23. nóvember 2010

Er KR verri en kirkjan?

Upp á síðkastið hef ég kennt einn heimspekitíma á viku unglingunum í skólanum mínum. Við höfum, eins og gefur að skilja, rætt um allt milli himins og jarðar. Ein af pælingunum sem situr eftir hjá mér snýr að starfi unglinga með íþróttafélögum.

Ég er einn þeirra sem er á því að skýr mörk skuli vera milli trúboðs og fræðslu í skólum. Og raunar finnst mér að það ættu að vera slík mörk í öllu starfi með börnum og unglingum. Það á ekki að fara á milli mála hvar trúariðkun fer fram og hvar ekki.

Ein af ástæðum þess er að trúarbrögð innræta gildismat og skoðanir sem alls ekki er sjálfgefið að allir geti fallist á. Fæstir vilja t.d. að börnum sé sagt að það sé eitthvað bogið við homma eða að notkun getnaðarvarna sé synd eða að kynlíf megi ekki stunda utan hjónabands. Fæstir aðrir en þeir sem sjálfir hafa slíkt gildismat til að byrja með.

Ég hef í raun miklu meiri áhyggjur af þjálfun unglinga í íþróttum að þessu leyti en nokkru sinni þjóðkirkjunni eða öðrum trúfélögum. Íþróttafélög virðast algjörlega sátt við að kenna börnum að ljúga og strá siðblindu í augun á þeim.

Til að byrja með virðist almennt vera viðurkennt í þjálfun unglinga í boltaíþróttum að reglur íþróttarinnar séu aðeins til viðmiðunar. Ef tiltekin regla stendur í vegi fyrir dauðafæri eða nauðvörn þá víkur reglan og í staðinn kemur ósköp kaldrifjuð pragmatík. Og lygi er beinlínis kennd. Ef þú missir bolta útaf í fótbolta í baráttu úti við hliðarlínu átt þú að lyfta handleggnum og þykjast eiga innkastið. Öll ábyrgðin, og þar á meðal sú siðferðilega, er hjá dómara leiksins. Hann á að sjá í gegnum lygi þína. Ef hann gerir það ekki er það hann sem feilaði, ekki þú.

Öruggasta leið til að tryggja siðblindu er að fokka í réttlætiskennd fólks með sannfærandi rakaleysu þar til ósiðlegar athafnir eru farnar að virka siðlegar og jafnvel réttlátar. Ég ætla tiltaka tvö raunveruleg dæmi.

Ég kannast við unga stúlku sem lengi hefur æft handbolta. Hún er kristin. Frelsuð meira að segja. Hún blótar ekki, rífst ekki og vandar breytni sína og hugsanir eins og hún getur. Samviskusamari manneskju er erfitt að finna. En hún hefur líka unnið til verðlauna í íþrótt sinni. Og sagði mér brosandi að auðvitað væri sjálfsagt að snúa upp á geirvörtur keppinautanna, stíga á tær þeirra og gefa olbogaskot. Þjálfarinn segði þeim að gera þetta og sérstaklega við skapstóru stelpurnar sem líklegt var að hægt væri að lokka útaf með þessum hætti. Þetta fylgdi bara íþróttinni.

Önnur stúlka hefur lengi æft fótbolta. Þjálfarinn hennar notaði þau rök að ef þær lentu á líkamlega sterkari mótherjum ættu þær að toga, ýta, slá og gefa olnbogaskot. Og ef þær hugsuðu málið þá sæju þær að það væri ekki nema réttlátt. Þetta væri í lagi því stærðin gæfi hinum stúlkunum forskot. Bellibrögðin væru bara til að jafna leikinn, gera hann réttlátari.

Og þetta er látið viðgangast. Börn eru heilaþvegin, látin ljúga, gerð ónæm fyrir réttum rökum og siðferði – allt undir nefinu á okkur. Og þetta er gert með útsvari borgaranna.

Á tyllidögum er talað um fer plei en raunveruleikinn er einfaldlega þessi sem ég er að lýsa.

Þá er ég alveg tilbúinn að leyfa allskyns prestum og prelátum að reyna að troða vafasömum hugmyndum inn í kollinn á börnunum áður en ég samþykki það að siðblindum, lygasjúkum boltabullum sé treyst fyrir þeim.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kæri frændi...

Hallast að því að þú hafir eigi spilað mikið íþróttir á lífsleiðinni, svona að mestu leiti allavega.

Rétt er að það er mikið talað um fair play, aftur á móti get ég með engu móti séð hvernig Íþrótt getur verið skemmtileg ef allt er spilað eftir bókinni.

Utan við það hversu langur vegur er milli þess að þó svo að sá sem leggur stund á Íþróttir og spilar hart og er lúmskur um að ná manneskju útaf eða ná yfirburðum með olbogaskotum(sem nánast er alltaf brottrekstrarsök) og öðru, sé að nokkru leiti verri manneskja fyrir vikið.

Það eru ekki margir staðir þar sem sjálfstraust fólks vex eins mikið og í Íþróttum og hafa þar bæði þjálfarar og lið mikil áhrif, oftar en ekki nær einmitt minna liðið eða persónan fram sigri með lymsku eða með því að fara aðeins á svig við reglurnar.

Annað er það að of mikið af hinu góða verður til þess að þú eða liðið verður fyrir skakkaföllum í formi dóma og brottrekstra.

Því í nánast öllum íþróttum er dómari til staðar til að ákvarða það, þó þeir séu ekki fullkomnir þá heyrir það til undantekningar að allt leysist upp.

En aftur á móti til að svara upphaflegur spurningunni þá er KR án efa verri en kirkjan, en það er ekki einsdæmi heldur í þeim hóp má einnig finna KA og Liverpool.
En ástæðan fyrir því að þessi félög eru verri en kirkjan er allt önnur umræða en sú sem þú tekur fram í pistlinum :)