Þessa dagana streyma grunnskólabörn í kirkjur, á skólatíma, og það fer fyrir brjóstið á einhverjum. Andstaða við slíkt held ég sé fyrst og fremst táknræn og/eða af prinsippástæðum. Ef minnsta hætta væri á því að klukkutími í kirkju fyrir jólin hefði einhver varanleg áhrif á hug barnanna, þá ætti umsvifalaust að senda alla kennara landsins í endurmenntun í guðfræðideild. Þessa sömu kennara og hamast við það 170 daga á ári að troða inn í hausa barnanna viðhorfum og þekkingu - ævinlega með takmörkuðum árangri.
En auðvitað mega menn vera á móti því af prinsippástæðum að börnum sé sagt að Guð sé til. Og raunar gæti vel opnast vettvangur fyrir foreldra og áhugamenn í að mótmæla hinu og þessu sem skólinn heldur fram. Kennarar (a.m.k. sumir) þreytast ekki á að segja óhörðnuðum unglingum að þeim sé hollt að læra dönsku, að allir þurfi að kunna algebru og að þekking á málfræði sé grundvallarþörf hugsandi manneskju.
Það er fullt af börnum sem leidd eru í gegnum skólakerfið undir stöðugum þrýstingi um að passa í fyrirframgefið mót. Þar er hamast á viðhorfum þeirra og getu þar til þau standa uppi sem stálpaðir unglingar - handviss um að þeim sé áfátt á flestum sviðum. Þannig fara hópar brotinna manna og kvenna út í lífið, því við hin (þessi sem finnst gott að kunna algebru og hrafl í dönsku) ætlumst til þess að allir eigi að vera eins og við - eða a.m.k. vilja vera eins og við.
Kristniboð í þeirri mýflugumynd sem það er er smámál miðað við allt hitt. Skóli er uppeldis og innrætingarstofnun. Börn bókstafstrúarfólks hafa ekkert val um það að ganga út úr líffræðitíma þegar kennt er um þróunarkenninguna eða lífsleiknitíma þegar fullyrt er að sjálfsfróun sé góð og samkynhneigð æði - að að sjálfsfróandi hommi sé það besta síðan sneitt brauð. Barn getur ekki gengið á dyr þegar dönskukennarinn grípur í hornspangargleraugun og fullyrðir að það skuldi þjóðinni það að læra dönsku, því annars beri það þunga ábyrgð á því að varpa menningararfinum á glæ. Nemandi hefur ekki val um að þykja þessi einhverfa áhersla á að flokka orð í flokka (og rifrildi um það hvort „sem og er“ séu smáorð eða fornöfn) hákátleg og, dirfist ég að segja það, hryllilega nördaleg.
Ég ætla að gerast svo djarfur að halda því fram að á sama hátt og Laxness breytti um stafsetningu, Þórbergur breytti klisjum og Megas breytti ljóðagerð - þá sé algjör lykilforsenda, grundvallaratriði - að þekkja til hlítar það sem maður hafnar. Og þekkja það innanfrá. Vera alinn upp í því sem maður gerir uppreisn gegn.
Þess vegna á að halda áfram að senda börn í kirkjur og lesa fyrir þau jólaguðspjallið. Það er enginn grundvallarmunur á því og að lesa litlu stúlkuna með eldspýturnar á dönsku. Og íslenskukennarar eiga enn að halda því fram að málfræði sé æði. Og stærðfræðikennarar eiga að verja algebru með kjafti og klóm.
En innrætingin, sjálfur heilaþvotturinn, á að fela í sér að krakkar læri smám saman að hugsa gagnrýnið, mynda sér skoðanir, verja þær og ráðast á skoðanir annarra. Það á að gera börn að sjálfstæðum hugsuðum - þegar þau eru tilbúin. Ekki fyrr.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli