13. september 2009

Um klikkun Helga Hóseassonar

Karl Th. Birgisson hefur upp raust sína til afvötnunar þeim sem honum finnst hefja Helga Hóseasson upp í hjáguðastöðu. Hann minnir á þá sóberuðu og ómótmælanlegu staðreynd að karlgarmurinn hafi verið klikkaður og óferjandi og það hafi í raun verið hending, og ekkert sérstaklega aðdáunarverð sem slík, sem réði því að klikkun hans ruddi sér niður réttmætan farveg og spúlaði út úr feysknu fjósi kirkjunnar.

Mér finnst afstaða Karls smáborgaraleg og gamaldags. Og mér finnst hún lituð fordómum gagnvart klikkuðu fólki. Hún hljómar eins og fúlt andvarp þeirra tregðufullu tíma sem Helgi Hóseasson var dæmdur til að vera hluti af. Tíma þar sem ekki aðeins ódælir karlfauskar með mótþróaþrjóskuröskun voru sannanlega klikkaðir heldur samfélagið sjálft. Og þótt menn geti fyllst þykkju yfir hirðfíflum eins og Helga þá væri betra að sú þykkja ætti sér uppsprettu annarsstaðar en hjá hirðinni sjálfri.

Það er ótrúlegt að árið 2009 komi fram málsmetandi maður og reyni að finna vinsælum manni það til foráttu að hann hafi glímt við geðveiki. Og sérstaklega þessum manni. Manni sem alla tíð kvartaði undan því að hafa legvatnsrakur verið stimplaður af stofnunum samfélagsins. Geðveikisfóbían er önnur, ekki geðslegri stofnun, og nú er hún að stimpla hálfvolgt hræið af karlinum.

Kjarval var klikkaður. Þórbergur var það líka. Og Sólon Íslandus, Æri-Tobbi, Stefán Stórval (og pabbi hans), Ásta Sigurðardóttir, Páll í Selárdal og nágranni hans Uppsala-Gísli. Raunar bróðurparturinn af öllu því fólki sem þjóðin hefur séð ástæðu til að hylla.

Og eins og það þurfti yfirleitt sogblettóttan, skvapholda barm danskrar hóru til að blása íslenskum stúdentum í brjóst andakt yfir fegurð íslenskra fjalla þá er það enn fjarlægðin sem kennt hefur okkur að meta þessa gölluðu snillinga. Fjarlægð í tíma og rúmi. Þeir sem næst standa eru yfirleitt svo mettaðir af hversdagslegum drunga að þeir koma ekki auga á fegurðina fyrir göllunum.

Það tók marga áratugi fyrir ættingja Kjarvals að gangast við honum. En þá var hann búinn að vera á forsjá þess opinbera svo lengi að það vildi ekki sleppa af honum takinu.

Það er óvirðing við minningu Helga Hóseassonar að gefa það í skyn að hann hafi verið eins og biluð klukka sem af hendingu er rétt tvisvar á sólarhring. Það er óvirðing að gefa það í skyn að geðveikt fólk skuli ekki njóta virðingar. Það er heimskulegt að ætla að þóðin sé ekki fær um að mynda sér skoðun á manni eins og Helga. Það er smásálarlegt að hella afréttara ofan í minningargreinar.

Karl, er það virkilega svo að fyrst eftir að fólk deyr þá sé það oflofað?

No sjitt, Sjerlokk?!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kjarval og Þórbergur urðu ekki þekktir vegna klikkunar sinnar. Þeir höfðu ótvíræða hæfileika - OG voru auk þess sérvitringar.
Helgi H. var maður sem ól með sér sjúklega þráhyggju sem eyðilagði hans eigið líf og líf konu hans.
Hann var stórmerkilegur kall fyrir margra hluta sakir, en það er nöturlegt að reisa manni styttu fyrir að hafa látið stjórnast af blindri þráhyggju alla sína ævi.
Auðvitað hefði kirkjan og yfirvöld geta látið einhvern veginn undan karlinum og "ógilt" sáttmálann. En það var með Helga eins og aðra þráhyggjusjúklinga, málefnið var í öðru sæti - þráhyggjan í því fyrsta. Hann hefði því aldrei sætt sig við neina lausn í málinu.