8. júlí 2009

Árni johnsen hittir þingmann nr. 64

Sú saga gengur nú um Alþingi og víðar að 64 einstaklingar sitji á þingi, þar af 63 lifandi eða því sem næst en einn framliðinn.

Ég sel söguna ekki dýrar en ég keypti hana en hún gæti vel verið sönn. Hún er voða sæt hvort sem er.

Þannig var að Birgitta Jónsdóttir, dóttir Bergþóru heitinnar Árnadóttur söngvaskálds og þingmaður Borgarahreyfingarinnar, kom að máli við Árna Johnsen og þakkaði honum hlý orð í garð móður sinnar í minningargrein.

Árni tók þökkum hennar vel og lét nokkur vel valin orð falla um ágæti Bergþóru. Þá segir Birgitta:

„Viltu kannski tala við hana?“

Árni verður hvumsa en tafsar eitthvað á borð við að jú, hann hafi nú oft talað við hana. En Birgitta situr við sinn keip og ítrekar spurninguna um leið og hún dregur forláta skrín upp úr pússi sínu.

„Þetta er hún,“ segir hún og bendir á öskuskrínið og býður Johnsen að taka upp þráðinn í samskiptum sínum við söngvaskáldið framliðna.

Árni var nokkuð hugsi þegar hann kom aftur til sætis síns og hnippir í sessunaut sinn sem er flokksmaður Birgittu og þekktur rithöfundur. Hann segir: „Þið virðist vera dálítið fleiri en fjögur frá Borgarahreyfingunni hér á þingi.“

Rithöfundurinn svarar að bragði: „Já, þú meinar Bergþóru.“

Engin ummæli: