5. mars 2010

Um þjóðaratkvæði

Jóhanna ætlar að vera fúl heima. Hún um það. Hún kallar atkvæðagreiðsluna markleysu vegna þess að betra tilboð sé „á borðinu,“ og að kosningin gæti jafnvel verið hættuleg, þar sem ekki sé gefið að tilboðið standi enn ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verði neikvæð.


Lítum nú framhjá því eitt augnablik að það er þessari sömu atkvæðagreiðslu – og engu öðru – að þakka að túlkurinn hennar hefur getað sagt henni frá þessu nýja tilboði. Lítum líka framhjá því að samningurinn sem verið er að kjósa um átti að vera sá besti sem við gætum mögulega fengið. Svo góður að einhverjir voru tilbúnir að leggja pólitískan feril sinn að veði til að sannfæra fólk um að hann væri eina leiðin™.


Skoðum frekar hvers vegna í ósköpunum betra tilboði gæti verið stefnt í hættu vegna þjóðaratkvæðagreiðslu hverrar niðurstaða endurspeglar ekki neitt annað en að fyrri samningur hafi ekki verið boðlegur. Endurspeglar n.b. ekki hvort við viljum borga eða ekki, eins og Jóhanna myndi eflaust vera fyrst til að minna okkur á (og gott ef hún var ekki fyrst til þess).


Hvers vegna er þá hagstæðari samningum stefnt í hættu? Ég sé ekki að nema tvennt komi til greina, og hvorugt er Jóhönnu mikið til framdáttar:


1. Ríkisstjórnin og samninganefndin hafa ekki staðið sig í að kynna viðsemjendum um hvað atkvæðagreiðslan snýst. Það myndi hins vegar bera vott um slíka endemis vanhæfni og aulaskap að ég held að flestir voni að þetta sé ekki raunin. Þó er það ekki útilokað.


2. Bretar og Hollendingar settu það sem skilyrði fyrir betra tilboði að þjóðaratkvæðagreiðslan færi ekki fram. Það myndu þeir líkast til seint gera, nema vegna þess að þeir haldi að jafnvel þessi samningur sem þeir buðu nú síðast sé hagstæðari fyrir þá en þeir eiga skilið. Að koma ekki auga á það myndi hins vegar bera vott um slíka endemis vanhæfni og aulaskap að ég held að flestir voni að þetta sé ekki raunin. Þó er það ekki útilokað.


Það sorglegasta er hversu auðvelt hefði verið fyrir ríkisstjórnina að snúa þessu í hálfgerðan sigur. Hefði hún tekið atkvæðagreiðslunni fagnandi frá upphafi – kynnt hana útbyrðis sem eðlilegt, lýðræðislegt ferli; umfram allt ekki hamast við að nöldra um að ekkert betra sé í boði eða eyða orku í að baktala forsetann. Hefði hún, með öðrum orðum, ekki látið eins og samansafn vanhæfra fábjána, þá hefði verið hægur leikur að sannfæra svo þjóðina um ágæti hagstæðari samnings í framhaldinu.


En það er bara orðið of seint. Það mun enginn framar trúa því að nokkuð það sem Jóhanna eða Steingrímur kynni sem „bestu niðurstöðuna“ eða „einu leiðina“ sé það í raun og veru.

Engin ummæli: