7. janúar 2010

Hvernig EKKI á að gera pólitíska samninga...


Það er engin leið að gera pólitíska samninga án pólitísks þrýstings. Svavar Gestsson hafði engan slíkan þrýsting þar sem hann rökræddi við ósveigjanlega samningamenn Breta og Hollendinga. Samningsstaðan var því engin. Það er enda augljóst að það eina sem Svavar og Steingrímur voru að fiska eftir var náð. Ég bloggaði fyrir löngu, löngu síðan um þann leik sem viðsemjendur okkar léku á móti þessu bragði. Þeir fóru í leikinn Góða löggan, vonda löggan.

Þeim tókst að sannfæra Svavar sem sannfærði Steingrím sem sannfærði þá þingmenn sem ekki voru þegar sannfærðir um að þetta borgaði sig allt (vegna ESBinngöngunnar sem við fengjum í staðinn).

Að Icesave 2 verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur hinsvegar í för með sér gríðarlegan pólitískan þrýsting. Því meiri sem þjóðin verður samheldnari.

Evrópubúum var lofað að tekið yrði á spilltum bankamönnum og að lýðræði og réttlæti yrði aukið í kjölfar alheimskreppunnar. Ísland er áberandi frunsa á vörum þeirra stjórnmálamanna sem voru með þann fagurgala. Þjóð sem að öllu leyti er saklaus af bankahruninu á að borga reikninginn. Og ekki bara borga. heldur sæta hótunum og afarkostum.

Eina sekt Íslendinga er að hafa kosið ónýta stjórnmálamenn og látið viðgangast óstjórn á fjármálamarkaði. Engin þjóð í vestrænum heimi er þess umkomin að áfellast íslendinga fyrir það. Það er enda það eina sem meira að minna allir þegnar allra landa telja sig eiga sameiginlegt.

Og því fer fjarri að Brown eða Darling eða Bos geti pólitískt farið í hart gegn þjóðinni fyrir þetta. Ef þeir á annað borð reyna að sannfæra þjóðir sínar um að rétt og sanngjarnt sé að þegnar beri beina og óskoraða fjárhagslega ábyrgð á glötuðu kerfi glataðra stjórnmálamanna þá væru þeir að beina byssuhlaupinu að sjálfum sér.

Þjóðin hefur tekið fram fyrir hendur stjórnmálamannanna. Þeir eru sekir. Um það þarf ekki að deila. Þeir báru ábyrgðina. Og þeim færi best að hafa vit á að þegja núna.

Nú er komið að okkur – og okkar sterkasti leikur er að sameinast um að fella lögin. Og hann er ekki aðeins sterkastur, heldur líka réttlátur.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Breyta ætti nafni síðunnar á Blogggáttinni í Ragnar Þór bloggar einn.
Ég lít alltaf inn með von í brjósti um að Óli Sindri skrifi eitthvað.

Búúú

Stefán Pálsson sagði...

Þarf ekki að fínpússa þessa samsæriskenningu aðeins betur?

Hvaða þingmenn sannfærði Steingrímur um ágæti Icesave með ESB-rökum???

Ekki kratana - þeir voru hlynntir Icesave-samkomulagi fyrir (hvort sem ESB-áhuginn spilaði inn í þá afstöðu eða ekki). Og ekki VG-þingmennina, sem flestir eða allir voru og eru á móti ESB-aðild.

Reyndar er eini þingmaður VG sem hefur lýst sig fylgjandi aðild að ESB Lilja Mósesdóttir, sem er jafnframt harðasti andstæðingur Icesave úr stjórnarliðinu.

Það þarf eitthvað að bæta þessa teoríu.

Ragnar Þór sagði...

Stefán, það má misskilja málsgreinina sem þú vísar til. Sem og þú gerðir.

Það sem er innan svigans vísar til sannfæringar þeirra sem þegar voru sannfærðir ekki hinna sem SJS þurfti að sannfæra.

Hitt væri enda fráleitt.

Þ.e. sumir voru þegar sannfærðir (aðallega kratar) um að þetta borgaði sig allt vegna ESB (og létu meira að segja þá sögu ganga í þinginu að Evrópusambandið myndi borga reikninginn hvort eð væri). Hina sannfærði Steingrímur, þ.e. þá þingmenn VG sem voru á móti málinu en hleyptu því í gegn.

og Búúú

Við gáfum síðunni ekki nafn á Blogggáttinni og okkur er hjartanlega sama hvað hún heitir þar.

Mæli með þú addir Óla bara á Fb, hann er hvorteðer ekkert sérlega vandur að vinum þar.

Ekki það að hann nenni yfirhöfuð að skrifa mikið.