28. febrúar 2011

Er skóli án aðgreiningar góð hugmynd?


„Skóli án aðgreiningar“ er opinber skólastefna á Íslandi. Hér á landi ganga 99 börn af hverjum 100 í almenna skóla. Og raunar er þetta ekki aðeins skólastefna. „Samfélag án aðgreiningar“ er markmið félagsþjónustunnar – en undir hana falla málefni fatlaðra. Síðan um áramót hefur þjónusta við fatlaða og grunn- og leikskólar verið á sömu hendi. Sveitarfélögin fara nú með báða málflokka.

Hugmyndafræðinni á bak við hvorttveggja má lýsa einhvernveginn þannig að stefna skuli að því að í landinu sé aðeins eitt samfélag. Ekki eitt almennt samfélag fyrir þá sem geta/mega og svo hliðarsamfélög fyrir þá sem lenda út undan. Að fjölbreytileiki mannlífsins sé viðurkenndur og samþykktur og talinn æskilegur. Og að hver taki þátt á eigin forsendum. Mikill meirihluti fatlaðra á t.a.m. fullt erindi á vinnumarkað, getur búið í eigin húsnæði (að vísu oft með einhverri þjónustu) og getur tekið fullan þátt í félagsviðburðum.


„Samfélag án aðgreiningar“ snýst fyrst og fremst um hugarfar. Og síðan um að mölva burt óþarfa þröskulda. Ég lenti t.a.m. í deilu við Ágúst Borgþór „ofurbloggara“ um daginn þar sem hann hélt því sjónarmiði á lofti að blindir netverjar gætu vel fengið einhverja til að hjálpa sér við að skrá sig á netundirskriftalista ef með því móti væri hægt að gera slíka lista áreiðanlegri með þartilgerðum vörnum. Ágúst, sem margsannað hefur sig sem vandaðan mann, stefnir sínu hugarfari gegn mínu. Á meðan ég get ekki samþykkt það að settir séu upp þröskuldar sem fatlaðir þurfa hjálp yfir finnst honum það ekkert tiltökumál – en væri eflaust fyrstur manna til að bjóða fram aðstoð sína fyrir blindan vin. Sem hann á örugglega ekki.

Ég á fatlaðan frænda sem býr á Akureyri. Í mörg ár hefur hann búið við skerta hreyfigetu ofan á ýmislegt annað. Hann er algjörlega skýr í kollinum og vel greindur. En á veturna hefur hann verið dæmdur til fangavistar í íbúð sinni vegna þess að gert er ráð fyrir því að allir sem erindi eiga út ráði við það að klofa snjó. Og hann kemst ekki með almenningsvögnum því enn er ætlast til þess að þeir sem þá nota geti klifið lág þrep. Hann er því háður aðstoð annarra.

Samfélag án aðgreiningar fjarlægir óþarfa þröskulda. Það leyfir sér ekki að spara í snjómokstri og gera þannig fjölda fólks að strandaglópum á eigin heimilum.



Og samfélag án aðgreiningar kostar pening. Að vísu er langmesti kostnaðurinn tilkominn vegna þess hve rækilega samfélagið hefur verið aðgreint hingað til. Það þarf að setja upp lyftur, breyta lýsingu, leggja skábrautir, merkja með blindraletri, gera öryggisráðstafanir og ýmislegt af því tæi. En fyrst og fremst þarf að breyta hugarfari. Menn þurfa að skilja að maður þarf að læra nýja samskiptahæfni þegar maður umgengst marga fatlaða. Og þessi samskiptahæfni er mönnum ekki meðfædd. Þú dregur hana ekki fram með náttúrunar skilningsljósi einu og sér. Það er til dæmis algjör óþarfi að hækka róminn þegar maður talar við blindan mann eins og flestir virðast gera sjálfkrafa.

Margir Íslendingar eru tengdir fötluðum fjölskylduböndum. En sjaldnast með öðrum hætti. Fæstir eiga fatlaðan vin (nema fötlunin hafi komið á eftir vináttunni), vinnufélaga eða rótarífélaga. Og það er alveg eðlilegt að þegar maður verður þess áskynja hve illa við almennt stöndum okkur í að mynda félagstengsl við fatlaða að menn leggi allan þungann á fjölskylduböndin. Mjög margir aðstandendur fatlaðra taka að sér miklu veigameira hlutverk en væri ef félagslegur stuðningur kæmi úr fleiri áttum.


Ein af röksemdunum fyrir skóla án aðgreiningar er að börn þurfa að vera sýnileg hvert öðru. Börnin okkar eiga ekki aðeins að vita af tilvist fatlaðra, heldur líta á fötluðu börnin sem sjálfsagðan hlut. Þannig að þegar þau eldast þá þekki þau á eigin skinni að fólk er fjölbreytt. Og sá fatlaði á að vita að hann tilheyrir sama samfélagi og allir aðrir. Ef þetta er gert rétt græða allir.

En þetta er kannski ekki svo auðvelt. Á síðustu árum hafa menn uppgötvað að margar tegundir fötlunar eru ekki eins greiptar í stein og menn höfðu haldið. Með því að bregðast við fyrstu einkennum á forskólaaldri og með stífri þjálfun þá er í mörgum tilfellum hægt að fyrirbyggja að fötlun verði eins hamlandi og annars yrði. Þessa þjálfun þarf fagfólk að veita og þótt ekkert sé því til fyrirstöðu að þessi þjónusta sé veitt í leikskólum og grunnskólum þá verður ekki hjá því komist að borga fyrir hana.


Og sveitarfélögin hafa margsýnt að þau eru ekki reiðubúin til að veita þessa þjónustu. Í fyrsta lagi með því að vega harkalega að faglegu starfi í leikskólum (sem að þessu leyti eru oftast mun mikilvægari en grunnskólarnir) og svo með því að barma sér oft og ítrekað yfir fjölgun starfsfólks í grunnskólunum og leita leiða til að fækka því.

Þú gerir fötluðum enga greiða með því að senda þá í almennan skóla án þess að tryggja þeim kennslu við hæfi. Þvert á móti getur þú skemmt miklu meira en þú lagar. Það er betra fyrir fatlaðan einstaklinga að búa í hæfi aðgreindu samfélagi en óhæfu án aðgreiningar. Þú getur ekki aðeins eyðilagt möguleika á að fyrirbyggja hamlandi áhrif fötlunar (og þar með komið í veg fyrir sjálfsbjargarhæfni í framtíðinni) þú getur líka skapað ömurlegar félagslegar aðstæður. Þar sem hinn fatlaði upplifir sig sífellt sem undirmálsmann og verður félagslega einangraður og vansæll. Það er nefnilega svo að án fræðslu og breyttra viðhorfa þá lenda fatlaðir mjög neðarlega í félagslegri goggunarröð. Og þannig hefur það alltaf verið. Hluti af „sjarma“ Akureyrar hefur til dæmis alltaf verið að bærinn hefur átt sín „þorpsfífl“. Fólk sem allir Akureyringar þekkja með nafni og hafa hæðst að í gegnum tíðina. Börn ólust upp við að hæða og spotta þetta fólk og dreifa sögum um skringilegheit þess.

Samfélagið er ofið úr mörgum þráðum. Hver manneskja nýtur þess að hafa stuðning af margvíslegum þráðum. Menn eru elskendur, samstarfsmenn, frændur, vinir, kunningjar o.s.frv. Því fleiri og sterkari sem þræðirnir eru, því líklegra að manneskjan verði farsæl og nýti hæfni sína. Hver þráður sem frá þér liggur og styrkir þig, liggur aftur til þín og veitir einhverjum öðrum stuðning.


Það að setja fötluð börn í sérskóla er neyðarúrræði. Neyðarúrræði vegna þess að þau börn eru ekki þáttur í félagslega netinu nema að takmörkuðu leyti. Þau sitja í jaðri netsins studd af römmum taugum foreldra sinna og þess frábæra fagfólks sem sinnir þeim – og njóta vissulega hlýju, hvatningar og stuðnings – en þau eru samfélag utan samfélagsins. Þegar „venjulegu“ börnin alast upp og fara að marka stefnuna þá gleymast fötluðu börnin. Það lendir á aðstandendum að ota þeirra tota. Og það er ósanngjarnt. Fólk sem eignast fötluð börn á ekki að vera í umönnun þeirra alla ævi. Samfélagið á að hjálpa til. Við eigum að axla þessa byrði saman sem samfélag. Aðeins þannig verður byrðin létt.

Það má vel vera að mönnum þyki hvert tilfelli léttvægt. Það sé ekkert mál að redda þeim blinda í netkosningu eða ýta þeim í hjólastólnum gegnum skaflana út á strætóstoppistöð. En lífið er endalaus röð hindrana fyrir þann fatlaða. Og þótt aðstandendur og hugsjónamenn í umönnunarstörfum séu allir af vilja gerður til að rjúfa félagslega einangrun og hjálpa þá dugar það sjaldnast til.

Hve margir í hjólastól eru þekkt sjónvarpsfólk? Hversu oft eru mjög fatlaðir einstaklingar í hlutverki trúða í fjölmiðlum? Hve margir fatlaðir sitja á þingi? Í stjórnlagaráði? Hve margir þroskaheftir vinna á þínum vinnustað? Hvenær hittir þú síðast mjög fatlað fólk á djamminu? Fékk það að skemmta sér óáreitt?

Við erum ekki samfélag án aðgreiningar. En við viljum vera það. Við viljum vera það vegna þess að slíkt samfélag er ekki aðeins mannlegra, það er skynsamlegra. Meðan við höldum fötluðum úti á jaðri förum við á mis við ótrúlega hæfileika, vinnuframlag og vináttu sem getur auðgað líf okkar allra. Fatlaðir eru ekki vandamál fyrir samfélagið, þeir eru ónýtt auðlind.

En eins og allar nýjar auðlindir þarf að virkja þessa og því fylgir stofnkostnaður. Það þarf að leyfa sérfræðingum um fötlun að vinna við það inni í skólum. Það þarf að bera virðingu fyrir starfi leikskóla. Það þarf að vinna markvisst að því að skapa það umhverfi í skólum að börnin okkar læri það, sem við höfum ekki öll skilið, að það eru ekki inntökuskilyrði í samfélagið. Og það er í lagi að vera öðruvísi.