30. janúar 2008

Grunnskólinn er skilnaðarbarn


Fyrir rúmum áratug þegar ég skreið úr menntaskóla og fór að velta fyrir mér hvað ég ætti að fara að gera voru auglýsingastofur í gríð og erg að selja landsmönnum hugmyndina um að Framsóknarflokkurinn ætti fullt erindi inn í næstu öld. Salan tókst og það má vel vera að það hafi haft þau sálfræðilegu áhrif á mig að ég taldi að það gæti vel borgað sig að veðja á lítilmagnann á öðrum sviðum. Hvort sem það var ástæðan eða ekki, þá ákvað ég að læra heimspeki og verða kennari.

Á þessum áratug hef ég horft á allt þrennt stefna beina leið í gjaldþrot. Fólk er í fúlustu alvöru farið að spá Framsóknarflokknum aldauða, þá sjaldan að heimspekingar koma fram fyrir almenning og úða úr viskubelgjum sínum þá er það yfirleitt eitthvað hreinræktað og sérlega óvandað bull (hér er Ólafur Páll í síðasta Silfri einstaklega gott dæmi) og grunnskólinn er í ömurlegri stöðu.

Mig langar ekki að fjalla um fall Framsóknar, ég nenni ekki að tala um heimspekilegar sápukúlur en ég verð að tala aðeins um skólamál.

Það eina sem í dag virðist geta bjargað grunnskólanum frá fullkomnu hruni er kreppa. Sá bjargvættur ætti miklu meira skylt við vistarband en bólusetningu. Í nokkrum orðum er staðan þessi:

Grunnskólinn er skilnaðarbarn foreldra sem á stundum reyna að hylja nær fullkominn fjandskap með fagurgala.

Sveitarfélögin hafa alla tíð kvartað yfir meðlaginu sem fylgdi króganum og sagt (af foreldralegri umhyggju) að það sé útilokað að fæða og klæða barnið svo sómi sé að með þessar tekjur. Því til sanninda hefur fatnaður skilnaðarbarnsins orðið snjáðari með hverju árinu þar til nú að botninum er náð. Það stendur frammi fyrir alþjóð á gauðrifnum lörfum, vanhirt og vansælt.


Barnið gerði uppreisn gegn móður sinni fyrir nokkrum misserum. Það harðneitaði að vera lengur bitbein á milli fákunnandi foreldra. Kennarar fóru í verkfall. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé. Á meðal kennara er eitthvað af vanstilltu fólki sem hreinlega hefur sérstakt yndi af erjum og hafði bara gaman af því að fara í verkfall. En langflestir, og undirritaður þar á meðal, hötuðu það innilega.

Verkfallið endaði á því að móðirin hringdi í föðurinn og sagðist vera alveg búinn að missa stjórn á króganum. Síðan var organdi barnið dregið að símanum og hótað föðurlegri hýðingu gegn um eterinn.

Nær allir kennarar voru allan tímann viðbúnir því að málið yrði sett fyrir einhverskonar dóm, sem myndi ákvarða launin. Á yfirborðinu var það einmitt gert þegar verkfallinu var slitið með lagasetningu. Þó var einn, sérlega mikilvægur, munur á raunverulegum lyktum og ásættanlegum lyktum. Þeir aðilar sem ákveða áttu laun kennara fengu nefnilega sérstaklega undarleg fyrirmæli. Þetta var í upphafi kjarasamninga, fjöldinn allur af fólki beið með blóðbragðið í munninum þess sem verða vildi, tilbúið að gera launabætur kennara að lægsta samnefnara. Og þá sagði ríkið að þetta skyldi hafa í huga við að ákveða launin. Fyrirskipað var að launabætur kennara mættu ekki valda ólgu í öðrum kjaraviðræðum.

Þar með var það búið. Kennarar höfðu um langa hríð dregist aftur úr öllu velsæmi og löggjafinn ákvað frysta þá stöðu. Fyrst og fremst auðvitað vegna þess að annars hefðu sveitarfélögin verið snögg að koma með endurkröfu á ríkið vegna óheyrilegs kostnaðarauka.

Það eina sem forðaði kennarastétt frá hruni við síðustu kjarasamninga var það, að afar fjölmennur hópur kennara var þá þegar búinn að vinna sér inn umtalsverð kjaragæði á formi hagstæðra eftirlauna. Níutíuogfimmárareglan svokallaða gildir um fjölmarga reynslumikla kennara og segir til um að sækja megi eftirlaun þegar samanlagður lífaldur og starfsaldur er 95 ár – að því gefnu að lífaldur sé a.m.k. orðinn 60 ár. Kennarar á þessum kjörum hefðu þurft að vera vitfirrtir til að hætta kennslu. En það stappar við samskonar vitfirringu fyrir alla aðra að hefja kennslu á sama tíma.

Síðan þetta gerðist hefur orðið erfiðara með hverju ári að manna skólana og hlutfall eldri kennara hækkar í sífellu. Grunnskólar eru langt frá því að vera samkeppnishæfir um vinnuafl. Stóru sveitarfélögin reyna að lokka til sín fólk með loforðum um sundkort og líkamsræktarstyrki. Nú er svo komið að sveitarfélög eru farin að bjóða úthaldsgreiðslur, ef menn eru við störf í lok skólaárs. Bragð sem sveitarfélögin lærðu af Bónus. En þetta urðu Bónusmenn að gera fyrir nokkrum árum.

Viðbrögð skólanna er nauðvörn. Þeir sem eftir eru vinna gegndarlausa yfirvinnu eða fólk kemur til kennslu í dálítinn tíma og hverfur svo. Þau svæði landsins sem orðið hafa fyrir mestri þenslu mælast í frjálsu falli í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum á námsárangri. Fólkið á 95 ára reglunni er á leið út úr skólunum og ekkert blasir við nema auðn.

Menntamálaráðherra tilkynnti þó að von væri á allt öðru þegar nýtt kennaranám væri komið í fullan sving. Gallinn er, að það verður eftir áratug – en vandinn er núna.

Mörg sveitarfélög hafa ekki efni á samkeppnishæfum skólum. Þau eru eitt vandamál. Margir stjórnmálamenn vilja ekki setja meiri peninga í menntakerfið nema fá eitthvað áþreifanlegt í staðinn (eins og kerfisbreytingu), það er annað vandamál. Allar slíkar breytingar taka tíma, tíma sem við ekki höfum. Þær kalla líka á samstarfsvilja allra, sem sjaldan hefur verið minni.


Raunveruleikinn er sá, að ef fyrirheit um laun kennara breytast ekki stórkostlega í vor eða sumar, þá á Framsóknarflokkurinn sér meiri viðreisnar von en grunnskólinn. Enda er rausnarlegar í látið þar. Björn Ingi var styrktur um fimm mánaðarlaun kennara til kaupa á jakkafötum, bindum og sokkum fyrir síðustu kosninga – og hann sá enga sérstaka ástæðu til að telja það lítilræði fram til skatts.

2 ummæli:

Hilmar, Ágúst, Bóas, Kristján og Davíð sagði...

Ragnar við söknum þín! Saknaru okkar?

Kv. frá Húsavík

Ragnar Þór sagði...

Sælir drengir,

Alveg óskaplega. Segir það sig ekki sjálft?