6. janúar 2010

Að hugsa rökrétt

Ég hugsa það séu tvær ástæður helstar fyrir því að Ísland er núna komið í kúkinn. Sú fyrri er skortur á siðviti eða siðferðisþroska. Sú seinni er skortur á gagnrýninni hugsun.

Siðvitið verður erfitt að auka. Það verður eiginlega ekki aukið nema öðruvísi verði staðið að uppeldi Íslendinga hér eftir en hingað til.

Það er enn séns með gagnrýnu hugsunina. Og ekkert er mikilvægara að efla með þjóðinni eins og ástatt er. Sérstaklega núna, þegar hyllir undir að lýðurinn taki stærri þátt í ákvörðunum en áður.

Ég leyfi mér að halda. Nei, ég fullyrði, að stór hluti þjóðarinnar og meiri hluti stjórnmálamanna – og nær allir bloggarar – hafa ekki hugmynd um hvað gagnrýnin hugsun er. Fólk virðist fast í gildishlöðnu merkingu fyrra orðsins í hugtakinu. Halda að „gagnrýnin“ merki neikvæð. Og gagnrýnin hugsun sé neikvæð hugsun.

Gagnrýnin hugsun er ekki neikvæð. Hún er varfærin. Hún gerir sér far um að rýna betur í alla þræði en maður er vanur. Maður beitir ekki gagnrýninni hugsun meðan maður sýður sér egg eða hlustar á skólatónleika barna sinna. Gagnrýnin hugsun á ekki alltaf við.

En stundum á hún við. Og í stjórnmálum á hún sérstaklega mikið við. Sérstaklega í umdeildum málum.

Aðalsmerki gagnrýninnar hugsunar er að hún er ólíklegri til að skila niðurstöðu en ógagnrýnin hugsun. Það er enda erfiðara að hugsa niður á fast gagnrýnið. En niðurstöður sem þannig fást eru öruggari og einfaldlega betri. Og, hér er lykillinn að mikilvægi gagnrýninnar hugsunar í stjórnmálum, niðurstaða sem fengin er með raunverulegri og heiðarlegri gagnrýninni hugsun er síður til þess fallin að vera umdeild. A.m.k. meðal þeirra sem hugsa á annað borð gagnrýnið.

Það er nefnilega þannig að það skiptir ekki máli hvort maður er bakarasveinn í Súdan eða hjarðmaður í Himalæja, gagnrýnin hugsun er alltaf eins – og það sem er líklegt til að sannfæra einn, sannfærir annan.

Ekki þar fyrir að fólk sem hugsar gagnrýnið geti ekki verið ósammála. Mikil ósköp. En það sem gagnrýnin hugsun gerir er hasla sífellt stærri völl þess sem hægt er að kalla óumdeilanlega skynsamlegt og einangra þrætueplin – þar til kjarni málanna finnst. Og skoðanir á þeim kjarna geta verið skiptar vegna fjölbreyttra viðhorfa og lífsgilda einstaklinga.

Nú gæti einhver sagt að þessi viðhorf og lífsgildi séu í sjálfu sér mikilvægari en gagnrýnin. Og það er einmitt raunin í framkvæmd. Íslenskir stjórnmálamenn hafa hingaðtil skipað þeim í öndvegi. Sett ofar en allt annað. Og það væri svo sem gott og blessað ef það væri líklegt til að auka farsæld í landinu. En svo er einmitt ekki. Farsæld meðal þjóðar fæst aldrei ef eina veganesti þeirra sem leiða hana er sannfæring.

Við sjáum aldrei stjórnmálamann koma fram fyrir þjóðina til að mæra eitthvað með þeim tökum einum að hann sé svona líka svakalega „svag“ fyrir því. Stjórnmálamenn beita rökum. Þeir gera raun fátt annað. Þeir eru alltaf að rökstyðja eitthvað. Vandinn er, að þeir rökræða yfirleitt út frá gefinni niðurstöðu.

Þeir mæla fyrir málum. Boða eina eða aðra æskilega niðurstöðu. Telja síðan upp ótal atriði sem eiga að styðja niðurstöðuna.

Einkenni á niðurstöðu gagnrýninnar hugsunar er að hana leiðir af skynsamlegum rökum. Líkt og laufþykkni brýst upp úr sterkum trjástofni. Rökin sem stjórnmálamenn draga fram til stuðnings máli sínu gera það ekki. Þau spretta fram eins og gorkúlur upp úr skít.

Gagnrýnin hugsun lærist. Hana þarf að þjálfa og viðhalda. Meira að segja þeir sem þjálfaðir eru í henni gera mistök og heilar bækur eru til af dæmum sem draga gagnrýna hugsun á villigötur. En gagnrýnin hugsun er eina hugsunin sem er þess umkomin að fikta við rök.

Rök úr munni stjórnmálamanns eru yfirleitt minna virði en pappírinn sem þau eru prentuð á. Rök sem byggja á niðurstöðu eru ekkert annað en skítagorkúlur. Skrautfjaðrir í hatti sannfæringarinnar. Niðurstaða sem byggir á rökum er þúsund sinnum verðmætari.

Nú eru margir reiðir við forsetann. Aðrir eru ánægðir með hann. Ég hef ekki enn séð eina einustu skoðun á málinu sem á við rök að styðjast. Allt, sem skrifað er, ber þess merki að andúð eða aðdáun á forsetanum leiti útrásar í því sem hljómar rökrétt.

Vandinn er að „rök“ sem notuð eru með þessum hætti missa gildi sitt. Og þeir sem nota þau líka.

Það eru ekki færri rökfjaðrir í þeim hatti sem Jóhanna og Steingrímur setja á sig til að fordæma synjun forsetans en voru í þeim hatti sem þau báru þegar þau fögnuðu synjun hans á fjölmiðlalögunum. Þau skiptu bara um hatt við sjálfstæðis- og framsóknarmenn.

Ég ætla að eyða nokkrum orðum í ofboðslega vonda grein um málið seinna í kvöld. Grein sem mikið hefur verið hampað.

Engin ummæli: