4. janúar 2010

Synjunarvald forseta


Ekkert ákvæði stjórnarskrárinnar var meira rætt, umdeildara og þrauthugsaðara en ákvæðið um synjunarvald Forseta. Þótt meiri hluti þingmanna teldi ákvæðið mjög æskilegt átti það sér einbeitta og harðsækna andstæðinga, aðallega kommúnista, sem sannfærðir voru um að ákvæðið yrði misnotað til að koma framsæknum en áríðandi málum út úr tilverunni. Brynjólfur Bjarnason skrifaði að ákvæðið „...eins og neðri deild samþykkti það, er í algeru ósamræmi við þá hugsun, sem vakti fyrr meirihluta stjórnarskrárnefndar, en hún var sú, að löggjafarvaldið skyldi að öllu leyti vera í höndum Alþingis, nema hvað forseti getur gefið út bráðabirgðalög, en synjunarvaldið skyldi aðeins vera hjá þjóðinni, og forseti vera umboðsmaður hennar.“

Þessi gagnrýni kommúnista var sefuð með því að láta lög taka gildi þótt forseti synjaði lögum.

Hér var stigið stórt skref frá synjunarvaldi konungs. Konungur hafði algjört synjunarvald. Gat stoppað öll mál sem hann lysti. Og því beitti hann á mál sem Alþingi og þjóðinni þóttu mikil framfaramál (t.d. brúargerð).

Synjunarvaldið varð ekki óvart eftir í stjórnarskrá. Það var sett þangað vitandi vits eftir miklar deilur og umræður. Breytingartillögur komu fram og það tók breytingum í meðförum þingsins. Hugsunin var alltaf sú að valdinu væri skipt á milli stofnana samfélagsins með þeim hætti að þjóðin sjálf væri hin raunverulega uppspretta lýðræðislega valds.

Og þar til núverandi ríkisstjórn lá svona ofboðslega á að koma Icesavemálinu út úr heiminum þá voru engir staðfastari í trúnni á þetta ákvæði en einmitt Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur hæddist enda að Davíð Oddssyni þáv. forsætisráðherra þegar sá kvittur komst á kreik að Ólafur Ragnar kynni að hafna lögum um fjölmiðla sem nauðgað var í gegnum þingið. Steingrímur gaf þá ekkert fyrir margvíslegar mótbárur gegn slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu, allt frá lagalegri heimild fyrir synjun til þess að skýringar á slíkum atkvæðagreiðslum skorti í lögum.

Ég verð líka að segja að mig undra a.m.k. tvenn ummæli hæstv. forsrh. í þessu sambandi. Það er í fyrra lagi það, í viðtali við Ríkisútvarpið, að mikil og illleysanleg vandamál komi til kasta stjórnvalda ef forsetinn synji staðfestingar laga. Hið síðara er að forsrh. sjálfur ætli sér sérstakt úrskurðarvald í því hvað þá beri að gera. Ætlar forsrh. að fara að taka sér einhvers konar hæstaréttarvald? Ætlar hann að gerast einhver háyfirdómari í landinu, einhver iudex optimus maximus, eða hvað? Ef einhver á að koma að því máli hlýtur Alþingi að gera það. Fordæmin eru til staðar. Ég skil ekkert í þeim verkkvíða að halda að það vefjist fyrir mönnum að framkvæma einfalda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem svarið er já eða nei. Fordæmið er m.a. lýðveldisstofnunin. Þegar lýðveldið var stofnað samþykkti Alþingi þáltill. í febrúar 1944 og setti í framhaldinu lög um hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Meira að segja atkvæðaseðillinn var í þeim lögum þannig að við getum farið beint í það fordæmi, farið í Stjórnartíðindin frá 1944. Það ætti ekki að þurfa að vefjast fyrir okkur að setja lög um framkvæmd þessarar einföldu þjóðaratkvæðagreiðslu, vísa í kosningalög sem auðvitað geta gilt að miklu leyti, nota sömu kjörstjórnir og annað í þeim dúr. Þetta er ekkert vandamál. Hvaða óskaplegur verkkvíði er að halda að það vefjist fyrir manni? Eða á að reyna að hræða menn frá því að virkja lýðræðið?
Minni glæpur Steingríms og Jóhönnu er að í allri meðferð Icesavemálsins hafa þau gengið þvert á bak fyrri skoðunum og orðum – og orðið uppvís að því að beita nákvæmlega samskonar rökum og þau áður gáfu ekkert fyrir. M.ö.o. hafa þau orðið sek um margvíslega hræsni og yfirdrepsskap. Og með því haldið áfram þeirri hörmungarsögu íslenskra stjórnmála sem steypt var af stóli í Búsáhaldabyltingunni. Eina ástæða þess að jarðfræðingur og flugfreyja stjórna landinu er sú, að almenningur taldi að fyrr frysi í Kalahari en að þessir tveir einstaklingar gengju gat á sína pólitísku hugsjónagúmmískó.

Stærri glæpur þeirra er að taka ákvarðanir sem varða hag íslensks almenning um langa komandi tíð út frá eigin dómgreind og almennu samþykki sinna nánustu ráðgjafa – án þess að réttlæta þessar ákvarðanir fyrir þjóðinni eða vinna hana á sitt band. Og það sem verst er, í andstöðu við þjóð sína. Allur ferill Icesave er þannig að þjóðinni komi málið ekki við vegna þess að það sé viðkvæmt, flókið – eða vegna þess að þjóðin sé nú einu sinni þannig að hún hafni sjálfkrafa öllum málum sem kosta hana pening. Þannig sé það í raun sjálfselska þjóðarinnar sem skrái hana úr leik!

Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Jóhanna og Steingrímur vilja hafa vit fyrir þjóðinni, hver sem vilji þjóðarinnar er.

Stjórnmálamenn eru ekki „ráðnir“ til að hafa vit fyrir kjósendum. Þeir selja kjósendum stefnuskrár sínar, hugsjónir og orðspor og fá síðan tiltekinn tíma til framkvæmda.

Það má hæglega kalla það gjá milli þings og þjóðar. Ekki síst þegar haft er í huga að þingið var beygt undir þennan sama vilja. Og það með opinberum hótunum.

Karlinn ber konuna, konan barnið og barnið hundinn.

Það vita allir að mörg ríki hafa haft í hótunum við stjórnvöld. Það er svo sólu særra að hugrekki ráðamann gagnvart slíkum hótunum er ekkert. Allt árið 2009 fór í það að Samfylking hótaði Vg í öðru hverju skrefi. Fyrri samningar skiptu engu. Réttlæti skipti engu. Stjórnarskrá skipti engu. Þeir sem fóru fyrir lestinni voru svo skítlogandi hræddir að lýðræðið varð að bíða.

Ofbeldistilburðir Breta hafa allir verið undir yfirborðinu. Gungurnar hafa látið embættismenn hóta embættismönnum og sjaldnast viljað kannast við neitt þegar það er orðað opinberlega. Slíkum gungum mætir maður með því að draga allt upp á yfirborðið – ekki með meðvirkni og ótta. Fáum hótanirnar a.m.k. upp á yfirborðið áður en við látum undan þeim.

Stóru glæpur Jóhönnu og Steingríms er að láta offors, ógnanir og diplómatískan kafbátahernað erlendra ríkja leiða sig í andlýðræðislega för. Þau hafa traðkað á þjóðinni.

Synjunarákvæði forsetans var sett í stjórnarskrá einmitt vegna svona mála.

Nú hangir það á hugrekki eins manns.

Engin ummæli: