31. október 2010

Halló, fjölmiðlar!!!

Svipan hefur sýnt lofsvert frumkvæði í að gera kjósendum kleift að gera upp á milli frambjóðenda. Notendur Wikipediu líka. Rúv fetar á eftir þeim.

Það sem alvöru fjölmiðlar með fólk í vinnu verða að gera núna er að setja sig í samband við frambjóðendur eða a.m.k. bjóða frambjóðendum að svara allítarlegum stöðluðum spurningalista um helstu áherslur í samningu nýju stjórnarskrárinnar. Auk opinna spurninga.

Síðan á að opinbera þetta almenningi. Og við eigum að geta gert tvennt. Flett upp frambjóðendum eftir stefnumálum og svarað spurningalistanum sjálf.

Þegar við værum búin að svara sjálf kæmi upp úrslitasíða, þar sem kæmi listi yfir þá 25 frambjóðendur sem stemmdu best við okkur sjálf (t.d. bara í prósentum) og jafnvel líka listi yfir þá sem pössuðu síst og linkur á þá sem ekki gáfu upp afstöðu. Við myndum þá skoða þessa 25 efstu nánar og sjá opnu spurningarnar líka og getum þá hreinsað burt þá sem slæðst hafa með vegna ónákvæmni.

Þeir frambjóðendur sem ekki nenna að gefa upplýsingarnar eiga ekki skilið að vera kosnir hvort eð er.

Þetta er ekki mikið mál.

Auk augljóss hagræðis þá er þetta eina markvissa leiðin til að kosningarnar séu af viti. Loks kemur af þessu aðhald. Þegar búið er að velja fulltrúana er hægt að sjá glögga tölfræði yfir málefnalega stöðu þeirra sem kosnir voru á þingið. Það veitir ákveðið leiðakort við samningu skrárinnar. Og hægt verður að hanka menn á ósamkvæmni fari þeir inn undir fölsku flaggi.

PLÍS, gerið þetta! Látum ekki fyrstu alvöru tilraun til lýðræðisumbóta á Íslandi koðna niður í rugl vegna skipulagsleysis.

PS Þið mynduð að auki fá gríðarlega umferð og græða monnípenínga.

Engin ummæli: