21. mars 2011

„Svik“ Lilju og Atla

Mörgum er niðri fyrir vegna þeirrar ákvörðunar Lilju Mós og Atla Gísla að kyssa Steingrím og Jóhönnu bless. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að þau séu að svíkja kjósendur Vg. Og að þau eigi að hverfa af þingi og hleypa þeim að sem vilja styðja ríkisstjórnina.

Ég fær ekki varist þeirri hugmynd að margir líti svo á að þessi fyrsta hreina vinstristjórn þessarar aldar sé í raun uppfylling draumsins um eina, stóra samfylkingu vinstri manna. Og telja sjálfsagt að Vg breytist í kratískan flokk á meðan hann situr í stjórninni. Eins og það sé gjaldið fyrir að „alvöru“ stjórnmálaaflið Samfylking taki Vg með í alvöru stjórnmálin.

Og Samfylkingin hangir á því eins og hundur á roði að Vg hafi „samið af sér“ við gerð stjórnarsáttmálans. Þar sé engin vinstri róttækni. Og honum skuli fylgja. Yfir hangir hótunin um að Vg eigi ekki erindi í alvörustjórnmál – og ef óróinn verði of mikill þá sé réttast að hleypa Sjálfstæðisflokknum aftur inn.

Það eru kjarkmeiri Samfylkingarmenn sem hóta Vg en þeir sem sátu skjálfandi á beinunum í Þjóðleikhúskjallaranum og snérust gegn forystunni undir trumbuslætti múgsins fyrir utan. Það er að sama skapi kjarkminni Vg-liðar en þeir sem unnu stórkostlegan kosningasigur út á það að vera á móti aðkomu AGS og því að borga Icesave – til þess eins að vakna úr kosningaþynnkunni til að viðurkenna að þeim hafi ekki verið sjálfrátt. Þeir hafi hreinlega ekki vitað að það sem þeir lofuðu að berjast fyrir eftir kosningar væri algjör vitleysa.

Hafi verið framin svik við kjósendur, þá er nokkuð öruggt að svikararnir heita ekki Lilja og Atli.

Engin ummæli: