3. janúar 2010

Landráðamenn og kvislingar.

Það hefur farið óskaplega fyrir hjartað á sumum stjórnarþingmönnum að atkvæðin hafa kallað þá landráðamenn. Landráð eru enda frá fornu fari álitin afar stór glæpur sem refsað er harkalega fyrir. Meira að segja í moðvolgu lagaumhverfi Íslands er 16 ára fangelsi fyrir sumar sortir landráða.

Það er ekkert skrítið að einhverjum þyki t.a.m. afgreiðsla Icesave bera vott um landráð. Og skiptir þá engu máli hversu sannfærðir hinir meintu landráðamenn eru um að þeir séu að gera það sem þjóðinni sé fyrir bestu. Það var Kvisling líka. Og Vichy stjórnin í Frakklandi.


Raunar eru landráð óttarlegt ruslhugtak. Augljóslega sett fram sem brjóstvörn kónga og annarra einvalda. Það er tiltölulega auðvelt að máta hugmyndina að baki því við einhverja gíruga eða fégráðuga flugumenn – en nær útilokað að festa hönd á því þegar kemur að stjórnmálum.

Voru það ekki landráð að ganga í Nató? Voru það ekki landráð að vera í samkrulli við austur-þýsku leyniþjónustuna? Voru það ekki landráð að agítera fyrir alheimssamtökum kommúnista eða upptöku esperantó?

Æði margir verða landráðamenn ef grannt er skoðað.

Það er helst að hægt sé að kalla það landráð (af einhverju viti) ef menn eru uppvísir að því að sniðganga eða beygja á bak aftur stjórnarskrárvarinn farveg ákvarðanna.

En vandinn er sá að það að nauðga lýðræðinu er viðtekin venja í íslenskum stjórnmálum. Það hefur aldrei verið farið eftir uppskriftinni að Lýðveldinu Íslandi eins og henni er lýst í stjórnarskránni.

Og þessa dagana, þegar íslenska ríkisstjórnin hamast við að nauðga lýðræðinu einu sinni enn, er hennar eina vörn að enginn sé þess umkominn að gagnrýna það hræsnislaust. Og það er rétt. Fleiri syndlausir menn komu kjagandi frá portkonum í Gómorru en fá að tala úr ræðustól Alþingis. Þeir fáu sem ekki eru löðrandi í ósóma og blóðugir upp fyrir axlir eftir andlýðræðissukk liðinna áratuga ganga hoknir undir erfðasyndinni. Synd flokkanna sem kroppur þeirra, andi og hugsjónir tilheyra.

Það er til lítils að fela svínunum í drafinu að gera hreinsunarátak fyrir bæinn.


Utan þingsala slást gagghænurnar og hugsjónadruslurnar. Ekki síst í bloggheimum, sem eru að verða næstum yfirnáttúrulega leiðinlegir.

Því miður er umræðan orðin meira en lítið rasísk. Hatur sumra bloggara á Framsóknar- og Sjálfstæðismönnum á sér enga samsvörun betri en í hatri nasista á gyðingum milli heimsstríða. Fyrirlitning sumra frjálshyggjupenna á evrópusinnum og meintum kommúnistum sömuleiðis.



Allar rökræður eru í upphrópunarstíl. Rökfærslurnar þjóna niðurstöðunni. Spunakarlar stýra henni.

Fólk er orðið svo klikkað að eftir að forsetinn tók sér umhugsunarfrest þá hafa menn hamast við að reyna að sannfæra hann á bloggsíðum sínum. Bloggið hefur aldrei verið óeinlægara en síðustu tvo sólarhringana. Það byrjaði sem smjaður Icesave-con til forsetans, breyttist í tilgangslaust tuð um falsanir á undirskriftarlista Icesave-pro (eins og það skipti einhverju máli þótt 5, 10, 15 eða 20% listans væru fölsuð), og hefur haldið áfram síðan.


Þjóð sem býr við orðræðu sem er ekki hætishót þroskaðari en orðræðan í Þýskalandi milli stríða er eðlilega í stjórnmálakreppu. Gallinn er að siðvitið er ekki miklu þroskaðara heldur. Fjármálakreppan stafar ekki síst af því.

1 ummæli:

Arinbjörn Kúld sagði...

Það er mikið til í þessu. Þess vegna er ég í bloggpásu og tjái mig bara á síðum þar sem lítil hætta er á ofurskítkasti og hatursendingum.
Kveðja að norðan.