Ein magnaðasta afleiðing efa í mannlegu samfélagi er óvissan. Allt okkar líf snýst að meira eða minna leyti um óvissuna.
Óvissunni til höfuðs er hæfnin sett. Hæfni eyðir óvissu.
Hæfni skiptir mestu máli í grunnstoðum samfélagsins: Fjármálakerfinu, heilbrigðiskerfinu, dómskerfinu, stjórnmálakerfinu – en mestu máli skiptir að hæfni sé til staðar og verði til í menntakerfinu. Ef menntakerfið elur á vanhæfni verða hin kerfin öll vanhæf.
Þetta hefur leitað mjög á mig í pælingum um orsakir og eðli Hrunsins. Hrunið varð vegna vanhæfni. Varð líklega vegna þess að við áttuðum okkur ekki á því að við vorum aldrei fullgildir meðlimir í peningaleik þjóðanna. Við gátum aldrei spilað annarsstaðar nema í þriðju deild. Það skipti engu máli hvort við fjárfestum vel eða illa – lausafjárvandræði myndu alltaf ríða okkur að fullu nema við gættum þess að hafa agnarsmátt hagkerfi í stíl við agnarsmáa þjóð.
Og upp á síðkastið hefur pælingin um hæfnina og óvissuna leitað á mig í tengslum við ásakanir um kynferðisbrot. Kynferðisbrot eru yfirleitt framin í kyrrþey og á leikvelli brotamannsins. Hann hefur það vald yfir aðstæðunum að það þarf ekki nema meðalgreindan þrjót til að tryggja að ekkert verði sannað. Að auki eru kynferðisbrot af augljósum ástæðum oft unnin gegn þeim sem síst geta varið sig. Gegn þeim sem brotamennirnir bera minnsta virðingu fyrir. Og stundum eiga brotamennirnir þessa óvirðingu sameiginlega með samfélaginu öllu.
Mér finnst satt að segja harla ómerkilegt þegar menn barma sér yfir því að vera opinberlega „teknir af lífi“ með ásökunum um kynferðisbrot, jafnvel þótt ásökunin væri lygi – við hliðina á öllum þeim fórnarlömbum sem hafa þurft að horfa á brotamennina sleppa vegna skorts á sönnunum eða vegna formgalla. Að minnsta kosti frá félagslegu sjónarhorni. En frá sjónarhorni réttlætisins horfir málið öðruvísi við.
Fyrir ekki svo löngu var manni sleppt við ákæru vegna nauðgunar vegna upptöku sem hann hafði á símanum sínum af „meintu“ fórnarlambi. Og fórnarlambið var, að minnsta kosti um hríð, fordæmt af samfélaginu. Ef ég man rétt var fórnarlambið rétt skriðið af barnsaldri og gerandinn var hópur eldri drengja. Þið fyrirgefið en ég vorkenni þeim sem sakaður var um nauðgunina ekki neitt. Það má vel vera að það hafi verið réttlátt að sleppa honum en það var samt siðlaust. Hópar drengja sem nýta sér margvísilegan áhrifamátt til að ríða ungum stúlkum eru viðbjóðslegir.
En það er ekki ólöglegt að vera siðblindur fáviti og fífl. Það er bara gerð krafa á að þú fylgir þeim lágmarksleikreglum sem samfélagið setur. Þú mátt að öllu öðru leyti vera eins misheppnuð manneskja og þú kýst og valda eins mörgum skaða og ama og þig langar til. Sá vandi sem til verður vegna fávita er margslunginn og erfitt að leysa hann. Besta forvörnin er þó líklega öflugt og hæft mennta- og heilbrigðiskerfi.
Nema hvað, ég hef af því miklar áhyggjur að dómskerfið sé ekki hæft til að tækla kynferðisbrotamál. Dómarar hafa því miður framselt allt vald til sálfræðinga og geðlækna. Og til að skera úr um sekt og sakleysi er farið eftir því hvort tilteknum sérfræðingi finnist frásögn viðkomandi trúverðug og hvort hún sé samkvæm sjálfri sér.
Sálfræðingar eru því sálmeinafræðingar réttarkerfisins. Og hér er vandinn.
Til að byrja með ýtir svona vinnulag undir mýtur um „eðlileg“ viðbrögð við kynferðisglæpum. Raunveruleikinn er auðvitað sá að það er ekkert hægt að sjá utan á fólki hvort það hefur verið beitt slíku ofbeldi. Viðbrögð fólks eru margvísleg og það að dæma eftir ætluðum meðalviðbrögðum getur vel orðið til þess að flytja ábyrgina yfir á fórnarlambið, sem kennir sjálfu sér kannski um að skorta réttu viðbrögðin – og efast þá jafnvel um alvarleika glæpsins af sömu sökum.
Og hitt, að þessi einkenni, sem sálfræðingurinn leitar að, geta verið bæði óeinlæg eða til staðar af öðrum orsökum. Það er t.d. ekki óeðlilegt að álykta sem svo að kona sem ásakar saklausan mann um nauðgun eða áreitni sýni af einhverjum ástæðum mikið af þeim einkennum sem finnast hjá fórnarlömbum ofbeldis.
Nú er ég ekki að gera lítið úr sálfræðingum. Alls ekki. En sú stétt fræðinga er eins og allar aðrar stéttir undirseld efanum. Og efanum verður ekki eytt nema með mikilli fagmennsku, og meira að segja þá aldrei alveg. Ég held að ef sálfræðingur væri spurður hvort hann væri tilbúinn að fangelsa „meintan“ geranda eftir greiningu á fórnarlambinu þá myndu langflestir svara neitandi. Sálfræðingur lítur svo á að hann sé aðeins að meta trúverðugleika fórnarlambsins.
Sá trúverðugleiki er þó ekki nema eitt lítið skref í átt til sektar. Aðeins trúverðug ásökun ratar fram fyrir dómara í svona málum til að byrja með.
Réttlætið krefst þess að sekur maður sleppi frekar en að saklaus sé ranglega dæmdur. Dómskerfið byggir á þeirri frumforsendu. Réttarkerfið ræður illa við kynferðisbrotamál. Það er staðreynd og verður líklega lengi enn.
Ég held að leið okkar sem samfélags til að bregðast við þessum vanda sé ekki að telja okkur trú um að fagmennska dómara og sálfræðinga geti eytt þessum efa. Við þurfum að sætta okkur við hann og útbúa stuðningskerfi fyrir fórnarlömb. Stuðningskerfi sem ekki spyr um sekt eða sakleysi. Stuðningskerfi sem leitast við að byggja upp það sem var brotið, vinna úr reynslunni og koma lífinu á réttan spöl aftur að eins miklu leyti og hægt er. Kerfi sem setur fókusinn á manneskjuna sjálfa, sem trúir henni, dæmir hana ekki, krefst ekki sannana. Neyðarmóttaka vegna nauðganna á ekki að snúast um eyrnapinnastroksýni eingöngu.
Ég held það sé eina raunhæfa leiðin. Því miður.
En síðan þarf að veita fé í grunnþjónustu (og þeim mun rausnarlegar sem dómskerfið á erfiðara um vik), t.d. í menntakerfið sem þarf að berjast gegn því að það geti talist eðlileg hegðun að lokka ungar stúlkur sem eiga erfitt til hópkynmaka í bílum.
Kynferðisglæpir eru eins og krabbamein. Það er hægt að berjast gegn þeim og jafnvel útrýma einhverjum tegundum. En það snýst á endanum um eitthvað annað en réttlæti.
1 ummæli:
Vel mælt. Ef nemendur þínir geta tamið sér þá glöggskyggni, sem þessi grein endurspeglar, megum við sem samfélag meira en vel við una.
Skrifa ummæli