1. júlí 2009
Óvinur Íslands nr. 1: Gary Roberts
Að fletta í gegnum skjalaflóðið sem fylgir Icesave-frumvarpinu er ekki góð skemmtun. Mest af þessu er stagl sem skiptir litlu eða engu máli. Það er hinsvegar áhugavert að sjá að hollenski fjármálaráðherrann, Wouter Bos – maðurinn á myndinni, virðist ná að landa málinu í lok mars/byrjun apríl þegar hann fær Steingrím J. til að samsinna sér skriflega um að tryggingarkerfi innistæðueigenda sé grunnstoð evrópska fjármálaheimsins. Bréf Wos er jákvætt og uppbyggilegt og þar er gefið til kynna að ríkin muni tryggja Íslendingum betri kjör en rætt var um í samkomulaginu við Hollendinga um veturinn (6,5% vextirnir). Þá segir hann að Þjóðverjar fái líklega sitt bætt að fullu með eignum Icesave þar. Loks býður hann Steingrími að flýta eða hægja á samningagerðinni eftir því hvað henti best með tilliti til komandi kosninga! Hann endar á að segja að snarpar samningaviðræður séu leið Íslands að háborði siðaðra þjóða.
Steingrímur svarar, fullur andagiftar og jákvæðni og segir að hann sé sammála Hollendingnum um innistæðutryggingarkerfið og að Ísland ætli að standa við skuldbindingar sínar eins og þær séu almennt skilgreindar. Steingrímur hreykir sér af því að Íslendingar hafi sent Svavar af stað með tilboð sem fyrst var sett fram af Össuri sem geti landað málinu fljótt og vel.
Þá kemur til skjalanna samningamaður Englands, Gary Roberts. Hann er óttalegur durgur og leiðindaskarfur og er bara með stæla við Svavar. Segir allar tillögur Íslendinga bara flækja málið og ekki skila neinu. Og að Íslendingum sé hollast að landa málinu bara eins og til stóð. Hann segir líka:
„We believe that the principal amount of the loan should be the amount owed by TIF to depositors in accordance with the applicable deposit guarantee legislation to which Iceland is a party. ln addition it should include interest, and the costs incurred by the FSCS in making the payout on behalf of the TlF, and the legal costs in preparing these documents, making the payments and responding to lceland proposals.“
Og þegar Íslendingar móast við er gefið mjög skýrt til greina að það eina sem komi til greina að semja um sé afborgunarlausa tímabilið og vextirnir. En það liggi mjög á og framtíðartrú á Íslandi sem alvöru ríkis liggi undir.
Það er því varla nema von að Svavari og Steingrími þyki hafa tekist vel til. Þeir lækkuðu vextina um heilt prósent frá og lengdu afborgunarlausa tímann um fjögur ár.
En það þarf betri lestur til að finna eitthvað sem sannfærir mann um að rétt sé að samþykkja Icesave samninginn sem nú liggur fyrir.
En ein spurning.
Af hverju skyldu Þjóðverjar fá Icesave bætt að fullu? Af hverju ættu þeir ekki að fá 21 þús. evrur eins og aðrir og afgangurinn í sjóðinn til að redda hinum? Er ekki verið með því að mismuna eftir búsetu? Eða er „bætt að fullu“ notað um 21 þ. evrur? Það hlýtur eiginlega að vera.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli