Og kennarar grípa til þess sem þeim er heilagast: fagmennskunnar. Að ráðast að fagmennsku einhvers er ljótara en að hafa af honum manndóminn.
Mig langar að benda á að kennarar eru ekki alveg hræsnislausir þegar kemur að þessu.
Það er a.m.k. tvennt sem veldur því að ekki er við hæfi að kennarar innræti börnum trú. Í fyrsta lagi er almennt álitið að trú sé einkamál. En það er ekki nóg. Smekkur er líka einkamál en kennarar reyna miskunnarlaust að hafa áhrif á alla smekkvísi nemenda sinna. Hitt er stærri ástæða, að nú er ekki lengur öll vitleysan eins. Íslendingar aðhyllast mörg trúarbrögð í dag. Og þá fylgir óhjákvæmilega að þegar kemur að eilífðarmálunum þá eru allir sannfærðir um að einhverjir aðrir hafi rangt fyrir sér. Og menn hafa á kurteislegan hátt kosið að vera sammála um að vera ósammála og rugga ekki bátnum um of. Og í stað þess að samþykkja bara alla vitleysuna og halda bæði upp á páska og Ramadam þá er valin sú faglega leið að fræða en ekki boða. Skólinn tekur ekki þátt í trúariðkun en fræðir nemendur um hana.
Bara ef kennarar gætu sýnt sömu faglegu vinnubrögð þegar kemur að eigin starfi. Það er nefnilega almennt viðurkennd hjá fagsamtökum kennara að kennarar megi trúa á kukl. Og ekki nóg með það, þeir geta sótt fé í almenna sjóði kennarasamtakanna til að ástunda þetta kukl. Og spyr þá enginn hvort þeir sem borgi í sjóðina séu sáttir við slíkan málatilbúnað.
Nú er það nefnilega svo að kennarar geta ekki fengið fé úr Sjúkrasjóði til að fara til tannlæknis. En þeir geta fengið styrk til að fá aðstoð hjá „viðurkenndum“ græðurum, en til þeirra telja bæði hnykkjarar og hómópatar. Þú getur sumsé fengið styrk til að láta laga ímyndað flæði orku um líkamann og til að kaupa þér sykurtöflur sem innihalda ekki neitt.
Það er kannski spurning um að hreinsa til í eigin bakgarði áður en maður fer að reita arfann hjá öðrum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli