2. apríl 2011

Afstöðuleysi gagnvart ofbeldishrottum, nauðgunum og nauðasamningum

Þessi færsla er 1999 orð og hún inniheldur 4 myndir. Áætlaður lestrartími er 8 mínútur og 20 sek

Eftir allnokkra ígrundun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að krafa Hollendinga og Breta á hendur okkur Íslendingum sé óréttmæt. Þar með er auðvitað ekki sagt að þeir hafi ekkert til síns máls. Sterkustu rök þeirra eru samt sem áður þau að Íslendingar hafa frá upphafi sagst vilja semja sig frá málinu og að það bindi þjóðina til að samþykkja samninginn sem nú liggur fyrir enda sé hann það besta sem nokkur geti vænst af samningaleiðinni.


Það er samt dálítið sérstakt að besta röksemd Breta og Hollendinga sé eitthvað sem gerðist eftir að þeir lögðu fram kröfu sína. Það er svona dálítið eins og að ganga upp að manni og segja: „Ég ætla að berja þig.“ og berja síðan manninn fyrir að setja upp vandlætingarsvip.

Þeir sem segja að Íslenska þjóðin skuli samþykkja samninginn vegna þess að ráðamenn og fulltrúar þeirra hafi ítrekað „lofað“ að við skyldum semja um það ættu að hugsa augnablik hvernig sambandi kjósanda og þingmanns er háttað. Þingmenn á Íslandi eru jafningjar kjósenda, þversnið af þeim. Þeir fara sameiginlega með löggjafarvaldið – en deila því jafnframt stundum með þjóðinni eins og nú. Og eins og stjórnarskrá skipar fyrir þá eru þingmenn aðeins bundnir sannfæringu sinni en engum reglum frá kjósendum sínum. Þetta samband virkar eins í hina áttina. Hver og einn landsmaður gengur óbundinn til þessara kosninga.

Þegar maður hefur komist að þeirri niðurstöðu að krafa Breta og Hollendinga sé óréttmæt þá ætti málið að liggja nokkurnveginn fyrir. Maður gengur ekki að óréttmætum kröfum.

En margir segja að það sé barnalegt að hugsa svona. Réttmæti eða óréttmæti sé ekki eini mælikvarðinn sem skipti máli. Maður verði að hugsa um hagsmuni sína líka. Það sé til lítils að hafa réttan málstað ef himnarnir hrynja yfir mann. Það sé betra að brjóta odd af oflæti sínu og hlusta á „rödd skynseminnar“ og velja heldur þann „næstbesta en þann versta“ eins og stuðningsmenn Icesave-laganna hafa komist að orði í auglýsingum.

Það gerði einmitt maðurinn sem fékk heimsókn ofbeldishrotta sem barði hann í tætlur, braut á honum fingur, tönn og nefið; marði og skar. Eftir að hafa í losti leitað sér hjálpar fékk dólgurinn nægan tíma til að benda fórnarlambinu á að það þjónaði hagsmunum hvorugs að „fara dómstólaleiðina“. Eftir nokkur símtöl og markvissar hótanir vissi maðurinn að strangt til tekið var þetta rétt hjá dólgnum. Áhættan af því að halda málinu til streitu var mikil. Ágóðinn af því að draga framburðinn til baka öruggari en vonin um vernd og sigur.

Og þannig vissu allir: fórnarlambið, dómararnir, hrottinn og alþjóð að sekur maður slapp. En það er víst ekkert hægt að gera þegar fórnarlömbin brestur þor til að verja sig. Ekkert annað en að skammast sín fyrir afstöðuleysið. Því þar liggur rótin að þessu öllu saman. Íslendingar hafa alltaf verið kokhraustir þegar lítið liggur við en þögulir um leið og hagsmunir koma til sögunnar. Um leið og mál varða fjárhag, friðsæld eða mannorð þá lömumst við af ótta og viljum helst ekki gera neitt. Í besta falli draga málið undir yfirborðið þar sem við getum sýnt afstöðu okkar án þess að troða á tám og valda usla.

Þannig fékk biskupsógeðið að ljúga geðveiki og andsetningu upp á saklaus fórnarlömb sín og enginn þorði að standa upp og segja honum til syndanna. Enginn þorði að taka opinbera afstöðu. Enginn nema þeir sem voru svo gersamlega miður sín vegna ranglætisins að þeir réðu varla við sig. Og þessi tilfinnanlegi skortur þeirra á yfirvegaðri hugarró var hafður að skotspæni. Að fara fram af tilfinningasemi og ákefð hefur enda alltaf verið talið til marks um einhverskonar geðveiki á Íslandi. Og á Íslandi er ekki tekið mark á geðveikum.

Og nú hamast sumir stuðningsmenn Icesave við að reyna að mála þá mynd af andstæðingum samningsins að þetta sé galið fólk. Ofsatrúarmenn eða blindir þjóðernissinnar sem eigi sér engan draum æðri en að taka botnnegluna úr landinu og sökkva því niður í Atlantshafið undir skærum og áköfum fiðluleik eigin óra.

Hugsjónarfólk hefur alltaf verið litið hornauga á Íslandi. Og fórnarlömb hafa alltaf verið tortryggð.

Mín afstaða er sú að Ísland sé fórnarlamb ofbeldis í Icesave-deilunni. Ég skilgreini ofbeldi þannig að það sé siðferðilega óréttlætanleg beiting afls eða aflsmunar. Mér sýnist augljóst að skilgreiningin eigi hér við. Deilan stendur enda ekki um það. Hún stendur um það hvort það borgi sig að berjast á móti.

Aftur og aftur tengja Icesave-sinnar á fréttir og pistla þar sem málstaður Íslands er tortryggður eða gert lítið úr hlutverki árásaraðilans. Íslendingar eru sagðir vera „drullusokkarnir“, búnar til hjartnæmar frásagnir af „Britsave“ og mikið þusað um að ábyrgðarleysi þjóðarinnar sé forsenda reikningsins. Og nú sé virðulega að girða sig í brók, skammast sín – og borga.

Svona málflutningur er eitthvað svo einstaklega íslenskur. Hann er út um allt. Og við erum orðin svo samdauna honum að það verður okkur dálítið áfall þegar þokunni léttir nógu lengi til að við áttum okkur á hugvillunni. Eitthvert skýrasta og skarpasta dæmið er þessi pistill Hildar Lilliendahl sem skrifaður er um óþægilega afstöðulausan fréttaflutning af Iman al-Obeidi, líbanskri konu sem ruddist inn á hótel til erlendra fréttamann, svipti sig klæðum og sýndi fréttamönnunum ummerki eftir líkamsárás og nauðgun. Í örvæntingu sinni leitaði hún skjóls meðal fréttamannanna og grátbændi þá að birta sannleikann og hjálpa sér. Þá birtust rólegir og yfirvegaðir menn og drógu hana í burtu. Fréttamennirnir tvístigu og einhverjir reyndu að malda í móinn en mættu þá hörðu hjá rólegu og skynsömu mönnunum. Stuttu seinna birtist frétt um að mennirnir sem konan ásakaði um verknaðinn væru miður sín vegna ásakananna og ætluðu að standa upp æru sinni til varnar. Konan var sett í geðrannsókn og enginn veit hvar hún er nú. Þeim svipar til perrunum í Trípólí og á Tröllaskaga.

Það þarf ekkert að efast um að hagsmunum Iman al-Obeidi væri best borgið með því að þegja. Nauðgunin var yfirstaðinn. Hún hefði sem best getað kosið að reyna að halda „áfram“ með líf sitt, byggja sig upp. Sætta sig við orðin hlut og gá betur að sér í framtíðinni. Hún hafði enda örugglega sýnt stórkostlegt ábyrgðarleysi þegar hún, konan, tók sér stöðu í þvögu óðra, lausgirtra karla í einu af löndum hins eilífa mottumars. Virðulegast sé að girða sig í brók, skammast sín – og þegja.

Því miður eru Íslendingar upp til hópa eins og lúbarði maðurinn sem lét hræða sig frá „dómstólaleiðinni“. Við þorum ekki að taka afstöðu. Sérstaklega ekki siðferðilega prisippafstöðu. Við látum nægja að grauta í pottum hagsmuna og leita að hagfelldustu bitunum. Ef við teljum okkur komast í feitt fyllumst við slíkri haftalausri græðgi að við étum okkur til óbóta. Það eru engin prinsipp til að halda aftur af okkur.

Þessi prinsippskortur gerir landið að gróðarstíu blóðskammar, misnotkunar, leyndarhyggju og meðvirkni. Það eina sem má rökræða eru hagsmunir. Öll mál verða því fyrr eða seinna tæknilegs eðlis.

Leggjum aðeins til hliðar að biskupinn kann að hafa reynt að nauðga sóknarbörnum sínum og ræðum málið frá þeim punkti, leggjum til hliðar að börn hafi verið tekin með valdi frá foreldrum sínum og þau sett í einangrunarvist þar sem þau voru misnotuð og barin svo heiftarlega að flest þeirra komust aldrei til manns og veltum fyrir okkur hvað er skynsamlegt að borga í bætur, leggjum til hliðar að handrukkarar vaða uppi og berja fólk til óbóta, leggjum til hliðar að konum er nauðgað. Leggjum allt til hliðar sem krefst þess að við tökum afstöðu.

Þá eru eftir hagsmunirnir. Ræðum þá.

Sá, sem býr við stöðugt hallæri og hungursneyð, hefur ekki efni á hugsjónum. Íslendingar bera þess merki. Eina dygðin sem þjóðin þekkir er dugnaður. Börnin gátu dáið frá þér, skepnurnar fallið og bærinn brunnið – og þér bar að bretta upp ermarnar og „halda áfram“.

Stuðningsmenn Icesave spila sitt bjöllusóló á eina píanóstrenginn í annars tómum trékassa þess hljóðfæris sem íslenskar dygðir eru.

Hagsmunareikningur er eini reikningurinn sem þjóðin kann. En hún er bara ekki sérlega góð í honum eins og núverandi staða sýnir. En meginástæða þess að svo margir telja hagsmunareikninginn í þetta sinn hafinn yfir allan vafa (og miklu betur ættaðan en t.d. hagsmunareikninginn sem þeir framkvæmdu sjálfir fyrir nokkrum misserum um að það væri frábært að endurfjármagna húsin sín) er sú að það er breyta í dæminu sem bara sumir hafa með. Æstustu stuðningsmenn Icesave eru nefnilega um leið æstustu stuðningsmenn inngöngu í ESB. Þeir vita að innganga í ESB snýst um pólitík og velvilja. Og þeir vilja þess vegna að Icesave-málið snúst um það líka.

Það er meira að segja svo, að fjöldinn allur af Feisbúkk-fólki setti litla „Já, Ísland“ hnappa á prófílmyndirnar sínar til stuðnings Icesave-samningnum. Sem er doldið skondið því „Já, Ísland“ kemur Icesave ekkert við. Það er félag fólks sem vill ganga í ESB.

Ég mun segja nei við Icesave-lögunum. Það versta sem gæti gerst er að við myndum tapa málinu fyrir dómstólum. Þá myndi ég (líklega hér á þessari síðu) þurfa að verja hendur mínar og segja eitthvað á þá leið að ég hefði verið sannfærður um að kröfur Breta og Hollendingar væru óréttmætar og að mér þætti dómurinn ósanngjarn. En nú væri ekkert annað að gera en að setjast niður og semja um greiðslur í fullri auðmýkt.

Sú framtíðarsýn er mér samt margfalt geðfelldari en sú sem ég held að myndi blasa við ef ég tæki þá afstöðu að horfa framhjá sannfæringu minni og meta málið þannig að hagsmunaútreikningur neyddi mig til að segja já. Þá þyrfti ég að koma fram og segja „Auðvitað vil ég ekki borga en...“ sem í sjálfu sér væri ekkert mál. En hvað ef við semdum og borguðum og síðan kæmi í ljós að einhverjir muni ekki sætt sig við þann lagalega efa sem skapast hefur um innistæðutryggingarkerfið og það verði skorið úr um þau lagalegu atriði sem deilan snýst um. Og hvað ef niðurstaðan fellur þá með málstað Íslands?

Það væri frekar vandræðalegt.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þessi rösemdafærsla falla um sjálfa sig, þar sem grundvallarforsendan sem gengið er útfrá er að mínu mati röng. Bretar og hollendingar hafa aðrar og miklu sterkari röksemdir fyrir kröfunni um að íslendingar standi við lágmarkstryggingu á innistæðum. Eftirlitsstofnun EFTA hefur líka komist að þeirri niðurstöðu, auk annarra málsmetandi aðila,að krafa þeirra sé reist á lögum og reglum en ekki samþykki íslenskra stjórnvalda.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Bretar og Hollendingar hafa tvær lagalegar forsendur. 1) að skilja eigi lög um innistæðutryggingar þannig að ríki beri að hlaupa undir bagga ef tryggingarsjóðurinn dugi ekki til og 2) að Íslendingar hafi brotið jafnræðisreglu óbeint með því að ábyrgjast innistæður á Íslandi en ekki erlendis.

Aðrar röksemdir eru ekki fyrir kröfunni.

Ísland hafnar báðum þessum skilyrðum. Þeirri fyrri á að ekkert innistæðutryggingarkerfi virkar með þeim hætti sem B/H krefjast og þeirri seinni með því að segja að um hafi verið að ræða neyðarúrræði til að koma í veg fyrir algjört hrun.

Þetta mun dómstólaleiðin fást við. Og ef málið snérist eingöngu um þetta væri málið frekar auðvelt. Við héldum okkar sjónarmiði á lofti, þeir sínu og dæmt yrði.

Það sem flækir málið er að okkur er hótað pólitískum afleiðingum þess að semja ekki. Óháð réttarstöðunni er okkur sagt að okkur verði gert lífið leitt. Að við eigum ekki í raun rétt á þeim grundvallarrétti að fá úr því skorið hvort um kröfu er að ræða áður en við semjum um greiðslu hennar.

Og röksemdafærslan stendur. Auðvitað getur fórnarlamb ofbeldis eða nauðgunar tapað dómsmáli. Það gerist oft. Alltof oft. En maður vinnur aldrei ef maður gerir eins og sá sem handrukkarinn barði og færist undan „dómstólaleið“ vegna þess að maður lætur hagsmunaútreikning trompa prinsippið.

Nafnlaus sagði...

Mér finnast þessar handrukkara og nauðgara líkingar ósmekklegar og ranglátar. mér þykja bretar og hollendingar hafa sýnt sanngirni og samningsvilja. Það má líka benda á í þessu samhengi að breski tryggingasjóðurinn er orðinn tómur og breskir skattgreiðendur að taka á sig einhverja 300 milljarða vegna Kaupthing Edge. Þegar skórinn er á hinum fætinum, eða þannig...

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Halló, halló.

Hefur þú ekki fylgst með sama máli og ég. Bretar og Hollendingar hafa ekki sýnt neina sanngirni og samningsvilja. Þeir reyndu sitt allra ýtrasta til að neyða Ísland til að skrifa upp á samning sem var margfalt verri en sá sem nú er uppi á borðinu. Hvers vegna breyttist sá samningur? Vegna þess að Bretar og Hollendingar sáu að það var ósanngjarn samningur og ákváðu af eigin frumkvæði að koma til móts við Ísland?

Nei, þeir breyttust vegna þess að Forseti Íslands svipti Alþingi samningsumboðinu og fól það þjóðinni sem rak samninginn öfugan ofan í Hollendinga og Breta.

Þeir reyndu þá áfram að ná þeim hagstæðasta samningi sem þeir geta. Þetta er hann.

Ekki vegna þess að þeir séu svo sanngjarnir heldur vegna þess að ákveðnir meðlimir samninganefndar bentu þeim á að þeir gætu gleymt þessu ef samningurinn myndi ekki duga til að heilla a.m.k. hluta þjóðarinnar.

Í fyrsta skipti sýndi einhver Hollendingum og Bretum hörku. Og þeir bökkuðu. Ekki af sanngirni - heldur miklu frekar vegna þess að þeir hafa vondan málstað að verja.

Og svikari sem selur þér ónýtan bíl með 70% afslætti frá uppsettu verði er enginn vinur þinn og er ekki sanngjarn.

Það má vel vera að þér þyki samlíking við nauðgun ósmekkleg. En þjóð sem treystir sér ekki einu sinni til að standa við bakið á fórnarlömbum nauðgana kemur ekkert sérlega á óvart þegar hún fullyrðir að Hollendingar og Bretar séu sanngjarnir.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Og talandi um að máta skóinn á hinn fótinn.

Hlutfallslega er besta spá um kostnað Íslands af Icesave (fyrir utan vexti) þannig að hver Íslendingur þarf að greiða 14 þúsund sinnum hærri upphæð til Breta en Bretar ef þeir myndu punga út fyrir 300 milljörðum.

Matti sagði...

En nú væri ekkert annað að gera en að setjast niður og semja um greiðslur í fullri auðmýkt.

Hefurðu séð ummæli Lee Buchheit um þetta? Hann bendir á að eitt af því fáa sem við höfum haft okkar megin í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga hafi einmitt verið óvissan um þetta.

Ef við færum aftur að samningaborði (að því gefnu að Bretar og Hollendingar vilji það, sem Buchheit telur ósennilegt) er samningasstaða okkar margfalt verri en áður. M.ö.o. fengjum við varla jafn góðan samning.

Þetta er hluti af þeirri áhættu sem felst í að fara dómstólaleiðina.

Hvað má "auðmýktin" kosta þjóðfélagið?

En Lee Buchheit er væntanlega ekki marktækur - eða eitthvað.

Matti sagði...

Það er að segja, ef við færum aftur að samingsborði með dóm á bakinu.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Lee Bucheit er mjög aðlaðandi maður sem virkar heilsteyptur og öfgalaus.

Bretar og Hollendingar hafa samt enga leið aðra en að semja við okkur um greiðslur sem við yrðum hugsanlega dæmd til að greiða. Það er ekki eins og þeir geti bara mætt einn daginn og tekið Gullfoss upp í skuld. Það eina sem hefði breyst væri að við hefðum nýtt okkur óvéfengjanlegan rétt til varna.

Ferlið hefði átt að vera þannig allan tímann. Fyrst fær maður algerlega á hreint hver skuldar hverjum hvað, svo semur maður um greiðslutilhögun.

Lee hefur ennfremur bent ítrekað á að lagaleg staða okkar sé mjög sterk.

Hann var samt sem áður ekki ráðinn til að gefa ráð um það hvort við ættum að semja eða ekki. Hann var ráðinn til að semja. Hann gerði það. Vel.

Ef eignir þrotabúsins duga fyrir nær öllum kröfum (líka hinum helmingnum) þá gera þær það hvort sem við semjum eða ekki.

Það er nokkru til kostandi til að fá bara allt málið á hreint.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Við getum notað líkingu sem er eins og ættuð frá vini vorum Jóni V. Jenssyni.

Auðvitað ættu allir að ganga í kirkju og hefja tilbeiðslu á Guð. Ávinningurinn er að vísu ekki hafinn yfir vafa en í besta falli ríflegur. Áhættan er að sama skapi í besta falli lítil en í versta falli hrikaleg.

Allir skynsamir menn myndu segja að þótt vissulega sé hægt að taka afstöðu með eða á móti tilvist Guðs þá sé eðli Guðstrúar á engan hátt rök fyrir fólk að færa sig úr öðrum flokknum yfir í hinn. Það skipti meira máli hvað hver telur vera satt og rétt persónulega.