2. janúar 2010

Ólafur Ragnar í hlutverki Davíðs – verður hann kjarkmeiri?

Íslendingar eru afar reiðir því fólki sem gat lágmarkað skaðann af útrásinni – en gerði ekki.

Fjármálaeftirlitið gat meinað Landsbankanum að opna útibú í Hollandi. Davíð gat löngu seinna sleppt því að reyna að kæfa eldinn í bönkunum með seðlum.

Þar skorti kjark.

Enda alls ekki auðvelt. Allar slíkar aðgerðir hefðu byggt á self-fulfilling prophecies. Það að lýsa bankana dauðadæmda hefði orðið þeim að aldurtila. Og þá hefði komið gagnrýnin: þykist embættismaður á Íslandi vita betur en færustu bankamenn Íslands, menn sem hafa náð stórkostlegum og óviðjafnanlegum árangri í viðskiptum? Á að kyrkja íslenskt fjármálalíf í alltof lítilli greip íslensks regluverks af því að menn láta hugfallast í heimskreppu? Þegar gefur á bátinn þá taka menn ekki botnnegluna úr – menn stýra upp í ölduna og vona það besta.



Hver sá sem hefði borið ábyrgð á að skjóta íslenska útrásarlæmingjann í hausinn þar sem hann hefði brunað í átt að ísbjörgunum, hefði orðið hataðasti maður Íslands. Það er enda ekki hægt að nota óorðna hluti sem rök gegn orðnum. Honum hefði verið kennt um hrunið. Og alvarleikaskynjun hruna er afstæð. Hrunið á Íslandi er orðið svo stórkostlegt að þeir sem dansa hrundansinn virðast orðnir ónæmir fyrir umfanginu. Ítrekað er gert lítið úr Icesave.

Staða Íslands er eins og bröndu sem er umþaðbil að verða gleypt af stærri fiski. Og þar sem hún er við það að fá taugaáfall frammi fyrir vonlausri aðstöðu kemur hún auga á enn stærri fisk fyrir afan hinn. Og annan enn stærri þar fyrir aftan. Og þá áttar brandan sig á því að það sé tilgangslítið að æðrast yfir þessum fiski sem er við það að éta hana. That's the least of our worries.


Íslenska bankakerfið var dauðadæmt. Það má deila um hve löngu fyrir hrun sú staðreynd var orðið óvéfengjanleg. Það má líka deila um hve stóran þátt áhlaupin á íslenska reikninga í útlöndum spiluðu. Loks má deila endalaust um hver hefði átt að stöðva hvað hvenær.

Það er hinsvegar ekki hægt að deila um það að oft og margsinnis hefði verið hægt að minnka skaðann sem við urðum fyrir. Að á síðustu metrunum blæddu verðmæti út úr bankakerfinu. Að hægt hefði verið að gera eitthvað fyrr.


Nú erum við stödd á stað í tilverunni þar sem bankakerfi okkar er hrunið til grunna, við höfum innleyst alla pólitíska greiða sem við áttum inni og fengið ígildi skóflufyllis af kolum til að orna okkur við. Gjaldmiðillinn er ónýtur. Trú á innviði Íslands er engin. Allt ber vitni um gegndarlausan vanmátt.

Þegar sprengjum rigndi yfir Berlín í seinna stríði sáu Hitler og Speer í því sparnað. Því meira sem molað yrði niður, þeim mun einfaldara að byggja hina nýju höfuðborg þúsundáraríkisins. Svipað hugsaði Neró meðan Róm brann. Jóhanna hugsar það sama.


Allt sem hrundi á Íslandi er til í ESB. Þar er gjaldmiðill. Þar eru innviðir. Þar er allt, sem við eigum ekki. Og við getum eignast það. Gengið inn í hið nýja þúsundáraríki Evrópu.

Kannski verður hrunið til góðs með því að þvinga Ísland inn í nútímann, þar sem enginn er eyland – a.m.k. ekki án vesældar.

Ein óvéfengjanleg hrunstaðreynd er sú að íslenskir stjórnmálamenn brugðust. Ráðherrar brugðust. Þingræðið brást. Stjórnmálastéttin brást líklega lagaskyldum sínum og örugglega þeim siðferðilegu.

Stjórnmálamennina skorti kjark til að stoppa útrásina. Það þorði enginn að mæta þeim áföllum sem þá yrðu. Hefðu enda önnur ríki komið Íslandi til hjálpar ef menn mætu það sem svo að ríkisvaldið hefði með stórkostlegum og ókapítalískum inngripum framið efnahagslegt sjálfsmorð? Það er enginn kafli um líknardráp í hagfræðiorðabók hins kapítalíska heims.

Og nú hefur stjórnmálastéttin brugðist aftur. Henni hefur mistekist að sannfæra þjóðina um lagalega og siðferðilega skyldu hennar til að borga Icesave.

Hluti stjórnmálamanna hefur réttilega bent á það að það kynni að koma Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkum vel að hafna Icesave. Og það er nokkuð ljóst að hvert mannsbarn veit að það væri diplómatískt heldur æskilegt.

En þessi rök duga hvorki til að gera þjóðina lagalega né siðferðilega ábyrga fyrir Icesave.

Og það er stórkostleg móðgun við þjóðina að segja að hún sé með höfnun Icesave að bregðast skyldu sinni, neita að borga reikninga sína.

Það hefur aldrei verið sýnt fram á neina skyldu.

Langveigamesta röksemdin fyrir samþykkt Icesave er að með samþykki fáum við einhvern diplómatískan velvilja. Að þá þori þjóðir að standa með okkur sem þora það ekki fyllilega nú.

Undir slíkum afarkostum er ekki óeðlilegt að einhverjum líði eins og verið sé að nauðga þeim og að nauðgarinn hvísli að þeim að samvinna verði verðlaunuð.

Allar þjóðir þurfa að eiga gjaldmiðil og bankakerfi. Hvorttveggja hrundi hjá okkur. Spurningin er hvort við hefðum ekki átt að fella það fyrr. Hvað svo sem gerðist hefðum við þurft að byggja upp nýtt á rústum þess gamla.

Allar þjóðir þurfa stjórnmál. Okkar eru hrunin. Við þurfum að byggja upp ný. Spurningin er bara hvort ríkisstjórn sem fer freklega gegn meirihlutavilja, skipar þegnum sínum að bera þungar byrðar án tilvísana í lög og siðferði, þvingar þingmenn til að kjósa gegn sannfæringu sinni og brýtur gegn öllum fyrri hugsjónum sínum – og gerir allt þetta í máli sem hún segir að sé ekki nærri því eins stórt og sum málanna sem framundan séu, spurningin er sú hvort slíkt ástand í stjórnmálum sé endanleg sönnun þess að skepnan sé dauðadæmd. Hvort ekki sé kominn tími til að dæma endapunktinn á hörmungarsögu íslenskra stjórnmála.

Og framkalla hrunið áður en það sjálfframkallast.

Það hefði verið hægt að framkalla það miklu fyrr. Að fella bankakerfið áður en það féll hefði haft í för með sér pólitískt hrun. Að mynda þjóðstjórn strax við hrun hefði verið í áttina. Það hefði mátt halda þjóðfund og stjórnlagaþing. Það hefði mátt draga stjórnmálamenn til ábyrgðar miklu hraðar og betur.

Og nú getur Forsetinn sent kúlu í hausinn á skepnunni.

Stjórnmálakerfið er dautt. Það er skrímsli. Það er andlýðræðislegt. Og þar eru allir flokkar, hver einn og einasti, sekir.

Eigum við að leyfa nánum að vaða uppi eða á að fella hann?

Hefur Forsetinn hugrekkið sem alla hina skorti?

1 ummæli:

Hnakkus sagði...

Þetta er rosalega góð grein.