16. mars 2011

Opinn skóli vs hefðbundinn

Ég er 35 ára. Ég lauk grunnskóla fyrir tæpum tuttugu árum. Síðustu misserunum eyddi ég í bekk með þeim samnemendum mínum sem best gekk í námi. Vafalítið hefur einhver talið gott að „getuskipta“ okkur krökkunum til að hver „fengi þjónustu við hæfi“. En staðreyndin er auðvitað sú að það sem ég „gat“ betur en krakkarnir í hinum bekknum var nauða ómerkilegt – og alls ekkert til að byggja heilt lífshlaup á. Þeir hæfileikar sem fengu að njóta sín í náminu síðustu ár grunnskólans voru ekki nema örlítið brot af þeim hæfileikum sem ég bjó yfir. Og það var eiginlega ekki fyrr en ég var orðinn ansi fullorðinn að ég komst að því að ég hafði allskyns hæfileika, sem ekki er hægt að kalla annað en námsgáfur, sem grunnskóla- og framhaldsskólanámið hafði alls ekki kallað fram á yfirborðið. Miklu frekar stuðlaði kennslan t.d. að því að bæla sköpunarkraft og sjálfstraust en framkalla.

Í raun held ég að góður skóli sé ekkert ofsalega flókið fyrirbæri. Hann snýst um að finna jafnvægi á milli þeirra öfga sem persónueinkenni og félagsgerð hafa fyrir löngu sannað að eru til.

Skoðum fjórar dygðir (en við gætum valið aðrar eða fleiri).

Í góðum skóla má t.d. veita nemendum aðhald, ala á sjálfstrausti þeirra, sköpunargáfu og frumkvæði.



Sumir halda að góður skóli sé skóli með þægum börnum. Að þar sé vinnufriður og nemendur vinni verkefnin sín. Skóli með þægum börnum er vissulega þægilegur – en hann er langt frá því að vera eitthvað sérstaklega góður. Börn sem fá verkefni við hæfi og njóta sín í skólanum skapa oft sjálfkrafa vinnufrið – en því fer fjarri að vinnufriður sé til marks um að börnin njóti sín. Vinnufriður getur allt eins verið til marks um ofríki kennarans.

Vinnufriður á enda ekki að vera markmið í sjálfu sér. Hann er góður upp að því marki sem í honum felst nauðsynlegt aðhald. En það á alls ekki alltaf að vera grafarþögn í skólum.

Helsti galli „opinna skóla“ – en það eru skólar sem rífa niður innviði skólakerfisins í bókstaflegri merkingu. Flytja námið úr litlum, lokuðum kennslustofum með tuttugu og fimm borðum, töflu og kennarapriki og flytja það inn í stóra sali með alls kyns svæðum og stöðvum – er að menn ná ekki að veita það aðhald sem menn kjósa. Ef opni skólinn er að auki einstaklingsmiðaður (sem mjög líklegt verður að teljast) þá gerist það líka stundum að mönnum finnst þeir ekki ná að miða nemendum nógu markvisst áfram í námi. Það fari of mikill tími nemandast í að tileinka sér þau markmið sem kennarinn gæti „matað“ hann á miklu betur og hraðar. Sumum finnst þar af leiðandi að opinn skóli hafi tilhneigingu til að ala á upplausn (hávaða og agaleysi), makræði (þar sem nemendur stýra sjálfum sér auðveldu leiðina í gegnum lífið) og rótleysi (þar sem nemandinn prófar ýmislegt en skilar ekki endilega af sér merku verki). Af þessum sökum hafa margir skólar snúið baki við opnum kerfum og snúið sér aftur að því sem skólar hafa gert í mörghundruð ár.


Blái hringurinn táknar „opinn skóla“ sem ekki heppnast neitt óskaplega vel. Græni hringurinn táknar ofur hefðbundinn bekkjarskóla. Skóla eins og þann sem ég sótti sem barn og unglingur. Þeir eru enn í dag algengasta skólaformið á Íslandi og víðar.

En málið er að báðir skólar eru jafnslæmir. Ofríki kennara er ekkert betra en upplausn þótt það sé þægilegra. Það er ekkert verra að láta nemanda dunda sér á sínum hraða í gegnum algebruna þótt hann sé dálítið latur heldur en að toga hann í gegnum hana. Opnir skólar, sem foreldrar og kennarar hafa gert uppreisn gegn, hafa nefnilega ekki verið vitund verri en skólarnir eins og þeir voru áður – og urðu aftur.

Menntaheimurinn er afar seigfljótandi. Það er miklu auðveldara að breyta stefnu olíuflutningaskips en skóla. Allar breytingar gerast hægt. Mjög hægt. Og allir eru sérfræðingar. Kennarastofa í frímínútum er einhver andstyggilegasti staður á jarðríki. Þar eru samankomnar fjörutíu til fimmtíu raddir sem allar eru vanar að yfirgnæfa aðrar. Eini staðurinn sem er verri en kennarastofan í frímínútum eru kennarafundir.

Í háskólunum eru kennaranemar fylltir allskyns órum um einstaklingsmiðað nám, fjölbreytta kennsluhætti og fínerí sem þeir síðan mæta með út í skólana. Eftir mánuð átta þeir sig á að þeir eru eins og flubbar á björgunarsveitaæfingu. Flubbar, eða flugbjörgunarsveitarmenn, voru lengi (og eru kannski enn) hafðir að athlægi, vegna þess að þeir einir eru með splúnkunýjar græjur, í tandurhreinum og óslitnum fötum og vel til hafðir – meðan aðrir eru með hálfbilaðar græjur og snjáða búninga af mikilli notkun.

Nýútskrifaður kennari er ekki að fara að breyta rennsli þess fljóts sem til er orðið í skólanum. Það fljót er fyrir löngu búið að finna sér þægilegan farveg – og leyfir sér oft að búa í þeirri blekkingu að þægilegheitin séu til marks um að allt sé í sómanum.

Námskráin eykur svo á blekkinguna með því að vera svo heimskulega viðamikil og smámunasöm að hver einasti kennari í hverjum einasta skóla veit, að hann mun aldrei komast yfir allt sem hann „þarf“ að kenna. Hann þorir því ekki fyrir sitt litla líf að sleppa því að kenna börnunum samviskusamlega um greiningareinkenni dreifkjörnunga og leyfa þeim frekar að fara út og grafa upp ánamaðka. Allt slíkt væru vinnusvik.

Á meðan situr frumkvæðið á hakanum. Það gerir sköpunargáfan líka. Sem og hið raunverulega aðhald. Aðhald kennarans á nefnilega að vera eins og nettar rasslyftandi naríur sem kalla fram fegurstu hliðar nemandans. Kennarinn á ekki að vera brynja.

Hve margir kennarar ætli stjórni því nákvæmlega hvað nemendur hans læri? Og hvenær þeir læri það?

Hve margir nemendur reyna virkilega á sköpunargáfu sína (og þá er ég ekki að tala um að fletta í gegnum kalkípappírsmenguð blöð og leita að hestamynd til að brennimerkja á trékistil)?

Hve oft réttlæta kennarar námsefnið og -aðferðirnar fyrir nemendum sínum með því að fylla þá ótta? Hræða þá með hryllingsmyndum um framtíðina. Ota að þeim öllu því sem þeir enn eiga ólært. Gera þeim grein fyrir því að ef þeir vilji hitt eða þetta þá sé þeim hollast að leggjast á árarnar?

Og hversu heimskulegt er þetta allt? Kennarinn á að vera rauður þráður gegnum líf kennarans en ekki rauð tuska.

En hvor er þá betri opni skólinn eða sá hefðbundi?

Svarið er eitthvað á þá leið að það er ekkert við opna skólann sem gerir hann einhvers verðan. Ekki frekar en þann hefðbundna. Það skiptir ekki máli hvoru megin þú stendur – það skiptir máli hvert þú ert að fara. Það skiptir öllu máli hvert þú ert að fara. Og í því felst hin stóra heimska menntayfirvalda í Reykjavík sem bregðast við erfiðleikum með því að smætta skóla niður í hagstærðir. Með því leggja þeir þann yfirborðskenndasta mælikvarða á starfið sem mögulegur er. Og svo hræra þeir saman skólum. Skólum sem jafnvel eru á leið í gjörólíkar áttir. Nokkuð sem er álíka gáfulegt og að bregðast við skorti á lóðsum í Reykjavíkurhöfn með því að tjóðra hvern lóðs við tvö flutningaskip – á fullri ferð.

Á endanum er eina spurningin sem skiptir máli þessi:

Er skólinn markvisst að búa nemendum umhverfi sem elur á sköpunargáfu, frumkvæði og sjálfstrausti með eðlilegu og hvetjandi aðhaldi?

Ef svarið við því er já skiptir restin engu máli.

Engin ummæli: