26. september 2009

Ritstjórinn sem vissi of mikið.

Það er tvennt, og raunar aðeins tvennt, sem mér finnst orka tvímælis við ráðningu DO sem ritstjóra Morgunblaðsins. Og þetta tvennt finnst mér jafn vafasamt þótt honum fylgi draugapenni í „embættið“.

Hið fyrra er að þótt mér þyki almennt lítið mark takandi á þjóðarsálinni þá þarf að hafa hana í huga þegar sýslað er með opinberar eigur. Ég veit ekki betur en að í hrunadansinum hafi ríkið, a.m.k. um stund og óbeint, eignast Morgunblaðið. Og gefið frá sér aftur á kostakjörum. Mér finnst að þeir, sem þannig verði sér úti um eigur sínar, beri einhverja lágmarksábyrgð gagnvart þjóðinni. Ég er ekki viss um að ráðning DO gangi gegn velsæmi að þessu leyti en hún er á jaðrinum.

Hitt atriðið er að ég fæ ekki séð að það sé æskilegt að menn sem búa yfir miklu af trúnaðarupplýsingum fari beint úr starfi sem krefst þess að þeim að þeir standi vörð um þessar upplýsingar yfir í starf þeirra sem ásælast þær og keppast við að opinbera. Og þótt Do sé vafalaust gegn og grandvar maður þá geta þessar upplýsingar ekki annað en haft áhrif.

Þetta er katsj 22. Þegar mál sem DO hefur innanbúðarvitneskju um berst til ritstjórnar þá þarf ritstjórinn ekki að gera annað en að segjast ætla að halda sig til hlés í málinu til að vera byrjaður að seytla út trúnaðarupplýsingum. Líklegast er að einhver svona leikur eigi sér stað:

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson): -Heyrðu, ég fékk tölvupóst um það að ónefndur háttsettur maður í Sjálfstæðisflokknum væri klæðskiptingur.

DO: -Uhhh... Ég þarf að skreppa fram aðeins.

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson): -Aha! Svo það er eitthvað til í því!

DO: (hikar) -Ehh... Nei, nei... sko ég ætlaði bara að skreppa og ná mér í kaffi.

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson): -En það er kaffi á borðinu þínu.

DO: -Ó ... já, alveg rétt.

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson):- Jæja?

DO: -Jæja, hvað

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson): -Á ég að fylgja þessu eftir eða hvað?

DO: -Fylgja hverju eftir?

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson): -Þessu með klæðskiptinginn.

DO: -Heyrðu, viltu ekki frekar kíkja á áskrifendaskrána og finna þá sem hafa sagt upp Mogganum en létu fyrirtækin sín borga áskriftina fyrir sig? Hreinræktuð skattsvik.

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson): -Ég gerði það í gær mannstu. Ég er að spá í að hringja í Jón Steinar.

DO: -Tja... (hristir hausinn)

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson): -Kjartan?

DO: -Tututu... (syngur lágt) -Við Reykjarvíkurtjörn...

Blaðamaður (örugglega ekki Ásgeir H. Ingólfsson):-Borgarfulltrúi?

DO: (Syngur) -Mér finnst ég vaaaaarla heill né hálfur maður...

Engin ummæli: