörunarljósin kvikna yfir höfðum hundruða barna sem munu ekki búa við þann munað að geta sinnt áhugamálum og myndað gegnum þau félagsleg tengsl – að menn skuli sjá sparnað í því að skera burt allt það í starfi skólanna sem hjálpar til að vinna á móti þeim skaða sem það veldur? Skera burt ferðalög og bekkjarkvöld. Henda tónlistarnámi og listgreinum. Stækka árganga og sameina skóla (með félagslegu umróti sem því fylgir). Fækka kennslustundum án þess að minnka vægi bókgreina. Sjá menn virkilega ekki að aurinn sem sparast í dag mun skila sér sem króna í skuld eftir nokkur ár?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli