11. desember 2010

Stærðfræðin og þróunaraðstoð


Ýmsir hafa reynt fyrir sér með stærðfræðikennslu gegnum netið. Að mínu mati er samt sá besti Kanadamaðurinn Wayne Loutet (mincusbc á Youtube). Nú hefur hann sett á netið myndband sem byggir á dæmisögu um geimferðalanga. Í myndbandinu er reifuð hugmynd um nýja nálgun í þróunaraðstoð. Hugmyndin er svona:

Þjóðum heims yrði raðað í röð eftir efnahag (eða velsæld). Síðan yrði röðinni skipt í þrjá flokka: A, B og C.

A eru best settu lönd heimsins.

B eru lönd sem eru sæmilega sett en eiga nóg með sjálf sig.

C eru lönd sem þurfa á aðstoð að halda.

A og C löndin eru höfð jafn mörg.

Síðan fær hvert A-land úthlutað einni „vinaþjóð“ úr flokki C. Næstu fimm ár fara þau framlög sem A hefði annars greitt til þróunarmála eingöngu í að styrkja innviði og efla vinaríkið. Samskipti landanna geta verðið gagnkvæm á ýmsan hátt og A þannig líka hagnast á samvinnunni (þótt auðvitað þyrfti að fyrirbyggja arðrán og annan ára).

Ef allt gengur að óskum munu ríkin í flokki C smám saman taka fram úr ríkjum sem eru í flokki B. Við það skipta þau um sess og næst fer „þróunaraðstoðin“ til hins nýja ríkis. Þótt auðvitað gætu „vinaríkin“ haldið áfram margháttuðu samstarfi og nú jafnvel auk þess í samstarfi við nýja ríkið.

Kostir þessarar aðferðar eru greinilegir og margir. Einn sá stærsti er samt sá, að ekki er verið að fara fram á aukin útgjöld. Einungis að þau útgjöld sem iðnvædd ríki hafa nú þegar skuldbundið sig til að greiða verði nýtt á markvissari hátt.

Ísland væri líklega í B-flokki fyrst um sinn ef farið væri eftir þessu kerfi. En þegar við komum okkur af stað aftur gætum við fengið það hlutverk að tengjast t.d. Maldív-eyjum sem eru álíka fjölmennar og við og lifa á sjávarútvegi og ferðamennsku.


Engin ummæli: