Mér þykir dálítið vafasöm tilhneigingin í samfélaginu til að gera sjálfkrafa fórnarlömb úr konum.
Frétt í gær var stórundarleg þar sem gefið var í skyn að stór hluti kvenna væri beittur ofbeldi af sambýlismönnum sínum og liði fyrir það með áhættuhegðun og slæmri heilsu.
Til að byrja með var töluvert meira en helmingur kvennanna sem ekki svaraði könnuninni. Það er ekki óeðlilegt að álykta að þeir sem ofbeldi eru beittir svari frekar en hinir og þannig verði hlutfall þeirra einkennilega hátt.
Þá virðist hvorki hafa verið rannsakað hvort þessar konur eða aðrar beiti menn sína ofbeldi. En mig grunar nú að oft á tíðum séu ofbeldissambönd gagnkvæm. Það er ekkert í eðli kvenna sem fær þær til að fara mildari höndum um fórnarlömb sín þótt aðferðirnar séu aðrar.
Og þá er alveg ósannað að áhættuhegðun og slæm heilsa, líkamleg og andleg, sé afleiðing þessa meinta ofbeldis.
Þessi tiltekna könnun er kannski ekki stórmál en hún virðist í fljótu bragði viðhalda hugmyndum um konur sem fórnarlömb og karla sem ofsækjendur. Þessi hugmynd er stundum stórskaðleg eins og í sumum forræðisdeilum.
Konur eru ofbeldisseggir alveg eins og karlar. Það þarf ekki að eyða mörgum mínútum inni á vef eins og er.is til að sjá dæmi um klárlegt andlegt ofbeldi, kúgun og einelti.
Og konur eiga það til að kúga karlmenn, t.d. með því að eitra sambönd þeirra og barnanna eða hefta samskipti.
Ég held að það sé hreinlega betra að vera kýldur en sviptur börnum sínum ranglátlega.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli