5. desember 2010

Hverjir eiga að hafa aðgang að grunnskólabörnum?

Á Íslandi er skólaskylda til 16 ára aldurs og fræðsluskylda til 18 ára. Þrátt fyrir að gerð hafi verið tilraun til að bjóða foreldrum val um grunnskóla þá hefur það að mestu gengið til baka. Skólar eru aftur orðnir hverfisskólar, grunnskólar nær algjörlega og framhaldsskólar að verulegu leyti.

Ég er einn af þeim sem tel að trúarinnræting eigi ekki heima í starfi grunnskólans (sjá t.d. Ósvífni FÉKKST) en ég verð þó að setja fyrirvara við afstöðu mína. Mörg börn á grunnskólaaldri eru ekki í neinu tómstundastarfi. Alltof mörg. Flest vegna þess að foreldrana skortir andlegt eða veraldlegt bolmagn. Þessi börn verða menn án þess að hlúa að eða rækta hæfileika sem hefðu getað orðið að höfuðstefnum lífs þeirra eða a.m.k. gefið þeim lífsfyllingu sem áhugamál. Að ekki sé talað um að þessi börn munu ekki vaxa upp til fyllingar hæfileika sinna. Og nú bendir margt til þess að kreppuviðbrögð sveitarfélaganna verði að leggja alla áherslu á reikning, skrift og annað andlaust tuð svona rétt á meðan við höfum „ekki efni“ á öðru.

Tómstundir og íþróttir eiga ekki að vera einkamál foreldra. Ekki frekar en tannheilsa. Og meðan þúsundir barna njóta engra tómstunda, stunda enga listræna sköpun og eru þjökuð af hreyfingarleysi – þá er þvæla að vera að reisa múra utan um grunnskóla. Það er sama hvaðan gott kemur.

Mig grunar að foreldrar sem gera athugasemd við kirkjulegt starf í grunnskólum séu frekar stöndugir, vel menntaðir og líklegir til að sinna tómstundum barna sinna vel. Og satt best að segja held ég að börn þeirra fari síst á mis við meira – eða séu meira útundan – en sum önnur börn sem t.d. kirkjan eða önnur félagasamtök eða stofnanir gætu komið til móts við ef þeim væri leyft það.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En það hvarflar ekki að neinum að banna kirkjunni að bjóða börnum upp á tómstunda- eða félagsstarf. Og það hefur aldrei verið í umræðunni.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

E...jú. Það hefur víst verið og er í umræðunni. Ef þig vantar nánari upplýsingar getur þú sent mér línu og ég get tekið fyrir þig dæmi.