30. maí 2010

Jón, á þetta að vera fyndið?

Kaus Besta flokkinn - ekki hans vegna heldur hinna. Mér hefur alls ekki fundist Besti flokkurinn neitt sérstaklega fyndinn. Og alls ekki neitt sérstaklega hugmyndaríkur. Ísbjörn í Húsdýragarðinn, tollhlið á Seltjarnanes, Útlagi Einars Ben og The Wire finnst mér ekki til marks um neina sérstaka hugmyndaauðlegð. Jón Gnarr virkar sjálfur þunglamalegur, hikandi og súr. Þegar hann setur á fóninn plötuna um innleiðingu gleðinnar er hann álíka sannfærandi og Eyrnaslapi í Hundraðekruskógi eða Bísamrottan í Múmíndal.

Ef Jón er spurður um eitthvað reynir hann að kaupa sér tíma. Hann svarar næstum engu hreint út. Hann vill fyrst fá að tala við ráðgjafa sína og flokksmenn. Í baráttunni sagðist Jón ætla að hafa allt uppi á borðum. Honum láðist bara að geta þess að þessi borð eru í læstum flokksherbergjum. Hann getur ekkert spunnið á staðnum.

Og samt er Besti flokkurinn skásti kosturinn.

Það veit Tútti að umburðarlyndi kjósenda gagnvart Jóni og bestlinginum er meira en gagnvart öðrum. Hann hefur meðbyr. Og þótt seglin liggi öll í kuðli ofan á botnneglunni þá er nægur tími til að þenja þau. Og þá verður fróðlegt að sjá hvort stýrimaðurinn hefur undan.

Engin ummæli: