26. mars 2011

Framtíð kennslu: bók vs vefur

Þessi pistill er 913 orð. Hann inniheldur 5 myndir og 1 myndband. Áætlaður lestrartími er 3 mínútur og 48 sek

Ég held það langmerkilegasta sem er að gerast í kennslumálum í heiminum í dag sé Khan akademían (Khanacademy.org). Þar má læra stærðfræði, félagsfræði, náttúrufræði með því að tengjast skólanum með Feisbúkk- eða Google-aðgangi. Innlagnir eru fyrst og fremst myndbönd og síðan leysir maður verkefni. Á meðan maður leysir verkefnið greinir vefurinn árangurinn og kemur með uppástungur eða hvatningu eftir því sem við á. Hvenær sem er getur maður fengið nákvæma greiningu á ferlinum fram að því. Maður getur ekki aðeins séð hvaða innlagnir maður hefur séð og hvaða verkefni maður hefur reynt við – maður getur séð hvenær maður gerir hvað og hvernig það gekk í smáatriðum (yfirlitið er svo nákvæmt að maður getur séð upp á sekúndu hve lengi maður þurfti að hugsa við hvert dæmi). Vilji maður það, getur maður fylgt fyrirframgefnum leiðum um námsefnið. En maður getur líka stungið sér niður þar sem maður vill.



Kennslufræðin á bak við þetta er sú hin sama og á bak við Munnbita-vef BBC (BBC Bitesize). Khan-skólinn er bara miklu gagnvirkari (þótt hann sé enn sem komið er viðaminni í öllu nema stærðfræði).

Það er ekki nema von að maður spyrji, þegar námsefni er orðið svona aðgengilegt og gott, hver tilgangur kennslubóka verður.





Nemandi í stærðfræði á unglingastigi grunnskóla á Íslandi sem fær þá kennslu sem þykir framsæknust og best í dag notar kennslubókaflokk sem heitir Átta-tíu. Í flokknum eru 6 bækur (nokkurnveginn ein á hverri önn). Hver bók kostar rúmlega 2000 kr. Hver árgangur telur rúmlega 4000 börn. Það ættu sum sé rúmlega 12000 börn á Íslandi að læra námsefnið sem bókaflokkurinn nær til. Auðvitað er það ekki svo. Mörg börn þurfa annað námsefni og margir skólar kenna frekar gömlu Almennu stærðfræðina sem búið er að kenna í tuttugu ár hið minnsta. En sérnámsefni er alls ekki ódýrara og Almenna stærðfræðin kostar álíka mikið og Átta-tíu. Það er því óhætt að á hverjum tíma sé bókakostur í stærðfræðikennslu á landinu að verðmæti 20 til 30 milljóna króna. Bætið öðru eins við í náttúrufræði, dönsku, ensku og íslensku og upphæðin verður fljótt svimandi. Endurnýjunarþörf bókakosts gerir það að verkum að útgjöld eru nokkuð stöðug og tíð.

Og hvað hafa bækurnar Átta-tíu fram yfir Khan-akademíuna?

Til að svara þessari spurningu er gott að velta því fyrir sér hvar kostir bóka liggja almennt framyfir vefsíður.

Ég held raunar að vefir hafi nú þegar skákað bókum að öllu leyti nema einu. Og vefir séu miklu betri en bækur til að miðla efni í smáskömmtun. Mér liggur við að segja að það sé lögmál að því betur sem gengur að smætta efnið, því meira erindi eigi það á netið – og því minna erindi í bók.

Orðabækur eru gott dæmi. Prentaðar orðabækur er fráleit hugmynd. Þær munu deyja út á allra næstu árum eins og klukkur með vísum.

Orðabækur eru safn stuttra greina eða færslna sem engin eðlileg ástæða er til að meðtaka í neinni sérstakri röð. Netið gefur miklum mun fleiri möguleika á aðgengi að slíku efni en bók gerir nokkru sinni. Stafrófsröð er arfur fortíðar. Stafræn öld hefur litla þörf fyrir stafróf. Það tekur sekúndubrot að raða hlutum og flokka eftir einhverju allt öðru – einhverju sem raunverulega skiptir máli.

Ég leyfi mér að fullyrða að langflestar kennslubækur á Íslandi (og raunar miklu víðar) eru nú þegar úreltar vegna þess að þær eru skrifaðar sem „munnbitar“. Efni er gróflega flokkað eftir því sem við á og sett saman í síminnkandi hópa. Síðan er myndskreytt og prentað. Allt svona efni á að vera á netinu.

Ég hef kennt margar greinar í efstu bekkjum grunnskóla. Það eru sjö ár síðan nemendur mínir studdust síðast við kennslubók, hvortheldur það var í íslensku, stærðfræði eða náttúrufræði. Í dag nota næstum allir nemendur mínir á unglingastigi Feisbúkk. Og því kenni ég t.d. náttúrufræðina þar. „Bókin“ eru hinir ýmsu tenglar sem langflestir enda á kennsluvef mínum við skólann þar sem nemendur fá lesefni hverrar viku með upplestri (fyrir þá sem hafa meiri áhuga á náttúrufræði en getu í lestri).






Og ég er ekki einn. Samkennarar mínir á unglingastigi Norðlingaskóla eru allir í bullandi þróunarstarfi með notkun vefja í kennslu. Úr verður deigla sem er ægilega skapandi. Samfélagsfræðikennarinn er t.d. orðinn hálfgerður sérfræðingur í notkun kannana og prófa á netinu. Við hin leitum til hans með slíkar pælingar. Íslenskukennarinn hefur með góðum árangri leitað að fjölbreyttum leiðum við verkefnaskil. Við tökum öll vandlega eftir því sem þar er að gerast.

En það sem ég held að ég hafi tekið eftir er að með innrás minni á vefinn og ærslum þar í mörg ár, þá held ég að ég sé búinn að finna mörkin á milli ágætis vefs og bókar.

Það er nefnileg eitt sem bækur hafa fram yfir vef. Og með bók á ég hér aðeins við haug upplýsinga sem bornar eru fram í tiltekinni röð og í heild. Bók getur nefnilega alveg verið stafræn. Ég gæti dundað mér hér við að fínpússa skilgreininguna á bók og vef en ég sleppi því, ég held meginatriðin séu nægilega skýr. Fínni blæbrigðin bíða betri tíma.

Bók er andsvar við smættarhyggju vefjarins. Bók er ílát undir þekkingu í samhengi. Sá sem skrifar bók viðar að sér efni úr mörgum áttum og byggir síðan slóða gegnum efnið í þeim tilgangi að miðla ákveðinni sýn á efnið og samhengi þess. Með því er höfundurinn ekki að segja að þetta samhengi sé hið „eina sanna“ samhengi hlutanna eða betra en annað samhengi – það er aðeins gagnlegt að því marki að það stuðlar að því að lesandinn fái aðgang að þeim tilgangi höfundar sem til að byrja með knúði hann til skrifanna.


Bækur eiga fullt erindi í kennslu. Vegna þess að mannleg þekking hefur alltaf og mun alltaf verða til í samhengi. Þú getur ekki kennt manni neitt um þróunarkenninguna eða seinni heimstyrjöldina nema þú opinberir fyrir honum margvíslegt og blæbrigðaríkt samhengi. Þar þáttast saman listir, stjórnmál, sálfræði og í stuttu máli allt mannlegt. Kennsla snýst ekki að litlum hluta um að gera nemandann smám saman læsan á þetta samhengi. Því með samhenginu kemur skilningur og sköpun.

Nemendur spyrja oft kennarann til hvers þeir læri algebru. Þeir vita sem er að líkurnar á því að þeir rekist á jöfnu á förnum vegi eru hverfandi. Hver stærðfræðikennari er með svar á takteinum sem yfirleitt fer fyrir ofan garð eða neðan hjá viðkomandi nemendum. Svarið ætti auðvitað að vera eitthvað á þá leið að algebra er ekki markmið í sjálfri sér. Algebra, rétt skilin, opinberar samhengi sem verður til þess að nemandinn sjálfur særir fram sínar jöfnur til að auðvelda sér lífið. Algebra er lykill að huldum heimi sem aðeins þekking getur gert mann glöggan á. Því miður kemst ekki nema brot af nemendum á þann stað. Flestir læra algebru eins og menn læra frasa í erlendum málum. En sá sem aðeins kann frasa, hann kann ekki neitt. Tilgangurinn með málanámi er að geta skapað þínar eigin setningar á annarri tungu. Það er líka tilgangurinn með stærðfræði. Ekki að geta leyst dæmin sem þú færð, heldur að geta búið til ný dæmi þar sem það á við.

Smættunarhyggjan viðheldur frösum og vinnur gegn samhengi. Þegar við gerum þau mistök að rífa allt námsefni niður í litlar einingar og setjum einingarnar í kafla eftir sameiginlegum einkennum frekar en samhengi, þá förum við á mis við mjög mikilvægan þátt náms. Þann allra mikilvægasta. Samhengið.

Flestar kennslubækur, eins og þær eru í dag, eru ekki pappírsins virði sem þær eru prentaðar á. Þær eiga að hverfa og innihald þeirra á að renna á netið. En það á áfram að prenta bækur. Bara ekki bækur sem eru fullar af kvíum. Heldur bækur sem leiða nemandann í gegnum efnið. Þar sem nemandinn sér landslag þekkingarinnar frá sjónarhóli ferðalangsins en ekki sem litlar steinflísar í glerkössum eða fiðrildi rekin á hol með títuprjónum. Í bókunum eiga fiðrildin að fljúga og steinninn að mynda hamra. Síðan á nemandinn að leggja frá sér bókina og eiga um hana samtal, hlusta á tónverk eða horfa á kvikmynd. Kíkja á netið og fletta upp fyrirbærunum sem hann hefur komist í kynni við. Og endurtaka eftir þörfum.


Ég held fæstir hafi farið út í fiðrildasöfnun af því þeir hafi svo gaman af illa lýstum kompum þar sem fiðrildi liggja steindauð undir miðum með handskrifuðum latneskum heitum. Ég held að helstu fiðrildasafnarar sögunnar hafi fallið fyrir fiðrildum á flugi. Elt þau og veitt og viljað varðveita og setja í samhengi. Darwin var hugfanginn af ánamöðkum og rottum.

Kennsluvefir eins og Khan-akademían og Munnbitar BBC er það sem koma skal í stað hefðbundinna kennslubóka. Vonandi fá þeir þó frekar hlutverk þvottavélarinnar en fésbókarinnar í hinu menningarsögulega samhengi, þar sem það fyrrnefnda bjó til meira rými fyrir lífið sjálft en hið síðarnefnda yfirtók það.

Engin ummæli: