1. apríl 2011

Ég er kominn að niðurstöðu í Icesave

Þessi pistill er 1657 orð, áætlaður lestrartími er 6 mínútur og 54 sek.

Icesave-umræðan hefur orðið gróðrarstía alls þess heimskulegasta við þessa þjóð. Við höfum ekkert lært af hruninu. Allavega ekkert sem skiptir máli.

Ég hef nálgast Icesave, eins og ég nálgaðist fermingarfræðsluna. Mig langar mjög að segja „já“. Ég hef reynt að leggja hégómann til hliðar og skilja, í fullri einlægni hvað já-sinnum gengur til – alveg eins og ég reyndi af alefli að horfa á prestinn og túlka hræsnislausa einlægni hans yfirnáttúrunni í vil. Munurinn er þó sá að þegar ég geng inn í kjörklefann bíður ekki öll fjölskyldan eftir mér með tertuspaðann á lofti og þúsundkalla í umslögum. Ég geng einn til kjörs og mun afþakka Icesave-lausn Steingríms og Jóhönnu alveg eins og ég hefði átt að afþakka leiðtogahlutverk krists á sínum tíma.

Fyrir mér snýst Icesave um það eitt hvort krafan um ríkisábyrgð sé réttmæt. Ef hún er réttmæt þá ber okkur að taka þessum samningi – sem vissulega er um margt mjög góður. Ef hún er það ekki, ber okkur að hafna honum. Það segir sig sjálft að ég tel kröfuna óréttmæta.

Spurningin er ekki bara sú hvort íslenska ríkið eigi að bera ábyrgð á bankakerfi landsins. Spurningin er sú hvort öll ríki innan EES beri slíka ábyrgð – og hvort sú ábyrgð sé í samræmi við kröfu Breta og Hollendinga.

Lengi vel þráuðust Biblíubíusar við og fullyrtu að jörðin væri nokkur þúsund ára gömul og að menn hefðu verið skapaðir í þeirri mynd sem þeir bera í dag. Þeir kusu að hunsa stigvaxandi haug sönnunargagna um hið gagnstæða. Þegar ég mætti í fermingarfræðslu var að vísu búið að yfirgefa þá vígstöðu. Ég mátti trúa því að jörðin væri margra milljarða ára gömul og að Adam og Eva hefðu verið nöfn tveggja óþægra einfrumunga. Bara svo lengi sem ég áttaði mig á því að þessar sögur væru táknrænar og á einhvern hátt mikilvægar þeim guðlega kyndli sem ég átti að selja mig á vald.

Auðvitað hefði ég átt að efast og malda í móinn. En ég gerði það ekki. Það var einhver háttvísi fólgin í því að kyngja drauga- og kraftaverkasögum kirkjunnar. Og þótt ég kysi að trúa þeim ekki einu orði virtist það ekki standa í vegi fyrir inntöku minni. Krafan var ekki um að taka þátt, heldur vera með. Það hefði aukinheldur verið afar óviðeigandi af mér að taka herskáa afstöðu gegn þessu bulli öllu, því með því væri ég að traðka á því sem öðrum er heilagt – og ég, sem meðlimur í sama samfélagi, skuldaði þeim þá virðingu að leyfa þeim að reyna að heilaþvo mig af þessum þvættingi án þess að ráðast á þá til baka.

Á sama hátt hef ég reynt – og reynt mikið– að sannfæra sjálfan mig um að Icesave-krafan væri réttmæt. Ekki vegna þess að Bretar og Hollendingar segja að hún sé það. Heldur að hún sé það í raun og veru. Hún sé „sönn“. En það er sama hvernig ég sný henni. Sama hve ég reyni að vera sanngjarn. Krafan verður aldrei annað en hún er.

Og nú ætla ég að beygja af þeim vegi sem ég tölti niður fyrir tuttugu árum stútfullur af lotningu fyrir þeim miklu lífssannindum sem ég taldi þá að hefðu opinberast þeim fullorðnu síðan þeir voru eins og ég. Ég skulda Bretum og Hollendingum það ekki að samþykkja að krafan sé réttmæt af því þeim finnst það. Ég samþykki heldur ekki að um þetta sé mikill efi og það séu tvö réttmæt sjónarhorn sem mætast. Ég áskil mér allan rétt til að vera herskár í þeirra garð.

Krafan er sú að ríki skuli ekki aðeins tryggja að innistæðutryggingarsjóðir sé til staðar, heldur að ef hann dugi ekki til skuli viðkomandi stjórnvöld tryggja að það fáist sem uppá vantar.

Krafan hefur yfir sér bragð biblíulegra boðorða. Þú skalt ekki girnast eigur náunga þíns. Þú skalt virða foreldra þína. Ekki vinna á hvíldardegi. Þetta er regla sem sumir halda á lofti og segja að gildi, þrátt fyrir að aðeins örlítil gagnrýnin skoðun sýni að þetta er alls engin regla. Þetta er ídeal. ó-regla.

Bretar og Hollendingar gætu eins reynt að neyða okkur til að skrifa undir boðorðin tíu.

Það þarf verulega fjörlegt ímyndunarafl til að trúa því að það breyti nokkru til eða frá um gildi þeirra reglna sem Bretar og Hollendingar byggja kröfu sína á að við samþykkjum kröfu þeirra. Það breytir engu þótt hirðfíflið fáist til að segja upphátt og opinberlega að nýja bindi keisarans sé fallegt. Hann er jafn allsber fyrir því.

Efinn um að innistæðutryggingarkerfið haldi er þegar til staðar. Ef efinn er slæmur þá er öllum fyrir bestu að fá það bara á hreint í eitt skipti fyrir öll. Það hjálpar engum að hunsa hann. Þvert á móti þurfa menn að fara að læra að efi er leiðarljós. Fylgdu efanum eins langt og hann fer og þér mun farnast mikið mun betur en ef þú hunsar sírenusöng hans. Hefðu Íslendingar, Bretar og Hollendingar leyft sér að efast dálítið meira þá værum við ekki í þessari stöðu til að byrja með.

Krafa Breta og Hollendinga er hvorki skynsamleg né eðlileg. Engin þjóð stæði undir henni ef hún væri tekin alvarlega. Ekki frekar en boðorðunum tíu. En af einhverjum ástæðum telja margir að Ísland hafi gríðarlegan hag af því að fermast inn í samfélag hinna fullorðinnu ríkja. Og telja það ekki eftir sér að skella sér í hvíta kuflinn og fara með innantóma trúarjátninguna og hugsa til hlaðins gjafaborðsins heima í stofu ef beiskjan kemur upp í munninum.

Síðast þegar ég var í þessari aðstöðu breytti ég rangt. Ég fylgdi straumi samfélags sem þótti vænna um rólegheit og fylgispekt en sjálfstæði og trúfestu. Á þeim árum sem ég var að þroska með sjálfum mér staðfestu og hugsjónir reyndi hugsjónalaust samfélag að misnota mig í eigin þágu.

Það, sem hefur staðið mest í mér, eru hin sífelldu loforð íslenskra stjórnmálamanna um að við ætlum að borga brúsann. Ég hef verið haldinn þeirri grillu að ég beri ábyrgð á þessum stjórnmálamönnum. Eða að þjóðin beri ábyrgð á þeim, loforðum þeirra og mörgu mistökum. En svo rennur upp fyrir mér að krafa um slíka ábyrgð er heldur ekki réttmæt. Alveg eins og bankamenn geta ekki skuldbundið stjórnmálamenn umfram það sem lög, réttur og réttlæti segja, geta stjórnmálamenn ekki bundið þjóð sína.

Allur samningaferill þessa máls er hörmuleg sorgarsaga vanhæfrar þjóðar. Hálfkaraður heiðingi í trúarbragðaskætingi við páfagarð. Við viljum trúa því að við höfum unnið einhvern sigur í málinu. Að hinn nýi samningur sé til marks um að loksins hafi landið risið upp úr vesaldómi og skilað niðurstöðu sem er ásættanleg siðuðu fólki.

Ég sé engan mun á þessum samningi og þeim díl sem séra Örn Bárður bauð mér við altarið. Búið var í orði og á borði að fella burt allar raunverulega íþyngjandi kröfur á mig, barnið. Ég þurfti ekki að trúa nema táknrænt. Minn gjörningur snérist ekki um mig, heldur að kirkjan sjálf, presturinn og samfélagið kringum hann gæti trúað að boðunin væri lifandi. Og hverju hafði ég að tapa? Í alvöru? Það var lágmarksáhætta og hámarkságóði. Það eina sem ég tapaði var, ja, að ég seldi sannfæringu mína.

Í dag verðlegg ég sannfæringu mína töluvert hærra en ég gerði þá. Hún er orðin töluvert mikils virði vegna þess að ég hef farið vel með hana og vandað mig. Hef ekki leyft henni að blakta eins og tættur fáni í hvaða vindi sem er.

Pragmatík kemur málinu ekki við. Málið snýst ekki um tölur og súlur og excel-skjöl. Allir hlutaðeigandi, Íslendingar, Hollendingar og Bretar hafa löngu sannað að pragmatíski áttavitinn í þeim er bilaður. Þess vegna ruglið. Þú ratar ekki út úr völundarhúsi með því að beita af enn meiri einbeitingu þeirri aðferð sem fékk þig til að villast til að byrja með. Þú klifrar á hærri útsýnisstað.

Icesave-deiluna og hrunið í heild á að leysa með frekar einföldum hætti. Skoðum það sem fór úrskeiðis og spyrjum okkur: Hvað átti ég að gera öðruvísi? Ekki í þessum yfirborðskennda skilningi þess sem horfir úr hægindi á fortíð sína og hefur skyndilega fullkomna spádómsgáfu. Heldur í þeim skilningi að miða við það sem hann hélt og vissi en hefði samt átt að gera öðruvísi.

Ég held að við hefðum oftar átt að segja nei.

Það er fínt að byrja núna.

4 ummæli:

Bjössi sagði...

Ég hef kennt of mörgun unglingum sem neita að tína upp bananahýði af gólfinu með rökunum: "Það var ekki ég sem setti það þarna!" Besta dæmið voru Kacper, Jecper og Jónatan í Kaldárseli. Ég fann orkudrykkjardós eftir þá inni á vatnsverndarsvæði. Kacper sagðist saklaus af því að Jecper hefði átt dósina. Jecper sagðist saklaus af því að hann hefði beðið Jónatan að halda á dósinni fyrir sig. Og Jónatan sagðist saklaus af því að hann hefði ekki hent dósinni á jörðina, heldur rétt hana til Kacpers sem lét hana falla til jarðar.

Líkingin við boðorðin er flott. Það eru hins vegar bara boðorð 1-5 sem hægt er að setja út á. Sá sem ekki fer eftir boðorðum 6-10 endar með því að stela sparipeningum útlendinga til að fjármagna eigin neyslu.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er ekki með nokkru móti hægt að kvitta upp á boðorðin 10 sem leiðarljós nokkurrar þjóðar. Aðeins 2 boðorð eru eitthvað sem er sæmilega skynsamlegt að binda í lög. Icesave snertir hvorugt þeirra.

Sigvaldi Ásgeirsson sagði...

Þetta er bara bísna flott greining. Ég gæti ekki sagt það betur. Einkabankar eiga að hafa eigin tryggingasjóð. Ríkissjóður f.h. skattgreiðenda á ekki að tryggja krónu af innistæðum í einkabönkum. Svo einfalt er það. Því voru neyðarlögin ferlega fúl, því þau neyttu skattgreiðendur til að tryggja innistæður allara að fullu - nema innistæður útlendinga.

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill hjá þér Ragnar.

Ég komst að nákvæmlega sömu niðurstöðu strax í Icesave 1. Mér var í raun slétt sama hvort að skuldinn var þúsund milljarðar eða 1. króna.

Það er sorglegt að hluti að heilli þjóð sé kominn með stokkhólmsheilkenni. Venjulegt fólk sem búið er að heilaþvo til að trúa því að það virkilega sé í ábyrgð fyrir skuldum einkabanka.

Þetta sýnir bara að hægt er að telja fólki í trú um allt ef það er bara nefnt nógu oft. Rangt verður rétt í þeirra huga.

Ég trúi því að það séu nógu margar sterkar sálir þarna úti sem láta ekki buga sig.

Þröstur Þráinsson