15. september 2009

Rasistakennslukonan

Ég held að það einelti og illa umtal sem nemendur Hagaskóla verða vitni að í heilagri herferð móralska minnihlutans gegn rasíska matreiðslukennaranum sé hundrað sinnum óhollara fyrir þá en allar bloggfærslur um pólsk glæpagengi.

Kennarar eiga að fylgja sjálfsprotnum siðareglum og það er ekkert sem bendir til þess að þessi kona sé á nokkurn hátt siðferðilegur eftirbátur annarra. Hennar galli er ekki siðferðilegur. Hún er fáfróð. Og lendir í vandræðum vegna þess að hugsun hennar (og þar af leiðandi rit- og talmál) er óydduð og frumstæð.

Skólar eru fullir af fordómabelgjum sem eru miklu, miklu verri en þessi kona. Afdönkuðum stalínistum (sem helst vilja kenna samfélagsfræði), hvítasunnufólki (sem fetar einstígi í kennslunni en sleikir tærnar á syndugum með vítislogum tungunnar á sunnudögum), útlitsdýrkandi sportjakuxum í henson-göllum og málfarsfasistum.

Kennarar hafa aldrei verið heilagir. Þeir hafa stundum þóst vera það. Og fólk hefur látið sem það hafi trúað því (svona rétt á meðan börnin sjá til). En það eru látalæti sem tilheyra annarri öld.

Ef við skorðum mengi kennslutækra við skoðanalausar og bældar „fyrirmyndir“ þá sitjum við uppi með hrat.

Engin ummæli: