1. mars 2010

Synjun forseta gagnslaus?

Þegar heimild Steingríms til að semja um Icesave samkvæmt þeim samningi sem fyrir lá um áramót fellur niður í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardag tekur gildi eldri heimild um sama efni. Heimild til samninga með ríkulegum fyrirvörum. Vilji Bretar og/eða Hollendingar semja á þeim nótum er Icesave-málið leyst.

Jóhanna virðist líta svo á að þjóðaratkvæðagreiðslan sé marklaus því nýr samningur gæti dottið í hús á hverri stundu. Það er samt augljóst að það sem verið hefur í umræðunni nálgast hvergi þá fyrirvara sem Alþingi setti.

Hvaða heimild hefur ríkisstjórnin til þess?

Þegar forseti sendir lög í þjóðaratkvæði taka þau gildi þar til kosning hefur farið fram. Ég veit ekki alveg hvernig það á að virka. Samkvæmt núgildandi lögum (sem falla út á laugardag) má gera lakari samning en samkvæmt þeim lögum sem þá taka gildi. Og ekkert virðist koma í veg fyrir að hrinda megi í framkvæmd öllum atriðum þeirra laga sem forseti synjar staðfestingar.

Ég veit allavega ekki til þess að aðgerðir sem byggja á slíkum lögum séu ómarktækar.

Ef gerður verður nýr samningur í vikunni, og ef hann er án þeirra fyrirvara sem samþykktir voru í fyrra, þá ætlar ríkisstjórnin einfaldlega að ganga gegn vilja þjóðarinnar.

Það virðist vera sem svo að ríkisstjórnin hefði getað hlegið að synjun forsetans allan tímann. Steingrímur hefði getað skrifað strax undir. Samningurinn hefði tekið gildi. Lögin hefðu síðan verið felld úr gildi en ekki fyrr en búið væri að nota þau. Icesave-lögin eru enda einnota.

3 ummæli:

Hnakkus sagði...

Ef þau gera nýjan samning núna þá þarf hann væntanlega að fara í gegnum sama ferli og fyrri samningar. Þrjár umræður á þingi til að kría út heimild fyrir Fjármálaráðherra.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Maður hefði haldið það. En heimild er fyrir hendi að lenda vonda samningnum skv. lögum 1/2010 fram á laugardag. Það er ekkert víst að JS og SJS líti svo á að það þurfi nýja heimild í ef samningi er landað í vikunni. Segja bara að viðsemjendur haf verið til í að veita auka afslátt - og það þurfi varla nýtt umboð til að semja betur en heimild var fyrir. Þótt sú heimild detti út örstuttu síðar - eða sé dregin til baka (eftir að hún var notuð).

Hnakkus sagði...

Ég skil þetta þannig að fjármálaráðherra fái ekki pening til að borga síðasta samning, eða neinn annan samning sem ekki inniheldur alla fyrirvarana frá því í ágúst, nema þjóðaratkvæðagreiðslan staðfesti lögin frá 30 Des.

Ég vona að ég hafi ekki verið að misskilja neitt.