Þetta er áhætta sem allir læknar þekkja og þessi sama áhætta blasir víða við, t.d. í vistfræði. Í raun og veru má orða þessa hættu einhvernveginn þannig: „Ef þú getur ekki drepið það, reyndu þá ekki að drepa það.“
Og þá að efni pistilsins. Frelsið™ virðist gera þá kröfu að í opnu lýðræðisþjóðfélagi megi ræða allt uppi á borðum. Allar skoðanir megi og eigi að ræða. Rökræðan sé enda í eðli sínu byggð á grjótstólpum sammannlegrar skynsemi – og að óvægin rökræði (en jafnframt heiðarleg) greini kjarnann frá hisminu.
Raunin held ég sé sú að rökræða er miklu líkari krabbameinsmeðferð. Og ég er að komast á þá skoðun að sum mál sé hreint ekki rétt að rökræða. Það á ekki að rökræða rugl. Það á ekki að rökræða við öfgamenn, kynþátta- eða kvenhatara. Og það á ekki að rökræða trúmál.
Rökhyggjunni mun aldrei takast að útmá hjátrú og hindurvitnum. Jafnvel þótt rökræðunni tækist að sýna fram á fíflsku og fávísi 99.9% þess sem barist er gegn, þá mun þetta prósentubrot aðeins vaxa og dafna – og snúa svo aftur sem mun skæðari pest. Ekki ein og sér, heldur mun þetta 0,1% virka sem einhverskonar Trójuhestur sem öll hin vitleysan getur falið sig í. Það sem virtist svívirt, myrt og grafið snýr hikandi aftur á sjónarsviðið eins og meðlimir Fönixreglunnar sem sjá að Voldemort hreinlega getur ekki drepið Harry Potter. Ódauðleiki eins hefur tilhneigingu til að fylla marga ódauðleikakennd.
Þá er betra að leyfa vitleysunni að hafa sinn gang. Leyfa henni að hverfa hægt og rólega úr þróunarsögunni eins og illa heppnaðri kvefveiru.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli