Með því að velja þær upplýsingar sem maður tiltekur getur maður látið næstum hvað sem er hljóma hvernig sem er.
Eftir að sveitarfélögin tóku grunnskólana að sér hefur kostnaður þeirra við málaflokkinn stóraukist. Fyrst og fremst vegna þeirrar hugmyndafræði að hér skuli vera rekinn skóli án aðgreiningar. Í því felst að skólar skulu vera samfélag allra eða því sem næst. Að engum börnum skuli, fötlunar eða annarra ástæðna vegna, vera úthýst úr almennum skóla. Slíkur skóli gerir miklar kröfur til starfsmanna og kallar á fleiri starfskrafta en aðrir skólar. Auk þess kemur skóli án aðgreiningar í veg fyrir að hægt sé að búa til risastórar bekkjardeildir þar sem gerðar eru einhæfar námskröfur til stórs hóps nemenda. Og skóli án aðgreiningar er ekki bara slagorð. Íslendingar standa sig miklum mun betur en t.d. Finnar sem halda sjö sinnum stærri hluta nemenda utan almenntra skóla en við.
Og þetta er gott. Dýrt en gott. Og maður skyldi halda að menn hefðu í upphafi eða a.m.k. smám saman gert sér grein fyrir því að þetta kostar.
En svo virðist ekki vera.
Sveitarfélögin hafa enn ekki áttað sig á því að skóli án aðgreiningar mun áfram kosta – og kosta mikið. Þess vegna virðast sveitarfélögin sífellt vera að leita að skýringum á því hvers vegna skólinn á Íslandi er svona dýr. Nú hefur Halldór Halldórsson, formaður SÍS, komið fram með skýringu. Íslenskir kennarar kenna of lítið.
Hann bendir á að samkvæmt menntapúlsi OECD þá fari aðeins 37% af vinnutíma íslenskra kennara í sjálfa kennsluna. Það sé alltof lítið. Og með því að auka hlutfallið, þótt ekki væri nema lítilsháttar, væri hægt að spara mikið.
En við skulum skoða málið. Kíkjum í skýrsluna sjálfa, en í stað þess að skoða kennslu sem hlutfall vinnutíma skulum við skoða kennslu sem vinnutímamagn.
Á myndinni kemur glögglega fram að Halldór segir ekki nema hálfa söguna. Kennarar á Íslandi kenna alls ekkert minna en aðrir kennarar innan OECD-ríkjanna. Ísland er í 15. sæti af 31.
En hvernig má þá vera að íslenskir kennarar kenni svona hlutfallslega lítið? Jú, hugsanlega vegna þess að þeir vinna svo hlutfallslega mikið utan kennslu. Kannski er starfsárið lengra eða vinnudagurinn. Og þá gæti fréttin allteins verið þessi: „Íslenskir kennarar fá styttri sumarfrí en aðrir kennarar í OECD.“ Engum dytti í hug að auka álögur á þá þess vegna.
Þetta þarf Halldór að útskýra.
Hitt er svo áhugavert að skoða. Hvernig eru laun íslensku kennaranna í samanburði við aðra kennara í OECD? Ef launin eru mjög há er sjálfsagt að skoða það hvort ekki sé rétt að auka álögurnar.
Fannstu Ísland?
Íslenskir kennarar eru með þeim allra launalægstu í OECD. Og raunar er sama hvaða mælikvarða er varpað upp. Það er með engu móti hægt að sanna annað en íslenskir kennarar fái afar lág laun.
Halldór Halldórsson er sumsé að fara fram á það að hópur launalægstu kennara í vestrænum heimi bæti við sig álögum vegna þess að samanburður við aðra kennara sé þeim svo hagstæður.
Vissulega er hart í ári. En harðindin í skólakerfinu eru ekki vegna of hagstæðra vinnuskilyrða kennara. Og alls ekki vegna þess að hlutfall kennslu af vinnutíma kennara sé of lágt. Sveitarfélögin gætu t.a.m. treyst kennurum fyrir endurmenntun sinni og hætt að halda þeim í skólunum marga daga á ári hennar vegna. Það myndi hækka kennsluhlutfallið – en engu breyta um erfiðleika sveitarfélaganna.
Halldór gæti einnig prófað að reikna kostnaðinn við skólakerfið þannig að húsnæðiskostnaður sé tekinn út fyrir sviga. Tugir, ef ekki hundruðir, milljarða myndu þannig hverfa eins og dögg fyrir sólu úr bókhaldinu og Ísland húrra niður listann í átt til þeirra landa sem gera einmitt þetta, þurfa ekki að telja himinháan húsnæðiskostnað með. Það myndi heldur engu breyta fyrir niðurstöðuna.
Eða – Halldór gæti hreinlega gert sér grein fyrir því að það kostar að reka skóla án aðgreiningar. Það hefur alltaf kostað. Það hefur frá upphafi kallað á minnkun bekkjardeilda og lengra nám fyrir þá sem menntakerfið hefði fyrr á árum hrist af sér einhversstaðar á leiðinni og sent til sjós – eða í fangelsi. Það kostar að hafa fatlaða nemendur innan um ófatlaða. Nemendur sem þurfa jafn mikla mönnun og heill „englabekkur“. Það kostar að telja sjö sinnum fleiri nemendur fullgilda meðlimi í skólasamfélaginu en Finnar gera.
Og það kostar raunar mun meira en nú er til kostað. Kennari sem kennir í því kröfuharða umhverfi sem skóli án aðgreiningar er ætti ekki undir neinum kringumstæðum að vera eftirbátur annarra kennara í launum, eins og hér er. Og brottfall ætti ekki að vera nærri því svona mikið í framhaldsskólanum (en það er reyndar mál ríkisins).
Og ef Halldór kemst að þeirri niðurstöðu að Ísland sé ekki borgunarmaður fyrir þessu ætti hann að setjast niður með sveitarstjórnum landsins og Menntamálaráðherra og koma hreint fram. Viðurkenna bara að sveitarfélögin treysti sér ekki til að framfylgja menntastefnu landsins, og kalla eftir nýrri stefnu. Stefnu eins og þeirri í Finnlandi, eða Kóreu, eða Síngapúr. Þar sem nemendur eru flokkaðir niður eftir hagræði. Fjölmennir bekkir nemenda sem allir þurfa sömu þjónustu. Þá væri hægt að fækka kennurum og öðrum starfsmönnum töluvert. Tala ekki um ef við hreinsum burt úr menntakerfinu erfiðustu nemendurna. Nemendur sem kalla á gríðarlega þjónustu og mannskap. Við gætum jafnvel innleitt landspróf upp á nýtt þar sem stórum og stundum dálítið óþægilegum hluta þjóðarinnar yrði markvisst haldið frá námi.
Eða...
við gætum girt okkur í brók og haft smá trú á þeirri hagfræðilegu staðreynd að ekkert ríki kemst til velsældar eða heldur sér þar án þess að leggja fyrst dágóðan skerf til menntamála. Og að hið faglega starf skólanna líði ekki enn frekar fyrir vondar fjárfestingar í steypu, ljósleiðurum og öðru drasli. Og að kennarar séu vel menntaðir og vel launaðir svo þeir séu þáttur í lausninni. Finni nýjar og ódýrari leiðir til kennslu, nú á öld upplýsingatækninnar.
En fyrst og fremst þarf að hætta svona bulli. Þar sem almenningur er æstur upp gegn kennurum með lygum og blekkingum.
Sjá áfram: Lágt kennsluhlutfall – heimatilbúinn vandi.
31 comments:
Takk fyrir þessa frábæru grein. Orð í tíma töluð.
Valgerður K. Sigurðardóttir kennari
Þakka einnig fyrir frábæra grein !
kv. Eva Rós Vilhjálmsdóttir kennari
Takk fyrir þessa grein, vel mælt.
kv. Áróra Hrönn Skúladóttir, kennari.
Þessi grein frá Maurildi er því miður ekkert svar við skýrslum OECD "education at glance" þar sem íslenskt menntakerfi er alls ekki að koma vel út. Það að halda því fram að skýrsluhöfundar skilji ekki sérstöðu íslensks menntakerfis minnir helst á rök íslenskra bankamanna fyrir hrunið. Hugmyndin á bak við "education at glance" úttektirnar er þessi: "The Education at a Glance OECD Indicators enables countries to see themselves in the light of other countries’ performance. It provides a rich, comparable and up-to-date array of indicators on systems and represents the consensus of professional thinking on how to measure the current state of education internationally." Eftir að hafa skoðað þessa skýrslu sjá allir sem vilja sjá að við hér á Íslandi þurfum að gera miklu miklu betur. Kennarar þurfa ekki að fara í vörn, við eigum ekki að leita að sökudólgum heldur einhenda okkur í sóknina. Pétur Óskarsson, foreldri.
Pétur, ég get ekki annað en undrað mig á þessu innleggi frá þér. Ég er einmitt ekki að reyna að halda því fram að allt sé í himnalagi. Eða hrökkva í vörn og neita mér um sókn. Þvert á móti hvet ég til sóknar í niðurlaginu.
Það sem ég er að gagnrýna er blekkjandi og yfirborðskenndur málflutningur Halldórs. Ekkert annað.
Halldór er blekkjandi og yfirborðskenndur maður svo það er ekki við öðruvísi málflutningi að búast. Algerlega fyrirsjáanlegt að hann reyni að virkja fordóma almennings gagnvart kennurum til að kaupa sér svigrúm til að sveifla hnífnum.
En hvað veit ég, ég er jú alltaf í sumarfríi og vinn bara 40 mínútur af hverri klukkustund.
Takk fyrir góða og þarfa grein. Vona bara að sem flestir lesi hana eftir að hafa lesið grein Halldórs...grein hans gæti virkað sem olía á þann eld að kennarar séu alltaf í fríi og geri almennt ekkert af viti.
Kveðja
Margrét, kennari
Stórkostleg grein. Það væri frábært ef hún gæti fengið góða dreifingu. Nú fara sveitarstjórnarmenn að setja leikrit í gang til þess að veikja samningsstöðu kennara. Við látum þá ekki komast upp með það að hagræða sannleikanum.
Hér þarf að fara fram allsherjar uppstokkun og naflaskoðun um það hvernig samfélagi við viljum búa í. Ef sveitafélögin geta ekki rekið skólana verður ríkið að hlaupa undir bagga.
Haraldur F Gíslason
Leikskólakennari
Góð grein og fyrst og fremst góð gagnrýni á yfirborðskennda pólitík. Engu að síður má gera betur og skoða hvað er á bak við þetta lága kennsluhlutfall. Ég held að þú gerir of mikið úr þættinum "skóli án aðgreiningar/fyrir alla". Auðvitað útheimtir þessi hugmynd aukinn mannskap en hann hefur ekki per se áhrif á kennsluhlutfallið. Mín skoðun er sú að hlutfall stjórnunarkostnaðar hafi aukist verulega og kennarastjórnendur dragi þessa hlutfallstölu niður. Deildarstjórar/stigstjórar/fagstjórar/aðstoðarskólastjórar hafa skerta kennsluskyldu og stundum enga. Þegar kennarar hafa öðlast reynslu og starfsaldur fá þeir kennsluafslátt í stað hærri launa sem væri eðlilegra. Það er ljóst að hækka þarf laun kennara verulega en það þarf líka að gefa þeim tækifæri til að vinna meira að því sem þeir eru góðir í og menntaðir til. Að kenna.
Hjálmar Hjálmarsson
Gott að fá aðra hlið á málinu, hlið sem samt hefði ekki komið fram nema af því að Halldór kom fram með sína grein, sjaldan er með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!
Ég get ekki séð hvað er svona frábært við þessi skrif. Mér finnst þú sjálfur taka bara ákveðna hluti út úr skýrslunni kennurum til framdráttar. Skýrsluna þarf að skoða sem heild og sem heild er kennsla og kennarar á íslandi ekki að gera nóg. Það þýðir ekkert að bera saman laun kennara hér og í öðrum löndum, þetta getum við gert með allar starfsstéttir og við værum þarna neðst, laun miðað við aðrar þjóðir eru ekki rök. Og varðandi það að kennarar hér vinni mun meira utan kennslu... í alvöru? Yfirgnæfandi meirihluti þeirra kennara sem ég hafði í gegnum mína skólagöngu notuðu sömu verkefni ár eftir ár eftir ár, fer svona mikill tími í að ljósrita eða? Kennarar vinna ekki allann sinn vinnutíma en þeir fá hann borgaðann. Eitt sem er merkilegt með kennara, þeir fara í kennaranámið vitandi hvaða laun eru í boði og hvaða vinnuframlag þarf að skila en um leið og fólk útskrifast með kennsluréttindi að þá er það fyrsta sem gerist að fólk fer að væla yfir kjörum sínum. Hér á Íslandi er búið að útskrifa óhemjumagn af kennurum sem kenna ekki í dag, sennilega út af launum og öðrum kjaratengdum atriðum. Hvað kostar þetta samfélagið að koma öllu þessu fólki í gegnum skóla? Svo er það fyrsta sem margir gera nýútskrifaðir úr kennaranámi að finna sér vinnu við eitthvað annað en kennslu, kennarar eru ekkert annað en hræsnarar. Ef þér líkar ekki starfið eða kjörin, lærðu þá eitthvað annað, það er enginn að neyða þig í kennaranám. Sennilega velja flestir þetta til að geta setið á rassgatinu meira og minna allann daginn án þess að þurfa að gera of mikið og svo heillar sumarfríið nú líka. Eigið góðann dag.
Takk kærlega fyrir þessa grein. Vona að sem flestir sjái hana og sjái í gegnum orð Halldórs.
Atli kennari
Það er líka æðislegt að fá álit fróðra mann hér inn í skjóli nafnleyndar eins og sá sem á undan mér er hér. Þarna koma allar klisjurnar. "Ég veit um einn kennara sem..." línan er ansi öflug rök til að stimpla heila starfsstétt sem aumingja.
Atli Kristinsson kennari
Sæl hér
Fannst grein umrædds Halldórs strax mjög eitthvað undarleg í alla staði. Að kennarar á Íslandi séu ekki að skila nema þessari vinnu það finnst mér undarlegt í alla staði. Það er ástæða fyrir öllu og það er líka ástæða fyrir því að þetta er svona skv þessari skýrslu.
Það er einmitt mjög gott að bera Ísland saman við önnur lönd launalega séð og eru þá ekki þau lönd að skila meira kennsluhlutfalli? Eru þeir þá ekki um leið að fá greidd almennileg laun fyrir það? Og jafnvel að auki meiri og almennari aðgang að nýjungum í kennslutækjum, kennsluaðferðum og fleiru tengt því að kenna á grunnskólastigi?
Já maður spyr sig afhverju kennari? Jú þeir sem velja kennarstéttina eru þeir sem af einskærri hugsjón leita til þess að mennta ungdóm landsins, vera þeim fyrirmyndir, vilja sjá breytingar í skólakerfniu, vilja láta gott af sér leiða og svo margt annað. Ástæðan fyrir síendurteknu brottfalli kennara úr stéttinni til annarrra starfa er einfaldlega sá sannleikur að þegar fólk sér ekki fram á að markmið þeirra í upphafi eru ekki að nást finnist þeim því betur komið á öðrum starfsvettvangi.
Takk fyrir góða grein/svar. Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum og einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að það séu ansi margar hliðar á þessu einstaka máli. Þær hliðar þarf virkilega að fara ða skoða vel og koma skólakerfinu í lag. Það sem er að gerast í leik- og grunnskólum í dag er til háborinnar skammar fyrir velferðarþjóð með hátt menntunarstig og sérhæfingu. Sem gefur sig út fyrir að vera með skóla fyrir alla.
Bestu kveðjur, Anna Steinunn, stúdent á lokamisseri við leikskólakennaradeild H.Í.
Úff enn einn nafnlausi snillingurinn að fara á kostum.
" Eitt sem er merkilegt með kennara, þeir fara í kennaranámið vitandi hvaða laun eru í boði og hvaða vinnuframlag þarf að skila en um leið og fólk útskrifast með kennsluréttindi að þá er það fyrsta sem gerist að fólk fer að væla yfir kjörum sínum."
Ég er einn af þeim vælukjóum sem vissi að hverju ég gekk þegar ég fór í námið. Samt hef ég ekki fyrirgert rétti mínum til þess að berjast fyrir hærri launum.
Eigðu sjálfur góðan dag og haltu áfram að fara á kostum.
Haraldur F Gíslason
Leikskólakennari
Hjálmar, skóli án aðgreiningar hefur ekki áhrif á kennsluhlutfallið. Kennsluhlutfallið er ekki vandamálið. „Vandamálið“ er mikil mönnun á hvern nemanda og litlir hópar. Það er tilkomið vegna skóla án aðgreiningar og meiri þjónustu við nemendur og aðlögunar að þörfum þeirra, í stað þess að nemendur séu lagaðir að þörfum skólastofnana.
Nafnlaus. Þú byrjar á ágætum punkti sem ber vott um góða greiningarhæfni. Ég vel vissulega forsendur til að styðja niðurstöðu mína. En ég held að allt sem ég skrifa sé mjög gegnsætt og opið fyrir gagnrýni. Ég er engan að reyna að blekkja.
Niðurlag greinar þinnar um kennara er því miður agalaust og marklaust bull. Þú getur ekki metið menntakerfi dagsins í dag út frá persónulegri reynslu fyrir árum/áratugum. Margt hefur breyst. Til dæmis það að í dag er tekið tillit til fólks þrátt fyrir það að það kunni t.d. ekki grundvallarreglur stafsetningar. Þú ert velkominn að borðinu þrátt fyrir þennan galla enda hefur hann ekkert með greind þína að gera eða mannkosti.
Takk fyrir góð komment Haraldur, Anna og Atli.
"Sennilega velja flestir þetta til að geta setið á rassgatinu meira og minna allann daginn án þess að þurfa að gera of mikið og svo heillar sumarfríið nú líka." Mwuahaha. Veistu EITTHVAÐ um skólastarf og kennslu yfirhöfuð? Ég er ekki kennari og ég vinn ekki í skóla en ég get sagt þér að lítill hluta kennslu fer fram með kennarann sitjandi. Hann stendur á meðan hann fer yfir námsefnið og hann stendur á meðan hann aðstoðar nemendur. Sumarfríið er ekki eins dásamlegt og það lítur út fyrir að vera heldur því kennarar þurfa annars vegar að vinna eftir að skóla lýkur á sumrin og mæta til vinnu áður er skóli hefst að hausti.Er ekki allt í lagi að vera með staðreyndir á hreinu.
Einhver minntist á að stjórnunarkennarar drægu hlutfall kennslu af vinnutíma niður. Það hlýtur eiginlega að vera því ef við tökum bekkjarkennara þá kennir hann sínum bekk langflesta tíma og það er meira en 37% vinnudagsins sem fer í það.
Svo er annað sem má ekki gleymast en er mjög stórt og séríslenskt atriði.
== NÁMSGÖGN ==
Ég held að á fáum kennarastéttum í heiminum sé annað eins álag til að búa til naḿsgögn og á íslenskum kennurum.
Íslenska er alveg örugglega það tungumál sem minnstum fjármunum er eytt í að búa til námsgögn fyrir í allri Evrópu og því lendir það á kennurunum að búa til endalaus verkefni og lesefni. Nafnlausi rógberinn hér að ofan nefnir þetta: "tekur svona langan tíma að ljósrita eða?" JÁ það tekur bara fjandans langan tíma að ljósrita. Og að búa til námsgögn er skilgreint sem sérstakt og vandasamt starf útaf fyrir sig í öðrum Evrópuríkjum!
nafnleysingi skrifar: „Svo er það fyrsta sem margir gera nýútskrifaðir úr kennaranámi að finna sér vinnu við eitthvað annað en kennslu, kennarar eru ekkert annað en hræsnarar.“
Bíddu - en þeir sem fara gegn um kennaranámið en finna sér aðra vinnu, eru það kennarar? og kennarar þar með hræsnarar? Og hvað kemur það málinu annars við? Kemur ekki fyrir að fólk sem fer gegn um annað nám fari síðan í vinnu sem ekki tengist náminu beint? Og nýtist fólk í annarri vinnu ekki þjóðfélaginu?
Spes annars með Finnana, þeir koma alltaf gríðarvel út úr PISA könnunum. Minna fer fyrir því að það er að stórum hluta vegna þess að þar er pikkað í verr stöddu börnin og og þeim ekki leyft að taka þátt í könnununum. Bara þau börn sem eru vel stödd í námi taka þátt. Hér taka öll börn þátt.
Virkilega góð grein. Þessi vinkill er þarfur inn í umræðuna um okkar dýra menntakerfi. Ég ákvað 7 ára gömul að verða kennari og hélt þegar til kastanna kom að launin og kjörin væru mýta. Svo er nú heldur betur ekki.
Skóli án aðgreiningar er góð og gild stefna sem krefst mikils af kennurum og starfsfólki skóla og leikskóla. Kennslumagn má deila um en það yrði heldur betur að bæta í launaliðinn ef ætti að auka það. Nú þegar er ekki nægur tími til að sinna öllu sem þarf á 8 klst. vinnudegi.
Virkilega góð grein. Þessi vinkill er þarfur inn í umræðuna um okkar dýra menntakerfi. Ég ákvað 7 ára gömul að verða kennari og hélt þegar til kastanna kom að launin og kjörin væru mýta. Svo er nú heldur betur ekki.
Skóli án aðgreiningar er góð og gild stefna sem krefst mikils af kennurum og starfsfólki skóla og leikskóla. Kennslumagn má deila um en það yrði heldur betur að bæta í launaliðinn ef ætti að auka það. Nú þegar er ekki nægur tími til að sinna öllu sem þarf á 8 klst. vinnudegi.
Nú er bara að fá þetta birt í dagblöðunum.
Það að Ísland sé svona neðarlega á listanum skýrist eftir því sem ég fæ best séð af því að vinnustundafjöldinn (1800 klst.) er hærri en í flestum öðrum löndum. Fann bara þrjú lönd í skýrslunni með hærri vinnustundafjölda.
Kv. Anna
Hvað leika leikarar mörg % af vinnutíma sínum ? Og hvað messa prestar mörg % af vinnutíma sínum? Sum störf eru bara ótrúlega margþætt
Nokkuð góð grein bróðir, og aldrei þessu vant þá er ég sammála þér... Það er ekki einu sinni erfitt að viðurkenna það, í þessu tilfelli.
Menn verða bara að fara að gera sér grein fyrir því, að menntun kostar peninga, og ég sé bara ekkert eftir skattpeningunum mínum i að mennta börnin mín.. hvort sem það er á leikskólastigi, eða grunnskólastigi.
Það er margt annað sem ég sé meira eftir skattpeningunum mínum í, og af nógu að taka víða þar.
Keep up the good work..góð lesins.
Carl Berg bróðir..
Tekið úr skýrslunni: "In
Denmark, teachers must complete 200 days of
instruction in 42 weeks, while in Iceland they must
complete 180 days in 36 weeks. The number of hours
taught per day of instruction explains the difference.
While primary teachers in Iceland complete 20 fewer
days of instruction than their counterparts in
Denmark, they teach for about 30 minutes longer each
day." Skv. þessu er vinnuárið á Íslandi styttra en annars staðar í vinnudögum talið. Og þrátt fyrir 30 mín lengri vinnudag, sem gerir 90 klst, þá er það ekki nema 12 dagar í viðbót, í stað 20 daga í Danmörku, sem jafngidlir þá 192 dögum á móti 200 í Danmörku. Annað athyglivert er að vinnuvikur Kennara á Íslandi eru 36 á mót 42 í Danmörku. Þannig að ekki skýrir styttra sumarfrí, lægra kennsluhlutfall á Íslandi. Já, mér sýnist að það þurfi að skoða þetta út frá ansi mörgum hliðum áður en niðurstaða fæst. T.d. virðist vinnuvika íslenskra kennara miðað við þessar forsendur vera 52-53 klst, sem er mun meira en gerist á almennum vinnumarkaði á meðan vinnuárið er um 1900 klst sem er langt undir vinnuári annarra launþega á almennum vinnumarkaði. Menntun á að kosta peninga og menntun er dýrmæt, en það er ekki sama hvernig fjármunum er varið. Það er t.d. alveg fáránlegt að hlusta stöðugt á það að kennarar verji vinnutíma sínum og fjármunum skólans í ljósritun (sem er kostnaður) vegna þess að hentug námsgögn eru ekki til. Hvers konar hráskinnaleikur er það? Það þarf náttúrulega að gera átak í námsgagnagerð og tryggja það að kennarar geti nýtt tíma sinn til að kenna en ekki til að útbúa námsefni fyrir kennsluna. Mér þykir þó ljóst vera að við hér á Íslandi megum vel taka okkur á í þessum efnum og eftir að hafa verið með börn í skóla í þessu landi og öðrum, þá veit ég af eigin raun að við getum staðið okkur miklu betur. Það vantar metnað, ráðdeild og framsýni í íslenskt skólakerfi. Við erum lítið og sveigjanlegt land með fullt að duglegu og vel menntuðu fólki, og við ættum að vera í fararbroddi þjóða hvaða varðar nýsköpun í menntun. Augu annarra þjóða ættu að hvíla á okkur þegar kemur að hagræðingu, kennsluúrræðum og aðferðum, og árangri í menntakerfinu, og ekkert minna er ásættanlegt. Hættum að flækja málin og leysum þau. Góðar kveðjur Guðbjörg Pétursdóttir
Efri myndin er ekki stækkanleg Laga takk fyrir.
http://2.bp.blogspot.com/-BXwkz7mMIkA/TWLs8ABd0vI/AAAAAAAAA5c/9lIcZX5Ks78/s1600/mynd1.jpg
Frábær grein ...!!!
Skrifa ummæli