24. júlí 2010

Kristinn Grefill

Sæmilega áhugaverð tilraun er gerð á bloggsíðu trúleysingjans Kristins Theódórssonar til að rökræða eilífðarmálin (sem ættu að kallast svo því það er ómögulegt að komast til botns í þeim).

Tilraunin á að snúast um tvær spurningar:

1. Er trúleysi trú?
2. Er siðferði manna beintengt trúarbrögðum?

Báðar þessar spurningar eru gallaðar og þannig smíðaðar að niðurstaðan er fyrirsjáanlega gagnslaus.

Trúleysi er að sjálfsögðu ekki trú. Það er útilokað. Það þarf ekkert að ræða. Sá sem vill halda öðru fram getur aðeins gripið til tveggja ráða. Annaðhvort víkkar hann trúarhugtakið út þar til það er orðið ómögulegt að hafna því eða gætir þess að nota hugtakið í sitthvorri merkingunni í orðunum trú og trúleysi. Til að hér sé rætt um það sem skiptir máli þyrfti að ræða spurningu sem er eitthvað á borð við: „Felst mótsögn í trúleysi?“ Það skiptir nefnilega engu máli hvort hægt er að heimfæra einhverskonar trú upp á þann trúlausa, svo lengi sem slíkur skilningur er ekki í mótsögn við trúleysi hans.

Seinni spurningin er líka ónýt. Auðvitað er siðferði manna beintengt trúarbrögðunum. Það er augljóst. Um það þarf ekkert að rökræða. Það er andlegur subbuskapur að orða spurninguna svona almennt. Vandamálið felst í orðinu „beintengt“ sem nær yfir milljón tegundir tengsla. Hér átti að orða spurninguna einhvernveginn svona: „Eru trúarbrögð nauðsynleg forsenda siðferðisins?“. Þar með væri verið að ræða kjarna málsins.

Öllu sæmilega hugsandi fólki ætti svo að verða það æði ljóst að svarið við báðum spurningum er nei.

1 ummæli:

Kristinn sagði...

Ég lagði einmitt til við Grefil að við umorðuðum seinni spurninguna svo hún hefðu þá merkingu sem þú ert að leggja til hér.

Það leist honum eitthvað illa á, svo ég ákvað að leyfa honum að hafa þetta svona og ætlaði þá bara að taka hann á skynseminni með það.

Hvort nokkurri skynsemi er til að dreifa hjá honum er síðan önnur saga.