6. janúar 2010
2. Það er ekki hægt að setja samninga á milli þjóða í þjóðaratkvæðagreiðslur
2. Það er ekki hægt að setja samninga á milli þjóða í þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að það er ómögulegt að hafa heila þjóð sem viðsemjanda. Auk þess myndu slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur geta leitt af sér holskeflur af slíkum atkvæðagreiðslum því það væri hægt að leggja allar samningstillögur í slík atkvæði.
Þetta er þvæla. Það á að setja evrópusambandsaðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og það væri ekki hægt ef þessi rök stæðust. Eins hefðu þær fjölmörgu þjóðir sem einmitt hafa sett þjóðarsamninga í atkvæðagreiðslur verið að einhverju leyti á skjön við heim þess mögulega. Það er engin rökleiðsla að baki þessari fullyrðingu. Það er enginn eðlismunur að semja fyrir hönd þjóðar og þings. Þing situr í umboði þjóðar, samninganefnd í umboði þings. Umboð er það sem máli skiptir. Að einhver hafi fengið umboð til samninga. Og að það umboð sé eðlilega fengið og að það sem samið sé um samrýmist umboðinu. Nú hafa vaknað verulegar efasemdir um að samninganefnd Íslands hafi farið eftir umboði sínu. Að samningurinn sem kominn er í hús samræmist þeim skilmálum sem lagt var upp með. Þingið vildi ekki fullyrða að svo væri og staðfesti samninginn með lögum. Þjóðin taldi að þingið hefði þar með farið út fyrir umboð sitt og klagað var í forsetann sem leggur fyrir þingið þetta próf.
Það skiptir engu máli hvort lögin verða samþykkt eða ekki – umboðið mun alltaf vera skýrt á eftir. Samþykki þjóðin lögin hefur ríkisstjórnin heimild til að landa málinu með þessum samningi. Samþykki hún það ekki hefur hún heimild til að landa málinu með þeim fyrirvörum sem samþykktir voru. Dugi þeir ekki til er ljóst að samningar hafa ekki tekist. Og það er eðli samninga að ef umboð beggja aðila skarast ekki, þá nást þeir ekki. Þá eru eftir aðrar leiðir sem koma samningum ekkert við.
Einhver gæti sagt að engin embættismannasamninganefnd frá Bretlandi í umboði einhverra óvinsælustu stjórnmálamanna heimsins gæti slegið á útrétta hendi samningamanns sem hefur umboð heillar þjóðar að baki sér án þess að koma verulega illa út. Ég ætla ekki í neinar slíkar bollalengingar hér. Samningar eru yfirleitt þannig að báðir þurfa að gefa eftir, ekki bara annar. Og það kom aldrei til greina, hvorki af hálfu þings né þjóðar, að samninganefndin hefði fullt og óskarað umboð. Þvert á móti – í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu mun umboðið loks verða skýrt.
Svo lengi sem samningar samrýmast því umboði sem samningamenn höfðu er engin ástæða til að vera að kjósa. Hvað þá aftur og aftur. Auk þess sem slíkt myndi aldrei gerast. Fólk er ekki fífl. Meirihluti þjóðarinnar myndi aldrei taka þátt í svoleiðis vitleysu.
En það getur aldrei verið rök gegn því að skref sé stigið í átt til lýðræðis að ef fleiri skref, segjum svona milljón, væru tekin í viðbót þá myndi maður enda úti í móa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli