Ég vona að aðstandendur Besta flokksins lesi það sem hann hefur að segja, og sömuleiðis það sem hér stendur, í þeim tilgangi að vita betur hvaða verkefni bíður þeirra – og að þeir reyni að beita dálitlu af sköpunargleði í tilraunum sínum til að bæta skólakerfið.
Ég er kennari í Norðlingaskóla, þeim skóla á Íslandi sem hvað sigursælastur hefur verið ef tekið er mark á verðlaunum og viðurkenningum. Og get fullyrt að þótt vissulega sé notalegt að fá viðurkenningar og það kitli hégómleika okkar allar – þá hafa þessi verðlaun og viðurkenningar átt fullkomlega hverfandi þátt í mótun skólastarfsins.
Í skólanum starfar stór hópur kennara. Allir réðu sig upp á tiltekna hugmyndafræði, en ef þú spyrð tíu kennara í skólanum hver sú hugmyndafræði er þá færðu tíu mismunandi svör. Og hvert einasta svar væri með upphrópunarmerki í endann. Starfsmannahópurinn er ótrúlega fjölbreyttur. Við höfum ofdekruðu hundraðogeitt rottuna sem heldur að umferðareyjur séu græn svæði, við höfum mannfælnu listaspíruna sem bætir við sig einum feisbúkkvini á ári, við höfum ofvita sem skellir sér í dragg þegar vel liggur á honum, við höfum norðlenska besserwisserinn sem þykist geta greint alla í kringum sig, við höfum ofvirka íþróttastrumpinn sem talar í frösum og getur ekki verið kyrr, við höfum ströngu kennslukonuna sem hefur neytt börnin sín og manninn sinn til að hafa gaman af því að hlaupa um móa með plöntugreiningarlykla, við höfum ofurkvenndið sem afkastar á við fimm og skilur eftir sig slóð kaffibolla um allt hús, við höfum a.m.k. tvo kennara á einhverfurófi – annar myndi fórna lífi dóttur sinnar fyrir síðasta eintakið sem hann vantar til að eiga fullkomið safn hljómplatna eftir amrrískt glysrokkband, hinn getur varla skitið án þess að fjöldi lorta sé frumtala.
Og í þessum hópi er tekist á, guð minn góður hvað það er tekist á. Í tíu manna hópi eru tuttugu skoðanir – og hverja einustu skoðun þarf að selja.
Og þrátt fyrir þetta allt, náum við að reka skóla sem ég leyfi mér að fullyrða er einn sá áræðnasti, frumlegast og mest skapandi á landinu – og þótt víðar væri leitað. Við erum ekki fullkomin, en enginn veit það betur en við. Og enginn er reiðubúnari að benda á gallana en við. Engin verðlaun og viðurkenningar geta breytt skólastarfinu svo nokkru nemi. Og hér eru því ráð til ykkar sem stjórnið borginni. Ef þið viljið virkilega hlúa að því starfi sem reynir að efla skapandi hugsun, áræðni og gagnrýni með nemendum sínum ættuð þið að huga að nokkrum hlutum:
1. Sýnið fordæmi.
Beitið skapandi hugsun, áræðni og gagnrýni í samskiptum ykkar við skólana, stjórnendur þeirra og annað starfsfólk. Burt með stimpilklukkuhugsunina (já, borgin er í alvöru nýbúin að innleiða stimpilklukku í skólana), burt með andlausa, excel-hugsun í tölvumálum (þar sem milljónatugum er eytt í einhverja kalla sem krefjast þess að fá að strauja allar tölvur skólanna helst í gær, til að installa enn einu fíflheldu og rándýru stýrkikerfinu (hvernig væri að skoða lausnir með opin hugbúnað og spara milljónir?)).
2. Sýnið virðingu.
Með fullri virðingu fyrir ykkur þá starfar innan grunnskólans fólk sem hefur margfalt meiri þekkingu á skólamálum en þið. Þetta fólk þurfið þið að fá með ykkur. Það þýðir ekkert að senda boð að ofan. En umfram allt, berið virðingu fyrir nemendunum. Ekki miða skólann við reynslu ykkar og barna ykkar, reynið að setja ykkur inn í þann heim sem tugþúsundir nemenda búa við á hverjum degi. Reynið að átta ykkur á hvað er þeim verðmætt og hverju þeir vilja breyta. Og hér er ekki nóg að senda stórar kannanir inn í skólana með svo reglulegu millibili að það er orðið ígildi þess að fullorðnir fái símtal frá kapasent gallúpp. Hvernig væri að borgarstjóri fundaði með krökkum í Reykjavík á MSN einu sinni í mánuði og ræddi um það sem er gott og það sem má bæta? Eða kallaði til sín nemendur úr skólaráðum í kakóspjall?
3. Menntið menntarana.
Meira og minna allt sem þið viljið gera á sér einhverskonar vaxtarbrodd inni í háskólunum. Reynið að opna leiðina á milli grunnskólanna og háskólanna. Reynið að leggja súrefnisslöngu þar á milli. Í dag virkar kerfið þannig að nemandi er fylltur af hugsjónum í námi sínu og er svo sendur í afvötnun í skólana. Háleitar hugsjónir krefjast reynslu, og reynslulaus kennari er ekki í nokkurri aðstöðu til að breyta einu né neinu.
4. Druslist til að klára skólann okkar.
Norðlingaskóli er skúraþyrping. Við beitum að vísu jákvæðri sálfræði og köllum skúrana skála. Þeir verða ekkert fallegri við það. Krakkarnir eru löngu komnir með ógeð á húsnæðinu og í könnun eftir könnun er aðstaðan það sem dregur mest úr ánægju foreldra og nemenda með skólann. Hægagangurinn hefur verið ótrúlegur. Og í þessu hverfi, sem hefur ekki neitt nema eina þjóðvegasjoppu, stendur t.a.m. hálfklárað íþóttahús í miðri skólabyggingunni á meðan börnin í hverfinu stunda áberandi minni hreyfingu en öll önnur börn á Íslandi. Helst er að börnin fái hreyfingu þegar þau annaðhvort flýja í ofboði undan eða hlaupa á eftir músum sem eru reglulegir gestir í skólanum. Við þurftum að henda haug af flottum verkefnum nemenda því þau voru nöguð og útskitin.
5. Hugrekki fylgir val
Ef þið ætlið að styðja við sköpunargleði þá verðið þið að tryggja valfrelsi. Um leið og skóli tekur djarfar ákvarðanir verða foreldrar í hverfinu að hafa val um að setja börnin sín í annan skóla, og foreldrar í öðrum hverfum verða að hafa aðgang að því skólastarfi sem hugnast þeim best. Í dag er niðruskurður orðinn svo geggjaður að nemendur sem hafa grátbeðið um að komast í hinn eða þennan skólann (t.d. vegna þess að þeir eiga þar vini) hafa fengið þvert nei. Þeir eru ekki manneskjur, þeir eru tölur í mínsudálki einhvers excels-skjals.
6. Mætið á staðinn.
Ef þið raunverulega viljið breyta einhverju. Komið þá í skólana. Ekki til að sötra kaffi og éta vínarbrauð og spjalla við stjórnendur. Mætið á starfsmannafundi. Mætið á undirbúningsdaga. Talið við stjórnendur og biðjið um að fá að koma. Ræðið við okkur. Rífist við okkur. Safnið ykkur reynslu og takið svo ákvarðanir.
7. Vekið framhaldsskólana.
Takist það verkefni á hendur með ríkinu að koma framhaldsskólunum á lappirnar. Síðan þeir misstu samræmdu prófin hafa þeir verið eins og flöskulaus bytta. Þeir vita ekkert hvað þeir eiga að gera. Margir nemendur í grunnskóla eru að reyna að undurbúa sig fyrir framhaldsskólanám, aga sig til að uppfylla einhver skilyrði og skyldur. Skilyrði og skyldur sem framhaldsskólinn hefur ekki hugmynd um hverjar eru. Þeir hafa enga kvarða aðra en einkunnir. Og einkunnir segja ekki einu sinni hálfa söguna um nemandann. Framhaldsskólarnir eru farnir að vera til verulegra vandræðna og það verður að koma þeim í skilning um það að svona hyskni er óboðleg – ráðuneytið verður að hætta að kóa með þeim.
7. Sleppið þessum verðlaunum.
Verðlaunapælingin er vond, ófrumleg og gagnslaus. Samkeppni er ekki leiðin til árangurs. Samvinna er leiðin. Greiðið veg hennar.
3 ummæli:
Gæti ekki verið meira sammála.
Hvet þig til að senda þessar hugmyndir allar með tölu inn á betrireykjavik.is
Það er ekki flókið og það margfaldar líkurnar á að hugmyndirnar skili sér inn í borgarstjórn.
Varðandi lið 4.:
Hvernig væri að leyfa nemendum að hanna skólann sinn, t.d. í anda húss Barbapabba? Fræðingar og arkitektar borgarinnar væru þá einungis í þjónustuhlutverki varðandi það hvað er mögulegt og hvað ekki. Væri óneitanlega skemmtilegra en þessar andlausu skólabyggingar um allt. (Svosem ekki ólíklegt að endanleg bygging dragi einhvern dám af Hogwarts)
Ég heyrði Jón Gnarr stæra sig af því í útvarpsþætti að hafa aldrei lært margföldunartöfluna. Hann sagðist hafa átt í deilum við kennara sína um þetta mál og sagt að aldrei á ævi sinni kæmi til þess að hann þyrfti að vita hvað 7x7 væri. Hann fullyrti í þættinum að hann hefði ekki enn þurft á þeirri þekkingu að halda.
Á þessi maður að véla um skólamál?
Skrifa ummæli