7. febrúar 2011

Reynir Axelsson og stjórnlagaþingskosningin


Svo er rökvísi venjulegs fólks dapurleg að Egill Helgason lauk viðtali sínu við Reyni Axelsson stærðfræðing á því að geta þess að þar sem Reynir væri vanur því að vinna með rök væri ástæða til að hlusta betur á hann en einhvern mann utan úr bæ.

Egill og hlustendur hans voru sum sé búnir að hlusta á Reyni færa rök fyrir máli sínu og hefðu, ef allt væri í lagi, átt að geta myndað sér skoðun á því út frá því einu – en Egill taldi greinilega ástæðu til að klykkja út með þessum orðum. Og Reynir tók undir og sagði að stór hluti vinnutíma síns færi í að þefa uppi rökvillur. Lauk þar með viðtalinu. Sem er pínulítið skondið í ljósi þess að þessi málalok eru einmitt skólabókadæmi um alþekkta rökvillu. Þar sem niðurstaða rökræðu er „styrkt“ með því að benda á hver mælti rökin fram.

En það er sosum aukaatriði.

Ég verð þó að taka það fram hér að mér finnst ekki mikið til greinargerðar Reynis koma. Því miður. Því miður vegna þess að ég hefði gjarnan viljað að hægt væri að sýna fram á fáránleika þess að ógilda það sem virðast vera fullkomlega heiðarlegar kosningar. Ég held engum detti í hug í alvöru að svindl hafi átt sér stað. Ég held ennfremur að enginn haldi að niðurstöður hefðu orðið aðrar þótt kjörseðlar hefðu verið samanbrjótanlegir og ómerktir, kjörkassar úr tré og gardínur fyrir kjörklefum. Ég held líka að kosningin hafi verið til fyrirmyndar í allri framkvæmd. Held það hafi varla verið hægt að gera þetta betur. Það sem klikkaði var ekki yfirkjörstjórn heldur Alþingi. Sem gætti þess ekki að nægilega að uppfæra lagarammann í takt við þarfir nútímans.

Ég hef skoðað rök Reynis lið fyrir lið. Þau eru þó í grunnatriðum þessi:

Meginröksemd Reynis er að Hæstiréttur sýni ekki fram á að svindl hafi átt sér stað. Rétturinn sanni hvorki að bókhald hafi verið haldið um röð kjósenda né að skráð hafi verið hver fékk hvaða seðil. Loks hafi ekki verið sýnt fram á að slíkir listar hafi verið nýttir við talningu til að rekja saman kjörseðla og nöfn.

Gott og vel. Hæstiréttur sýndi ekki fram á svind. Enda var ekki um neitt svindl að ræða. En ógilding kosninganna helgast ekki af neinu svindli. Hún helgast af formgalla. Þeirri ástæðu að kosningarnar uppfylltu ekki grundvallarskilyrði laga. Kosningar á Íslandi eiga að vera leynilegar. Svo var einnig um þessar.

Og í lögum er að nokkru leyti tiltekið með hvaða hætti þær eiga að vera leynilegar. Við skulum ekki eitt augnablik halda að þau skilyrði geti ekki verið á margan hátt úrelt og asnaleg. Og vafalaust munu skilyrðin breytast á ýmsan hátt þegar kosningar loks verða nútímalegar og tæknin tekin í þjónustu þeirra. Enn sem komið er eru skilyrðin þó ekki önnur en þau að kjósandi skuli fá samanbrotinn seðil sem hann dvelur einn með í kjörklefa og skilar svo samanbrotnum til baka í innsiglaðan kassa, sem höndlaður er á sérstakan hátt. Auk þess eiga frambjóðendur rétt á að vera viðstaddir vinnslu kjörgagna.

Þegar kosningar fara þannig fram að þú færð tölumerktan seðil sem þú sest með við borð, við hliðina á fleiri borðum, með skilrúmum á milli og skilar svo seðlinum án þess að brjóta hann saman í plastkassa þá er alveg ljóst að skilyrðunum er ekki fullnægt. Það þarf ekkert að rannsaka það gaumgæfilega að hve miklu leyti líkami fólks kemur í veg fyrir að fólk sem á leið framhjá geti séð á seðilinn. Vaflaust er erfiðara að horfa á seðilinn hjá Agli Helga og Reyni Axels en flestu öðru fólki en það skiptir engu máli. Og svo þarf að setja tölusetta seðilinn í kassa að kjördeildarfólki aðsjáandi. Og þá hefur þú tvo kosti. Að snúa seðlinum upp og sýna fólkinu hvað þú kaust eða snúa seðlinum niður og sýna númer hvað hann er!

Það þarf ekkert rökfræðirugl til að slást við þessi andmæli. Þau eru pottþétt. Kosningunni var áfátt. En henni var áfátt vegna þess að þeir sem boðuðu til hennar gáfu sér ekki tíma til að hugsa hana fyrirfram. Hún var framkvæmd eins vel og hægt var miðað við aðstæður.

Það var bara ekki nógu gott.

Það eru engin rök að segja, eins og Reynir gerir nokkrum sinnum í greinargerðinni, að málið sé á einhvern hátt smávægilegra vegna þess að til þess að svindla hafi þurft „einbeittan“ brotavilja. Kosningar ber að framkvæma þannig að jafnvel þótt einhver hefði slíkan vilja, þá væri honum eins ómögulegt og hugsast getur að koma þeim vilja fram.

Og hér dugar ekki að benda á að ef maður hefði nægilega mikinn vilja þá væri samt hægt að svindla þótt kjörklefar væru lokaðir og seðlar ómerktir. Til dæmis með því að hengja myndavélar í loftið eða merkja seðla með ósýnilegu bleki.

Maður verður ekki hyskinn og hirðulaus um framkvæmd kosninga bara vegna þess að maður á ekki roð í Mossad. Maður gerir hlutina eins vel og manni er unnt.

Ég held að kjörstjórnir hafi gert hlutina eins vel og þeim var unnt í kosningunum. Ég held að Alþingi hafi ekki gert það.

Því miður markast kosningarnar af því að við höfum valdhafa sem taka lýðræðislegar leikreglur ekki nógu alvarlega. Valdhafa sem eru svo uppteknir af einstökum verkefnum að þeir verða hirðulausir um hvernig þeir koma þeim í verk. Valdhafa sem virðast líta svo á (kannski réttilega) að við kjósendur séum þátttakendur í þeim hráskinnaleik sem íslensk pólitík hefur verið alla tíð. Kjósendur eru ekki uppspretta valdsins heldur vindhanar á burstum. Og menn taka ekki mark á þeim nema golan sé hagstæð.

Í hugum stuðningsmanna Stjórnlagaþingsins var framkvæmd kosninganna bara formsatriði. Og í hugum andstæðinganna voru gallar á framkvæmdinni sömuleiðis formsatriði.

En kosningar eru dálítið annað og meira en formsatriði. Þær eru ein af grunnstoðum lýðræðisríkisins. Ein af þessum stoðum sem við höfum hingað til haldið að væri sæmilega sterk á Íslandi þrátt fyrir að flestar aðrar af stoðunum væru sannarlega fúnar í gegn. En staðreyndin er sú að það er líka fúkki í þessari stoð.

Gamla Ísland er nefnilega í fullu fútti inni á Alþingi. Stjórnlagaþingið er m.a. sett því til höfuðs.

Það er algjörlega lífsnauðsynlegt að í stað þess að Stjórnlagaþing verði abrakadabrað upp úr hatti og haldið samt þrátt fyrir þessa vítaverðu vanrækslu – að kosningarnar fari fram aftur. Og að þetta verði gert rétt í þetta sinn. Og að þeir fulltrúar sem þá koma saman til að syngja yfir moldum Gamla-Íslands hefji ekki sitt starf angandi af nálykt.

Stjórnlagaþingið verður vonandi upphafið af stormi, ekki ólíkum þeim sem Hannes Hafsteinn orti um, sem feykir burt því visna og dauða og vekur fólk. Endar lognmolluna og hringsnýr okkur vindhönunum þar til við förum að hugsa sjálfir.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í þessum pistli eru tvær stórar villur.

Sú fyrri er fullyrðing um að þessar kosningar hafi ekki uppfyllt það skilyrði að vera leynilegar.
Enginn hefur sýnt fram að þær hafi ekki verið það.

Sú seinni er upptalning á þeim skilyrðum sem uppfylla þarf til að kosningar séu leynilegar.

Í kaflanum um framkvæmd kosninga á kjörstað í lögum um kosningar til Alþingis er aðeins sagt að kjósandi skili seðli í sama broti og hann fékk hann. Ákvæðið um að seðill skuli brotinn er í sama kafla og lýsing á prentun framboðslista og á því augljóslega ekki við.

Þú segir líka réttilega að kjörkassi skuli innsiglaður, þ.e. "læstur" í þeirri merkingu að það sjáist hafi hann verið opnaður. Kjörkassar í stjórnlagaþingskosningunni uppfylltu þetta skilyrði enda farið með þá eins og aðra kjörkassa. Hæstiréttur byggir hins vegar á bókstaflegri merkingu hugtaksins "læstur", þ.e. með lás, ekki aðeins innsigli. Formaður landskjörstjórnar hefur m.a. réttilega bent á að það er ekki sjálfur lásinn á hefðbundnum kjörkössum sem tryggir öryggi og leynd enda hægt að opna þá með skrúfjárni. Öryggið er tryggt með reglum um meðferð og frágangi sem tryggir að það SÉST ef þeir hafa verið opnaðir.
Þetta virðist hafa verið Hæstarétti ofviða.

Raunar er ekkert af því sem fram kemur í þínum pistli atriði sem Hæstiréttur mat "alvarleg".
Þeim atriðum hafa aðilar á borð við Reyni, Ástráð Haraldsson og Gunnar Eydal svarað með afgerandi hætti.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég nenni ekki titlingaskít.

Hæstiréttur taldi kosninguna ekki uppfylla reglur um leynd af ýmsum, misalvarlegum, ástæðum.

Hann benti á að áður hafa kosningar verið ógiltar út af slíku.

Það var löggjafans að setja reglur um svo viðamiklar kosningar í stað þess að framkvæma kosningu sem er svo nýmóðins að hana vantaði lagagrunn.

Nafnlaus sagði...

Þú segir: "Kosningar ber að framkvæma þannig að jafnvel þótt einhver hefði slíkan [einbeittan brota]vilja, þá væri honum eins ómögulegt og hugsast getur að koma þeim vilja fram." En það er einmitt það sem Reynir var að segja, hann hélt því fram að það hefði ekki verið hægt að rekja saman númer á seðlum og einhverja hugsanlega lista ef þeir hefðu verið til nema með víðtæku samráði fjölmargra manna. Það er einmitt eins ómögulegt og hugsast getur.

Svo benti Reynir líka á mjög góðan punkt, sem þú nefnir ekki, og það er að Hæstiréttur vitnar ekki rétt í lögin um kosninguna. Það segir nefnilega að "kjördeildir, kjörstaði og framkvæmd atkvæðagreiðlunnar fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á". En Hæstiréttur tók ekki eftir orðunum "eftir því sem við á", honum til mikillar vansæmdar. Með öðrum orðum er opið fyrir að einhverjum atriðum sé hnikað til ef það á við eða er nauðsynlegt og þar með er þetta kjörklefamál að engu orðið. Enda þykja aðrir eins kjörklefar boðlegir í löndum allt um kring, sem við berum okkur gjarnan saman við, svo ekki er vandinn sá að þetta séu ekki boðlegir kjörklefar, heldur að þeir hafi ekki verið skv. lögum um Alþingiskosningar, sem þó mátti breyta út frá. Hæstiréttur las bara ekki nógu vel. Ég lít alla vega svo á að Hæstarétti sé ekki sætt á að andmæla kjörklefunum.

Það má vel vera að eitthvað hefði mátt betur fara í kosningunum og það má vel vera að það se hægt að finna eitthvað að rökum Reynis, ég er líka sammála þér um að það var hallærislegt af Agli að vera eitthvað að lofa Reyni sem einhverja rökmaskínu, en þetta eru samt góðir punktar hjá Reyni. Og ég er ansi hræddur um að Hæstiréttur hafi líka skitið aðeins á sig.

Nafnlaus sagði...

Ég vann einu sinni við það að sjá nöfn einstaklinga á ökuskírteinum, merkja við nafnaskrá að viðkomandi hafi fengið kjörseðil á kjörstað. Við vorum tveir saman að vinna í því í alþingiskosningum 1998. Þetta þekkja allir sem hafa kosið í alþingiskosningum. En það sem vakti athygli mína var að það sat annar maður á í herberginu okkur algjörlega óviðkomandi. Fyrst vissi ég ekkert hvað hann var að vesenast. Svo komst ég að því að þetta var flokksbundinn sjálfstæðismaður. Hann var líka með nafnalista og merkti við hverjir voru að kjósa. Nokkrum tímum síðar kom flokksbundin sjálfstæðiskona og leysti manninn af. Þetta voru þrír eða fjórir einstaklingar minnir mig sem voru þarna frá tíu um morguninn til tíu um kvöldið. Sjálfstæðismenn voru með öðrum orðum að fylgjast með því hverjir kusu og ef til vill líka klukkan hvað. Svo heyrði líka seinna að þeir hringja í fólk sem á eftir að kjósa síðustu klukkustundirnar á kosningatíma til að fá fólk til að kjósa. En ég get ekki staðfest það. Að vísu gátu sjálfstæðismenn ekki séð hvað hver kjósandi kaus en þeir gengu samt sem áður eins langt og þeir gátu. Kjörseðlarnir voru að vísu ekki númeraðir fyrir vélar eða fólk og sjálfstæðisnjósnararnir fengu ekki að koma nálægt kjörseðlunum. Ég velti því fyrir mér hvort þetta séu listarnir sem þekkjast í kosningum sem hæstiréttur og kærandur eru að tala um og eru þeir kannski ennþá til í Valhöll sjálfstæðismanna. Vita þeir þá hverjir kjósa oftast og hverjir kjósa aldrei? Nota þeir þessar upplýsingar til að markaðsetja flokkinn hjá þeim sem nenna oftast ekki að kjósa? Mætti túlka þetta sem brot á lögum um kosningaleynd? Hvað kemur það sjálfstæðimönnum við hverjir nenna ekki að kjósa? Hvað finnst þeim í Persónuvernd um það? Hæstaréttardómararnir eru allir Sjálfstæðismenn og vita ef til eitthvað um þessa lista og óttast núna sjálfir lista til að rekja hver kaus hvað. Sem í reynd er óframkvæmanlegt. Ef til vill eru sjálfstæðismenn hættir að senda menn á kjörstaði til að fylgjast með því hverjir hafa kosið. Það er svo mikill dónaskapur að ég á bara ekki orð yfir því. Ef ég hefði verið kjörstjóri 1998 í alþingiskosningum þá hefði ég rekið þá öfuga út úr húsinu og sagt þeim að skammast sín og læra mannasiði.

Nafnlaus sagði...

En bíddu.. er ég að misskilja eitthvað ( sem má vel vera), eða getur verið að sá hluti sem snýr að leynd kosniganna, þar að segja að kjörseðlarnir séu raðnúmeraðir, hafi ekkert með það að gera að sá í kjörklefanum við hliðina á þér geti lesið á hann ?

Hvað með mannin sem er að telja, og er með fyrir framan sig kjörseðla með númerunum 1-300 ( má alveg vera einhver önnur talnaruna). Hann sér þig svo, félaga sinn (eða óvin eða einhvern frægan, eða bara what ever), koma og kjósa, og þú labbðir fjórði maðurinn inn á kjörstað.

Þegar svo þessi sami maður er að telja atkvæðin, þá getur hann séð að á kjörseðli númer fjögur var einmitt bara búið að kjósa feitar kellingar ;)

það sem ég á við, er að meðan þessir seðlar eru raðnúmeraðir, þá er þetta hvorki í skilningi laganna, né heldur í praktis orðin leynileg kosning. það eru nefnilega sömu aðilar sem afhenda þér kjörseðlilinn, og telja hann. þetta veit ég sjálfur því vinur minn var nú bara í því uppí verkmenntaskóla að rétta mér kjörseðlilinn, og taldi svo atkvæði líka. Þó svo að það séu jafnvel vélar sem eiga að telja atkvæði, þá eru alltaf einhverjir sem mata vélarnar (vélar, tölvur breytir ekki öllu) mannshöndin kemur alltaf einhversstaðar að þessu. Það þarf að handtelja suma kjörseðlana og þá blasa þessi raðnúmer við...

þetta er nú bara eitt af nokkrum fáránlegum atriðum varðandi þessa kosningu, og það að menn skuli ekki geta haldið hérna kosningar sem stæðust lög, eða breytt lögunum svo kosningarnar stæðust, sýnir bara hversu gersamlega óhæfir þessir aðilar eru sem tóku þá ákvörðun að fara út í þessar kosningar.
Þetta var bara fáránlegur skrípaleikur sem flestir ákváðu að taka ekki þátt í, og ég skil það bara mjög vel.

Nú ef Jóhönnu og Skattgrími er svona svakalega umhugað um að hlusta á þetta "stjórnlagaþing" varðandi breytingar á stjórnarskránni. Afhverju gefur jóhanna þá þessum 25 manna hóp þá ekki bara umboð til að setjast niður og koma með tillögur að breytingum ? Hún getur jafnvel borgað þeim fyrir það. Hún getur bara stofnað nefnd, eða skipað þau í starfshóp. þau geta bara hist á kaffihúsi, eða heima hjá Ómari og skilað svo tillögum sem Jóhanna fer svo hvort eð er ekkert eftir.

það er svo verið að búa til úlfalda úr Mýflugu varðandi þetta bull, að ég er gersamlega kominn með upp í kok af þessu. Svo ætla menn að láta eins og þetta sé eitthvað stórt þjóðfélagsmál bara ? Það liggur ekki mest á því í dag, að troða inní stjórnarskránna algerlega óútskýrðu ákvæði um auðlindir Íslands,sem hafa svo í raun annaðhvort ekkert lagagildi eða menn verða að rífast um túlkunina á því í dómssölum næstu hundrað árin. Allir vilja troða slíku ákvæði í stjórnarskrána, en enginn getur sagt hvað það ákvæði á að þýða...

(framhald)

Nafnlaus sagði...

(framhald....)

Annars fannst mér þessi rétt liðlega 113 ára gamli stærðfræðingur sem kom í Silfur Egils bara ekki einu sinni vera að tala sama tungumál þeir sem tala um þetta mál af viti. Í prinsippið snýst þetta um lögfræðileg málefni, en ekki að finna rökvillur. Þetta er ekki heimspekikúrs. Hæstarétti ber að fara eftir lögum landsins, og dæma eftir þeim, ekki stúdera heimspeki eða finna rökvillur. Ef menn eru ósammála þá sker dómsvaldið þar úr. Það eitt að einhver hafi kært þessi úrslit, bendir til þess að einhverjum hafi þótt eitthvað athugavert við framkvæmdina. Alveg sama þó ætlunin hafi ekki verið að "svindla". Hæstiréttur átti ekki að meta það hvort einhver hafi ætlað að svindla í þessu, og því þurfti hæstiréttur ekkert að sanna það neitt. Auk þess sem það er alveg grundvallar atriði,að hæstiréttur er ekki í aðstöðu til að sanna eitt né neitt, það er ekki hans hlutverk.. um það sér ákæruvaldið !

Mér fannst það barnalegt af Agli að draga í þáttinn sinn einhvern eldgamlan fausk, sem er búinn að tuða og liggja yfir þessu í stofunni heima hjá sér svo mánuðum skipti, og fór svo að tala um rökvillur og stærðfræði, þegar málið snýst um lögfræði !

Ég vil fá þetta stjórnlagaþings bull, út af borðinu hið snarasta, svo hægt sé að fara að rífast um þetta blessaða IceSave enn eina ferðina... og það liggur á að klára það rifrildi, svo hægt sé sem allra fyrst, að byrja að rífast um það aftur.

Insjallah...
Carl Berg ;)

p.s: Athugasemdakerfið tekur ekki við nægilega löngum færslum...