31. desember 2009
Rök með og á móti þjóðaratkvæðagreiðslum
Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki sjálfsagðar og munu væntanlega alltaf vera umdeilanlegar. Hér eru nokkur rök gegn þjóðaratkvæðagreiðslum og mótbárur við þeim.
Allar mótbárurnar eiga það sameiginlegt að hafa komið fram í ræðustól á Alþingi. Og allar hjá sama ræðumanninum, Steingrími J. Sigfússyni.
Sum mál eru svo tæknileg, flókin eða viðkvæm að þjóðin er ekki í aðstöðu til að kjósa um þau þar sem slík kosning hlyti að byggja á ófullkomnum forsendum.
„Hvað er hæstv. utanrrh. að segja þegar hann talar um að þjóðin sé ekki nógu vel upplýst um þetta mál til þess að réttlætanlegt sé að leggja það í dóm hennar? Þetta eru alvarleg orð. Annað tveggja er að hæstv. utanrrh. telji þjóðina ekki hafa haft aðgang að upplýsingum, ekki hafa haft forsendur til að kynna sér málið eða hitt að hann treystir ekki dómgreind hennar, telur hana ekki færa um það. Hvort tveggja er jafnalvarlegt. Ef þjóðina vantar upplýsingar þá þarf að koma þeim á framfæri, gera þær aðgengilegar. Hinu mótmæli ég og neita að trúa að jafnmætur maður og hæstv. utanrrh. á margan hátt er hafi ekki meira álit á dómgreind Íslendinga en þetta.“
Stundum er það hluti af ábyrgð stjórnmálamanna að fylgja eftir til loka stórum hagsmunamálum fyrir þjóð sína án tillits til dægurvinsælda eða undiröldu. Stundum verða stjórnmálamenn að fylgja sannfæringu sinni, sérstaklega ef um er að ræða mikil framfaramál eða mál sem skipta sköpum fyrir farsæld þjóðarinnar sem heildar.
„Hitt er þó enn sérkennilegra að þeir hinir sömu menn sem í öðru orðinu tala um mikilvægi málsins og þýðingu og stærð, og það sé það mikilvægasta og stærsta á lýðveldistímanum, skuli í hinu orðinu leggjast gegn því að þjóðin fái þá að segja álit sitt á því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn furðulegra er það nú þegar í hlut eiga heittrúaðir menn, sanntrúaðir menn eins og hæstv. utanrrh. sem eins og kunnugt er fyrir mörgum missirum síðan tók trú á þetta mál og hefur ekki gengið af henni síðan, virðist trúa því betur en nokkru öðru hér í heimi að þarna sé lausnarorðið fundið, þarna sé frelsunarvegurinn, þarna sé vegabréfið inn í 21. öldina og guð má vita hvað sem út úr hæstv. ráðherra hefur oltið. Enn furðulegra er það að þessi sanntrúaði og sannfærði maður skuli þá ekki fagna því tækifæri að láta þjóðina segja sitt álit á sköpunarverkinu. Ég hef aldrei fengið það til að ganga upp, annars vegar þennan málflutning boðenda trúarinnar, hæstv. utanrrh. og hans fylgisveina, að hér sé á ferðinni þetta stóra og mikla hagsmunamál og jafneinboðið fyrir íslenska hagsmuni og þeir vilja vera láta en hins vegar sé ekki nokkurt vit í því að þjóðin fái að segja sitt álit.
Stundum getur þjóðaratkvæðagreiðsla hreinlega orðið til þess að sundra þjóðinni í stað þess að sameina hana. Ákvarðanir sem falla eða standa vegna óverulegs meirihluta þjóðarinnar geta verið skaðlegar lýðræðinu og skapað ósætti og úlfúð.
„Það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga að íslenska þjóðin hefði unað niðurstöðunni í þessu máli miklu betur en ella hver sem hún hefði orðið, hvort sem samningurinn hefði reynst njóta meirihlutastuðnings eða ekki ef þjóðin hefði sjálf fengið að dæma í því máli. Þannig hefðu menn helst getað orðið á eitt sáttir um að una niðurstöðunni að það hefði þó legið fyrir að meiri hlutinn hefði fengið að ráða.“
Sum mál, eins og þau sem varða samninga milli ríkja og byggja á afstöðu Íslands annarsvegar og erlendra þjóða hinsvegar, eru ekki tæk til þjóðaratkvæðis. Enda er það ekki svo að önnur lönd, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur tíðkast, leggi slík mál í dóm þjóða sinna.
„Sá háttur [að halda þjóðaratkvæðagreiðslur] hefur ekki verið hafður á þegar mikilsverð utanríkispólitísk mál hafa verið leidd hér til lykta, öfugt við t.d. nágrannaríkið Danmörku. Þar hafa menn kosið í almennum kosningum um öll meiri háttar mál sem tengjast þátttöku Dana, t.d. í Evrópusambandsstarfinu. Það hefur aftur leitt til mikillar umfjöllunar um málin, mikillar umræðu og upplýsinga sem leitt hafa til þess að Danir eru vel með á nótunum, fylgjast með og veita stjórnvöldum aðhald þegar að þessum hlutum kemur samanber auðvitað og frægast er þegar þeir felldu tilraun danskra stjórnvalda til að koma þeim inn í Maastricht-samninginn á sínum tíma.“
Það er fullkomlega eðlilegt að stjórnmálamenn geti almennt og yfirleitt verið afar fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum þótt þeir þurfi að leggjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök mál.
„En hafi málflutningur umhvrh. verið vandræðalegur var þó framganga formanns Samfylkingarinnar sýnu verri. Fyrst byrjar hv. þm. Össur Skarphéðinsson á að lýsa því hversu eindreginn stuðningsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna hv. þingmaður sé, en bara ekki þessarar. Formaður Samfylkingarinnar, sjálfur lýðræðishöfðinginn, horfir fram hjá því að fái þjóðin að láta álit sitt í ljós og sé það nú þannig að meiri hluti hennar sé andvígur því að ráðast í þessar framkvæmdir þá fær sá meiri hluti tækifæri til að stöðva þær. Það á ekki að láta hann gjalda þess að menn geti haft mismunandi sjónarmið um tæknilega útfærslu kosninganna. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér fannst formaður Samfylkingarinnar með málflutningi sínum hér áðan gera sig endanlega að skoffíni í umfjöllun um þetta mál eins og hann stillti hlutunum upp.“
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli