6. ágúst 2010

Heimspeki og trúmál



Tilraunir til að rökræða trúmál fara oftar en ekki út um þúfur. Þeir, sem mæla fyrir trúleysi, eiga við ramman reip að draga. Eru stimplaðir öfgamenn og áróðurseggir. Hvatir þeirra eru tortryggðar. Hvers vegna geta þeir ekki unnt öðrum þess að trúa? Hví þurfa þeir að troða sínum „skoðunum“ ofan í kokið á öðrum? Af hverju þurfa þeir að vera svona ákafir?

Það má vel vera að það sé æskilegra að vera góður og glórulaus en upplýstur auli. En það er eðli alvöru rökræðu að það á ekki að skipta máli hver færir rökin fram. Það er líka eðli ónýtrar rökræðu að rökræðandinn verður aðalatriðið. Fyrstu kvenfrelsissinnarnir sem eitthvað kvað að voru herskáir. Og þessi ákefð varð værðarvoð öllu því „góða fólki“ sem halda vildi áfram að kúga konur („Af hverju skyldum við vilja að konur hættu að vera eiginkonur og mæður til að verða eins og þið?!“). Ákefðin var höfð til marks um einhverskonar brenglun. Enn í dag er íslenskt samfélag gegnsósa af svona viðhorfum, t.d. til femínista.



Fáist menn til að rökræða um trúmál má vera nokkuð viss um að tiltekin þemu koma fljótt upp. Hið fyrsta má kalla „djúpið“. Djúpið er eins og rökræðuleg sérstaða (í merkingu heimsfræðinnar). Og á sama hátt og eðlisfræðilögmálin hætta að virka þegar þú reiknar þig inn í svarthol eða miklahvell, þá vilja sumir meina að rökræðan hætti að bíta þegar komið er að trúarsannfæringu. Trúarsannfæring sé enda staðfest með einhverskonar tilfinningu eða opinberun. You've got to be there to believe it. Og það er meint dýpt þessarar sannfæringar sem fær suma trúmenn til að fullyrða að trúin sé hafin yfir rök.

Því fer fjarri að djúpið sé nýtilkomið í rökræðum um umdeild mál. Stuart Mill benti á fyrirbærið í Kúgun kvenna:

„Eins lengi og einhver skoðun er djúpt rótgróin í tilfinningunni, styrkist hún fremur en haggast við sannanir sem bornar er fram móti henni hversu ljósar sem þær eru. Ef skoðun þessi væri til orðin við tómar íhuganir mundu máttarsúlur sannfæringarinnar undir eins bila þegar sýnt hefði verið fram á að rangt hefði verið ályktað. En þegar einhver skoðun hefur eigi við annað að styðjast en tilfinninguna, þá er það sannreynt að því meir sem hún er hrakin með rökum, því sannfærðari verða þeir menn er hallast að henni um að tilfinning þeirra hljóti að hafa einhvern djúpan grundvöll sem sannanir nái eigi til.“ (Útgafa Híb 1997:70)



Annað þema er „loðmullan“. Hún birtist í mörgum myndum og felst í því að taka réttmætan efa eða óvissu, rækta hann og auka við hann og ausa úr honum yfir það sem maður vill andmæla (en alls ekki yfir þá skoðun sem maður sjálfur vill halda fram). Birtingarmyndir loðmullunnar eru t.d. póstmódernísk afstæðishyggja, afbygging og nauðhyggja.

Loðmulluna má sjá í aksjón þegar trúarhugtakið er teygt og þvælt þangað til maður á að halda að allt sé trú. Þannig séu það trúarbrögð að styðja Liverpool eða vera trúlaus. Með því að ganga nógu langt getur maður komist að þeirri niðurstöðu að allar athafnir krefjist trúar. Það að ganga krefst trúar á það að maður geti með tilteknum taugaboðum sett annan fótinn fram fyrir hinn. Það að andmæla krefst trúar á að maður geti komið hugsunum sínum í orð. Trúlaus maður sé dauður maður.

Og fyrst allt krefist trúar á annað borð þá sé ekki hægt að hafna trú.

Svona heimspekilegir ranghalar eru út um allt í sögunni. Díógenes sat í tunnu og veifaði fingri.

Ekkert breytir þó því að loðmullan hefur nákvæmlega engan sannfæringarmátt. Enda er hún ekki notuð til þess að sannfæra, hún er notuð til að drepa málum á dreif. Það má vel vera að okkur takist aldrei að koma auga á það sem tengir saman orsök og afleiðingu með öðru en reynslunni. Og það er alveg rétt hjá Hume að þótt sólin hafi hingað til komið upp á hverjum einasta morgni þá höfum við rökfræðilega enga sönnun fyrir því að svo verði á morgun.




En það langur vegur frá því að viðhafa heilbrigðan efa um reynslusannindi yfir í trú sem er andstæð reynslu.

Það má vel vera að þegar ég opna næst mjólkurfernu þá renni ekki úr henni mjólk. Það myndi ekki rústa heimsmynd mína þótt ég gangi jafnan út frá því. En það er allt önnur ella ef ég reyndi að trúa því að í hverri mjólkurfernu séu auk mjólkur ósýnilegir álfar og þeim sárni ef mjólkin er ekki drukkin í nægum mæli – og þá súrni mjólkin. Og það er vissulega rétt að rökfræðilega hef ég hvorki endanlega sönnun á því að í mjólkurfernum sé mjólk né álfar. En það gerir þessar tvær skoðanir ekki jafn réttháar.

Efinn er nefnilega sundrandi. En ekki framleiðandi. Þú getur ekki byggt upp trúarbrögð með því að efast um vísindin. Það er eins og að reyna að losa sig við konuna sína með því að læsa sig og hana inni með hópi af mannætum.

Engin ummæli: