15. júní 2010

Einelti og Jónína Ben
Ég man eftir augnabliki nokkru fyrir hrun þar sem ég sat heima hjá vini og við horfðum á Silfrið. Egill var að tala við Jónínu Ben. Við horfðum kankvísir á. En þegar fór að líða að lokum viðtalsins leit ég furðu lostinn á vin minn og sagði: „Heyrðu, þetta er alveg rétt hjá henni.“

Fram að því augnabliki leit ég á Jónínu sem trúð. Hefnigjarna kvensnift sem var aðeins spönn frá vondu stjúpunni í Hans og Grétu, nema hvað stjúpbörnin hétu Kristín og Jón Ásgeir.

Og þetta varð mér holl áminning.

Lykilatriði þess að vera hæfur, lýðræðislegur þegn er að gera greinarmun á umbúðum og innihaldi. Að geta hlustað á það sem fólk hefur að segja án tillits til ýmissa ytri þátta: kynferðis, kynþáttar, aldurs, menntunarstigs, trúarskoðana, skapgerðar, veikleika o.s.frv. Og það er sannfæring mín að þessa skyldu berum við hvort sem sá sem tekist er á við uppfyllir hana eða ekki.

Annað mikilvægt atriði er að gæta hófs. Að skoða hlutina í eðlilegu og öfgalausu samhengi.

Umræðan um Jónínu Ben og Detox hefur á síðustu sólarhringum orðið ömurleg og óhófleg.

Þar takast á tvær grunnskoðanir. Önnur er sú að læknavísindin séu þröngsýn, mistæk og háð svo þröngum vísindalegum kvörðum að læknisfræðin sé eins og sáld með of stóra möskva.

Hin skoðunin er sú að þrátt fyrir að læknisfræði kunni að virka vélræn þá sé hún eina þrautsannaða aðferðin til að greina á milli þess sem raunverulega virkar og virkar ekki.

„One small step for [a] man, one giant leap for mankind“ sagði Armstrong (eða ætlaði allavega að segja). Og með þessum orðum má varpa ljósi á hið raunverulega innihald deilunnar fyrir flestu fólki. Jónína Ben og miklu fleiri hafa sannreynt eitthvað á sjálfum sér og falbjóða það heiminum, með þessum rökum að fyrst það virkaði fyrir mig, þá hlýtur það að virka fyrir fleiri. Læknisfræðin fullyrðir á móti að vel sé hægt að mæla virknina. Og að ekki nærri því allt sem virkar fyrir einn, virki fyrir alla - eða virki yfirleitt.

Mannskepnan er einstaklega fjölbreytileg og sambandið á milli huga og handar er flókið. Ég las einu sinni grein í tímariti eftir freudískan sögukennara á Akureyri. Eitthvað fyrirmenni hafði komið til Akureyrar fyrir einni öld eða svo og svo gott sem kallað bæinn „skítapleis“ í dagbók sinni. Sögukennarinn átti skýringu á reiðum höndum. Þessi tiltekni maður hafði nýlega tapað kærustunni sinni. Hann kom til Íslands til að jafna sig og hreinsa hugann af því angri sem kærustumissirinn var. Og þar sem hann ríður inn í Eyjafjörðinn og sér Akureyri svona dásamlega fallega þá verður honum umsvifalaust hugsað til stúlkunnar - og hann fór í fýlu.

Fjölbreytnin flækir málið. Það sem virkar fyrir einn virkar ekki fyrir annan. Það sem einum er líkn er öðrum kvöl.

Þá skyldi ekki vanmeta áhrif tilviljana. Margt af því sem hrjáir menn getur skyndilega horfið. Bara sisvona.

Af þessu hef ég persónulega magnaða reynslu.

Yngri dóttir mín krækti sér fyrir nokkrum árum í leikskólavörtur. Fyrst fáar en svo fjölgaði þeim. Við fórum til læknis og læknirinn sagði okkur að þótt hægt væri að skafa vörturnar af þá væri það aðeins gert ef barnið vildi það, því vörturnar væru meinlausar og meðferðin óþægileg. Og stelpan tók það ekki í mál. Samkvæmt öllu áttu vörturnar að hverfa af sjálfum sér eftir ár eða tvö.

Tók nú við æsilegur tími. Skyndilega lögðust vörturnar í útrás. Þeim fjölgaði með ógnarhraða. Og með hverri viku skreiddust þær lengra upp búkinn, lengra fram handleggina uns svo var komið að fyrsta vartan var komin á hökuna. Og það var fyrsta vartan sem ekki var hægt að klæða af sér. Og barnið fylltist skelfingu. En hún vildi ekki fara til læknisins og láta pynta sig. Hún átti í ægilegu innra stríði. Og ég gerði það, sem ég hef aldrei gert fyrr né síðar, ég gúglaði óhefðbundnar lækningar. Reyndi að leita uppi eitthvað sem ætti að virka - og bjóst allteins við að það ætti að pissa á vörturnar, láta hunda sleikja þær, umkringja þær með sinnepi eða eitthvað álíka. En ég hikaði. Vildi ekki prófa neitt.

Þá, skyndilega, vildi hún fara til læknis og láta taka þær. Ég lagði leit mína að töfralausn á hilluna og við brunuðum til húðsérfræðingsins. Allir mjög bugaðir. Viðbúin því að hann færi með málningarsköfuna á litla kroppinn.

Og þá gerðust undrin. Og hér verður að hafa í huga að fram að þessu höfðu vörturnar orðið aðgangsharðari dag frá degi. Læknirinn skoðar fyrst eina vörtu, þá aðra og loks lítur hann upp og segir að hann þurfi ekkert að gera. Þessar vörtur séu allar dauðar. Þær muni ekki fjölga sér meira, heldur hverfa á næstu dögum og vikum.

Og það reyndist rétt. Þær hurfu jafn hratt og þær komu.

Nokkru seinna hugsaði ég hve örstutt var frá því að ég bættist í hóp þeirra sem fullyrða að óhefðbundar lækningar virki. Ef ekki hefði verið fyrir eðlislæga tregðu hefði ég, þegar allt var sem verst, látið hund sleikja barnið eða dýft því í ólífuolíu, látið biðja fyrir því eða snúið því hratt í hringi. Og svo hefðu vörturnar horfið. Og ég hefði að sjálfsögðu leitt annað af hinu og skrifað á netið um að þessi tiltekna töfralausn virkaði.

Aðeins vísindalegar rannsóknir mæla slíka virkni alminlega. Persónuleg reynsla er meira en lítið varasöm.

En lykilatriði málsins er þetta: vísindin eru alltof kaþólsk. Þau miða útfrá helgi lífsins. Og sú helgi er mæld með frumuskiptingum, blóðþrýstingi og hjartslögum.

Læknum ber að viðhalda lífi eftir fremsta megni. Og þótt það sé vissulega göfugt markmið í sjálfu sér þá fylgja því tvær aukaverkanir sem hvorki páfi né landlæknir hafa sýnt mikinn áhuga á að fyrirbyggja.

Fyrri aukaverkunin er sú að menn þrjóskast við að viðhalda lífi jafnvel þegar það er orðið ómannúðlegt. Hér má ræða um fóstureyðingar og líknardráp.

Seinni aukaverkunin er miklu alvarlegri og algengari. Hún er sú að viðhald lífs hættir að vera aðeins nauðsynlegt markmið og verður nægjanlegt markmið. Og ekki er spurt um lífsgæðin. Vilji maður virkilega flotta þjónustu í íslenska heilbrigðiskerfinu þá þarf maður helst að vera dauðvona. Þá leggjast allir á eitt. En fari maður til læknis útaf einhverju tilfallandi sem læknirinn telur ákaflega lítið banvænt, þá er gjarnan lítill metnaður sem mætir manni. Afleiðingin er augljós: fjöldinn allur af viðskiptavinum lækna býr við lélega heilsu og það þrátt fyrir sífelld inngrip læknanna. Fæstir eru í bráðri lífshættu, en flestir gætu bætt heilsu sína til muna frá því sem er.

Og þar kemur Jónína Ben inn í myndina. Hún reynir að bæta heilsu fólks. Og beitir til þess aðferð sem gafst henni vel. Og gerir sér bissness úr því.

Mjög margir komast til betri heilsu í Detox en hjá nokkrum lækni. Sumir vegna þess að þeir ástunda heilnæmara líf en nokkru sinni fyrr, aðrir vegna þess að þeir fyllast jákvæðni og bjartsýni og ofurtrú á meðfeðrina, enn aðrir fyrir tilviljun.

En Jónína gengur of langt. Hún stígur fyrstu skrefin í átt að því að kalla meðferðina „lækningu“ án þess að beita þeirri sjálfsgagnrýni sem þarf til að nota það hugtak. Hún lætur aldrei fara fram vísindalega athugun á því sem verið er að gera og treystir fullkomlega einhverjum tveim pólskum læknum sem sannast sagna virka mjög vafasamir.

En svo hefst eineltið.

Síðustu daga höfum við orðið vitni að fáránlegri umfjöllun um rifna ristla og amöbusmit. Ég meina, kommon! Svona fávitalegur hræðsluáróður á ekki að vera til.

Aðalvandamálið er samt það að umfjöllunin er ekki hófstillt. Hún er ekki í samræmi við efnið. Hún er hlutfallslega brengluð. Jónína er sigtuð út og tekin í gegn. Að hluta til vegna persónuleika síns. Hún brást við þeim sem gagnrýndu hana með offorsi á sínum tíma og það kveikti í þeim eitthvert bál svo þeir halda áfram að berja á henni. Persónuleg óvild og úlfúð ræður för.

Þegar ég var í Menntaskóla sat ég fyrirlestur hjá Páli Óskari þar sem hann mælti með því að menn yrðu sér úti um stólpípuhaus á sturtuna til að skola út fyrir rassaríðingar. Og ég veit um dæmi þess að krakkar fóru að ráðum hans.

Út um allt land er fullt af fólki sem stundar „óheðfbundnar lækningar“, hómópatarugl, orkubrautaumferðarstjórnun, miðlun að handan og annan ósóma. Langflest er þetta fólk margfalt skaðlegri en Jónína Ben.

En aðeins Jónína fær á baukinn. Og reynt er að eyðileggja þessa meðferð. Sem samt sem áður er líklega sú óheðfbundna meðferð á öllu Íslandi sem kemst næst því að vera læknum þóknanleg. Fólk lætur vel af meðferðinni. Og er hún í raun svo ólík t.d. því sem fram fer í Hveragerði? Þar sem fólk nagar salatblöð og fer í göngutúra - oft út í sjoppu.

Það er augljóst að það sem Jónína er að gera virkar. Hún er að hjálpa fólki sem lent er í heilsuvítahring. Fólk sér tímabundinn árangur og fyllist bjartsýni. Og hún virðist snillingur í að hvetja fólk. Nokkuð sem heimilsilæknar mættu vel læra af henni. Auðvitað er hún ekki með fullkominn árangur. Og það má vel vera að einhver lendi inn á bráðamóttöku einhverntímann. En hve margir ætli hafi endað á bráðamóttöku eftir að hafa hnigið niður í líkamsrækt? Eða sundi? Eða að labba upp Esjuna?

Þórðargleðin vegna Detoxins er að mestu leyti ekkert annað en hálfstálpaður kúk og piss húmor. Fólk flissar vegna þess að það höndlar illa hugmyndina um rassgöt og stólpípur. Sumum finnst þetta bara hálf kínkí. Og samt halda miðaldra og gömlu karlarnir áfram að streyma til heimilislæknanna að láta athuga á sér blöðruhálskirtilinn - hápunktur ársins gæti ég trúað hjá sumum.

Það er ljótt að ráðast á atvinnutækifæri fólks af heift. Gagnrýni á Jónínu þarf að vera í samræmi við „glæpinn“. Hún hefur ekki verið það. Það á ekki að ráðast harkalegar á Jónínu vegna þess hvernig karakter hún er. Það er samt gert.

Ef einhver manneskja á það inni hjá þjóðinni að á hana sé hlustað af ákveðnu umburðarlyndi þá er það Jónína Ben.

2 ummæli:

Sigurbjörg Sigurjónsdóttir, læknir sagði...

Ragnar skrifar: "Seinni aukaverkunin er miklu alvarlegri og algengari. Hún er sú að viðhald lífs hættir að vera aðeins nauðsynlegt markmið og verður nægjanlegt markmið. Og ekki er spurt um lífsgæðin. Vilji maður virkilega flotta þjónustu í íslenska heilbrigðiskerfinu þá þarf maður helst að vera dauðvona. Þá leggjast allir á eitt. En fari maður til læknis útaf einhverju tilfallandi sem læknirinn telur ákaflega lítið banvænt, þá er gjarnan lítill metnaður sem mætir manni. Afleiðingin er augljós: fjöldinn allur af viðskiptavinum lækna býr við lélega heilsu og það þrátt fyrir sífelld inngrip læknanna. Fæstir eru í bráðri lífshættu, en flestir gætu bætt heilsu sína til muna frá því sem er."

Mér finnst það nú heldur stór fullyrðing að læknar almennt “spyrji ekki um lífsgæðin”. Það er hinsvegar hárrétt að það er fjöldi fólk sem notar heilbrigðiskerfið mikið án þess að fá bót meina sinna. Margir læknar eru e.t.v. búnir að reyna sitt allra besta án árangurs og taka það gjarnan nærri sér ólíkt því sem margir virðast halda. Stundum hafa þeir sjúklingar einhvern langvinnan sjúkdóm sem verður ekki læknaður en hugsanlega linaður að hluta með lyfjum eða annarri meðferð sem getur að sjálfsögu haft aukaverkanir. Stundum er vandamálið sállíkamlegt þ.e. andleg vanlíðan sem getur birst með margvíslegum líkamlegum einkennum oft tengt félagslegum aðstæðum viðkomandi, persónuleika eða lífsstíl.

Það er allra góðra gjalda vert fyrir hvern sem er, lækni eða ekki, að hvetja fólk til að taka stjórnina í eigin hendur og breyta um lífsstíl sem hefur mikla þýðingu fyrir allt heilbrigði. En því miður gera kuklarar ýmsir sérstaklega út á þann viðkvæma hóp fólks sem býr við langvarandi veikindi eða þjáningar sem læknavísindin hafa ekki svör eða patentlausnir við t.d. langvinna verki, krabbamein, einhverfu og hegðunarraskanir hjá börnum ofl.

Að græða á ótta og þjáningum fólks með meðferð sem byggir á vægast sægt hæpnum forsendum s.s. detox, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og hómópatíu er siðlaust þótt þeir sem það gera virðist oftast ekki átta sig á því. Jónínu virðist ganga gott eitt til sem er sorglegt og hún á að njóta sannmælis fyrir þann hluta prógrammsins sem hvetur fólk til heilbrigðs lífernis en hún gengur lengra en flestir kuklarar í hæpnum og jafnvel ósönnum yfirlýsingum um gildi þess hluta sem byggir á veikum eða engum grunni.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sæl, Sigurbjörg.

Þessu er ég öllu sammála.

Enda er enga andstöðu við þetta að finna í máli mínu.

Og jú, ég held það sé tilfinnanlegur skortur í heilbrigðiskerfinu á að horft sé á lífsgæði og það að „taka ábyrgð á eigin lífi“.

Svona eins og bílaverkstæði hugsa meira um að laga bilanir en koma í veg fyrir þær.

Og vafalaust er það mörgum læknum þungbært. Enda er þetta ekki þeim einum að kenna (þótt margir mættu læra mikið um mannleg samskipti og hvatningu). Vandinn er gegnumgangandi í samfélaginu.

Og við ættum öll að reyna að breyta þessu saman í stað þess að níða skóinn hvert af öðru og viðhalda þessari gjá á milli alvöru læknisfræði og „óhefðbundinna lækninga“. Í þessari gjá grær nefnilega kjaftæðið.