21. nóvember 2010

Katrín Jakobs verður að fara að vinna

Það verður að segjast eins og er að menntamálaráðherrann okkar er alls ekki að standa sig vel. Miðað við það sem kemur út úr ráðuneytinu fær maður á tilfinninguna að þar ráði ríkjum „Já, ráðherra“-stemmning og að kerfisfólk ráði þar ríkjum.

Það hefur algjörlega mistekist að afnema samræmd próf sem inntökupróf í framhaldsskóla. Nú er komið ranglátt kerfi í staðinn fyrir heimskulegt. Og þó, það er varla hægt að kalla það kerfi, því enginn virðist geta fullyrt að farið verði eftir sömu inntökureglum í vor og síðasta vor. Engar kröfur eru gerðar á framhaldsskóla um faglegt, heildstætt og heilbrigt mat á umsækjendum. Engar kröfur um að framhaldsskólar miði við fleiri þætti en árangur á bóklegum prófum. Og engar kröfur til grunnskóla um að útvega framhaldsskólum slíkt mat.

Og nú hefur verið tekið upp andstyggilegt stimpilkerfi. Sérþarfanemendur skulu hér eftir rækilega sérmerktir við skil milli skólastiga.

Vandamálum nemenda fer fjölgandi. Sífellt fleiri nemendur búa við erfiðleika og erfiðar aðstæður. Innan skólanna eru starfandi nemendarverndarráð. Ráðin eru fagleg og til þess ætluð að vera sérfróð um úrræði og eðli vandamála. Kennari sem hefur áhyggjur af nemanda getur vísað máli hans til ráðsins sem metur málið og stingur upp á úrræðum.

Nú hefur nemendaverndarráðum verið meinað að fjalla um einstaka nemendur án þess að hafa fyrirfram samband við foreldra barnsins.

Það hefur að sjálfsögðu tvennar afleiðingar. Í fyrsta lagi munu kennarar veigra sér við að vísa málum af gráa svæðinu áfram til ráðsins og í öðru lagi munu fleiri mál fara beint til barnaverndaryfirvalda, sem nú þegar ráða illa við að sinna verkefnum sínum.

Allt sem kemur úr ráðuneytinu þessi misserin er þess eðlis að byggja á einhverjum skynsamlegum forsendum (auðvitað er gott að losna við samræmd próf, tryggja slökustu nemendunum þjónustu og gæta þess að foreldrar fái upplýsingar um meðferð barna sinna) en í öllum tilfellum gleymdist að taka lykilforsenduna inn í matið: raunveruleikann.

1 ummæli:

Bjössi sagði...

Við þetta má bæta því að hæstvirtur ráðherra hefur ekki dug til að standa uppi í hárinu á Eiríki Jónssyni sem þvertekur fyrir að stytta skólaárið (og sleppa okkur kennurum þar með við gönguferðir og boltaleiki á hundadögum). Skásta úrræðið sem hæstvirtur ráðherra hefur látið benda sér á er að minnka vægi list- og verkgreina. Mjög frumlegt eða hitt þó heldur. En auðvitað má hún ekkert vera að því að setja sig inn í kosti og galla aðgerða í menntakerfinu, hún er allt of upptekin við að gæta hagsmuna Halldórs Ásgrímssonar.