7. júlí 2009

Kelur við kannabis

Miðað við eiturlyf er kannabis tiltölulega skaðlaust. Fjöldinn allur af fólki hefur prófað það án þess að verða fyrir varanlegum skaða.

En þegar rætt er um hvort lögleiða eigi efnið á ekki síður að beina sjónum að þeim sem ekki komast óskaddaðir frá efninu. Miklu fleiri hafa keyrt án öryggisbeltis og komist upp með það. Mjög margir hafa vanrækt börn sín og komist upp með það.

Málið snýst ekki um það hve hamingja stórs hóps er eyðileggingar margra vesalinga virði.

Málið snýst heldur ekki um það hvort kannabis komi að gangi við MS eða brjóstakrabbamein. Flest krabbameinslyf eru eitur og engum heilvita manni dytti í hug að nota lækningarmátt þeirra sem röksemd fyrir því að leyfa almenna notkun þeirra. Það dettur m.a.s. fáum í hug að rétt væri að lögleiða almenna notkun rítalíns.

Fylgismenn kannabislögleiðingar byggja afstöðu sína að hluta á rökum en hluta á rökleysum og jafnvel blekkingum. Þeir falla í hóp með ýmsu nýaldarliði, hómópötum og öðrum kuklurum þegar þeir krefjast strangrar vísindalegrar nákvæmni þegar kemur að mótrökum en láta af þeirri nákvæmni þegar kemur að því að verja málstaðinn.

Skoðum nokkur rök:

1. Með því að hafa kannabis ólöglegt er verið að búa til neðanjarðarsamfélag sem er grimmilegt og býr til eymd fyrir neytandann og stuðlar að glæpum.

Við skulum ekki staldra við hræsnina sem felst í því að kenna löggjafanum um tilvist drullupúka sem maður sjálfur elur. Það er einkennileg röksemd, svo ekki sé meira sagt, að kenna einhverjum öðrum um að til sé framboð þegar maður sjálfur sinnir eftirspurninni. Ef við gefum okkur nú að kannabis sé svona skaðlaust eins og stuðningsmennirnir vilja meina þá er það hvorki sérlega ávanabindandi né hættulegt. Það má því velta fyrir sér hvers vegna neytandinn ætti að sætta sig við ömurleg neysluskilyrði. Hann fer varla að sætta sig við ofbeldi og hótanir og ömurleika til þess eins að verða sér úti um efni sem hann getur hvorteðer verið án.

2. Með því að tríta kannabisneytendur sem glæpamenn stuðlar maður að því að þeir fari að haga sér sem glæpamenn.

Það er alveg óefað að ef við lítum á kannabis sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut þá hverfa ýmsar skuggahliðar neyslunnar. Það er alltaf dálítill drungi á bak við tjöldin og þar renna hlutir saman í eitt og eitra hverjir aðra. En þetta gildir um flest og er ekkert frekar röksemd fyrir lögleiðingu kannabis en barnagirnd. Til eru samtök manna sem krefjast þess að barnagirnd þeirra sé samþykkt og viðurkennd sem eðlileg hneigð. Þeir benda á að þeir eru ekki að skaða neinn (og sveiflast röksemdir þeirra frá því að þeir dáist að börnum úr fjarska yfir í það að börnin hafi gott af ástum fullorðinn manna) og að hneigð þeirra sé ofureðlileg og sammannleg og hafi fylgt tegundinni frá örófi alda. Það er líka vitað að undir yfirborðinu blandast barnagirnd sumum viðurstyggilegustu glæpum sem fyrirfinnast. Það, hvort leyfa eigi opinbera barnagirnd, snýst ekki um „afglæpun“ nema að litlu leyti. Það er ákvörðun sem byggir á skaðsemi fyrirbærisins sem slíku.

3. Það er tilgangslaust að berjast gegn kannabisneyslu. Þetta er tapaður bardagi.

Það er rétt að baráttan við kannabis hopar úr einu víginu í annað og löggjafinn er í sífelldri leit að þeirri leið sem best kemur að gagni. Það að bardaginn sé erfiður þýðir ekki að uppgjöf sé rökrétt niðurstaða. Ef markmiðið er að minnka neyslu efnanna þá er auðvitað lang farsælast að einbeita sér að forvörnum. Koma í veg fyrir að unglingar og ungt fólk byrji. Það er ekki gert með því að segja að kannabis sé gott og blessað, skaðlausasta vímuefnið á markaðnum, en bara hættulegt börnum. Unglingar munu ekki láta sér segjast við það.

Við værum að bregðast skyldum okkar gagnvart okkar minnstu bræðrum ef hér yrði staðan eins og víða í Bretalandi þar sem kannabis eitt og sér er látið óátalið því álitið er að börnum úr ákveðnum hverfum sé hreinlega ekki viðbjargandi. Og það sé betra að láta krakkana mæta rauðeygða og ringlaða í skólann heldur en að láta þá vera í hnífaslag í frímínútum.

Það að gera ekki neitt er að dæma félagslega illa stödd börn til þess andlega fangelsi sem kannabis getur verið og taka frá þeim sjálfsbjargarkraftinn ekkert síður en óknyttakraftinn.

Félagsleg vandamál hverfa ekki þótt maður hjúpi þau reyk.

4. Með því að taka hart á kannabisræktun og innflutningi eykst sala á harðari efnum.

Þetta er vafalítið rétt en sýnir um leið að kannabisneysla er ekki eins saklaus og fram er haldið. Ef kannabisneytandinn hleypur í sterk efni eins og e-pillur eða læknadóp af því að aðgengi hans að efninu minnkar þá er augljóst að víman er það sem líf þess einstaklings snýst um – og að hann þarfnast hennar og sækist eftir henni, jafnvel á kostnað eigin heilsu og hamingju. Það eru lítil meðmæli með kannabis að það skapi heilan haug af þægum dópistum í dróma. Góður dópisti er ekki endilega daufur dópisti. Daufur dópisti er ekki nema steinsnar frá dauðum dópista.

5. Kannabis er skaðlausara en áfengi og tóbak.

Þetta er meginröksemd þeirra unglinga sem ég heyri verja eigin neyslu. Þeir byrjuðu að reykja og drekka og svo sannfærðust þeir um að kannabisneysla væri skref afturábak í átt til betri heilsu. Þvílík endemis þvæla! Skaðsemi kannabisefna er óumdeild þegar kemur að unglingum og ungu fólki. En þar er neyslan líka langmest. Unglingur gerir sér enga grein fyrir lúmskum afleiðingum neyslunnar. Fullorðið fólk á í fullu fangi með að gera sér grein fyrir áhrifunum. Það er ekki bara svo að hasshausinn missi áhugann á því að vera að berja fólk niðri í bæ. Hann missir áhugann á flestu sem krefst einhverra átaka og festist í eigin heimi þar sem hann sinnir áhugamálum sínum og reykingunum á kostnað nokkurnveginn alls. Efnin færa honum ekkert sem mikils er um vert og ekki er hægt að verða sér út um með meiri tilkostnaði. En þau taka frá honum margt sem oft reynist erfitt að endurheimta.

Kannabis eykur ekki þroska eða hæfileika nokkurs manns, það þvælist bara fyrir.

22 ummæli:

Einar V. Bj. Maack sagði...

Vá.
Ég nenni ekki að svara þessum hringrökum, skriðurökum og ad hominem rökvillum sem hér koma fram...

...en það sýnir best siðleysi þitt að þú berir saman kannabisneyslu og barnagirnd/níð.

Annarsvegar er verið að tala um 'glæp' þar sem einstaklingur skaðar helst sjálfan sig og hinsvegar sálarmorð á barnungri manneskju.

Bendi þér á grein sem ég skrifaði fyrir þó nokkru um persónufrelsið og einkarétt fólks til yfirráðum yfir eigin líkama.
Hugleiðing um frelsið

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þú ert ekki vel læs, er það?

Ég bar þetta tvennt saman í þeim tilgangi, sem augljós er öllu hugsandi fólki, að bera saman tvennt – þar sem annað er augljóslega siðferðilega ámælisvert en hitt ekki.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ó, guð.

Ég las þennan óskapnað þinn.

Vinsamlegast vertu úti.

Nafnlaus sagði...

ég er ekkert sérstaklega með eða á móti kannabis en að þetta sé aðalumræðan á blogginu þínu, THC sem gerir þig smá ringlaðan og innhverfan í klst og hefur ekki ennþá drepið neinn svo vitað sé til, finnst mér furðulegt. Það eru stærri vandamál í þjóðfélaginu..

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er ágætt að fá pásu frá Icesave eitt augnablik.

En það er vel þekkt að kannabis hefur verið áhrifaþáttur í sjálfsmorðum ungmenna. Sérstaklega þeirra sem ekki verða bara ringaðir og innhverfir og horfa á skýin heldur þeirra sem verða fyrir róttækum persónuleikaröskunum og geðsjúkdómum.

Nafnlaus sagði...

Það er ýmislegt sem getur orðið valdur að sjálfmorðshneigð ungmenna, þurfti sjálfur að þola dauða nokkra bestu vina minna því þeir ákváðu að taka sitt eigið líf, ég er samt ekki að benda á þetta tiltekna efni sem einhvern sökudólg jafnvel þó einn þeirra hafi notað það..Hvar eru rannsóknir sem sýna að fólk verði fyrir róttækum persónuleikaröskunum og geðsjúkdómum? Ég hef oft heyrt um þetta en aldrei séð neinar rannsóknir eða heimildir sem styðja þetta. Endilega bentu mér á það ef þú leynir á einhverju :)

Nafnlaus sagði...

A recent Government-commissioned report warned that a single joint of cannabis raises the risk of schizophrenia by more than 40 per cent and that taking the drug regularly more than doubles the risk of serious mental illness.

Previous studies have shown a clear link between cannabis use in the teenage years and mental illness in later life.

Research completed by leading psychiatrist Professor Robin Murray in 2005 showed that those who smoked the drug regularly at 18 were 1.6 times more likely to suffer serious psychiatric problems, including schizophrenia, by their mid-20s.

It is thought that, used during teenage years, the drug can cause permanent damage to the developing brain.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

http://schizophreniabulletin.oxfordjournals.org/cgi/reprint/31/3/608

Nafnlaus sagði...

http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/19560900

Rannsóknin sem var birt í Lancet er átti að sýna fram á tengsl cannabis við geðrof var fölsuð. Það var aldrei neitt í rannsókninni er sýndi fram á þessi tengsl.

ÞAð þarf nú ekki að koma á óvart því allar óháðar rannsóknuir sem gerðar hafa verið af samtökum lækna, í USA, KAnada, Hollandi og Bretlandi hafa sýnt fram á að mjög lítil eða engin tengsl eru þarna á milli.

ÞAð er ekkert sem bendir til þess að cannabisd geti valdið geðrofi hjá heilbrigðum einstaklingum, en talið er að cannabis geti ýtt undir einkenni sumra einstaklinga sem þegar eru veikir. Á móti kemur að til eru einstaklingar með geðrof sem geta notað cannabis sem lyf til að halda einkennum í skefjum.

Cannabis veldur ekki heilaskaða. MEnn jafna sig af áralangri dagnotkun á dögum/vikum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Tengsl kannabis við geðrof byggja ekki á einni einstakri könnun. Aðalvandamálið við að sýna fram á tengslin eru skortur á þýði, þ.e. það er erfitt að framkvæma rannsókn á fyrirbærinu því aðgangur að viðfangsefnum er erfiður –og þau sjálf eru erfið– og upplýsingar af skornum skammti.

Það eru tveir skólar í hugsun. Sá ameríski, sem þú ert að vísa í, sem heldur að fólk með geðraskanir sæki í ólögleg vímuefni og það útskýri fylgnina. Og sá evrópski sem telur að sterkar vísbendingar séu um að kannabis eitt og sér geti aukið hættu á vissum tegundum geðrofs, og jafnvel þeirrar alvarlegustu, geðklofa.

Það hefur ekki tekist að skera úr um málið, ekki vegna þess að rannsóknir hafi hafnað annarri hvorri tilgátunni, heldur fyrst og fremst vegna þess að það skortir rannsóknargögn og tilraunir.

En það skiptir í raun ekki máli hvort tilgátan er rétt. Það veit enginn fyrirfram hvort hann er það sem þú kallar svo smekklega „heilbrigður“.

Óumdeilanlegt er að kannabis getur verið skaðlegt ungu, óþroskuðu fólki og leitt til geðrænna vandamála skömmu eftir að þrítugsaldri er náð.

Það er aðallega það fólk sem er að fyrirfara sér.

En að rífast um þetta er fullkomlega tilgangslaust. Maður endar í sama helvítis rangalanum og hómópatar, rasistar og sköpunarsögusinnar. Vísindi í fórum áróðursseggja gera ekkert annað en að þvælast fyrir.

Hinn daglegi veruleiki kannabisefnanna er flestum nóg til að taka afstöðu. Og það þarf ekki að þekkja marga hasshausa til að vita þvílíkar þjáningar margir þurfa að líða vegna efnanna.

Það á að líta á kannabisneyslu sem félagslegt heilsufarsvandamál en ekki dægradvöl.

Nafnlaus sagði...

Hvernig stendur þá á því að engin sjáanleg aukning hefur verið í geðsjúkdómum? Jafnvel þó svo að kannabis neysla hafi aukist gríðarlega í öllum vestrænum heimi, þá er ekkert sem bendir til þess að aukning hafi orðið í geðsjúkdómum.

"Empirical data did not support the investigators’ hypothesis that smoking marijuana was associated with increased rates of schizophrenia or other mental illnesses among the general public"

Hvernig getur þú svo réttlætt það að einhver maður sem kýs það að reykja gras heima hjá sér frekar en að drekka bjór sé orðinn að glæpamanni? Er hann að gera þer eitthvað, mér? Einhverjum?

Bönn hafa aldrei virkað og koma aldrei til með að virka. Þessi efni eru öll ólögleg í dag en samt geta flesir krakkar með aðgang að farsíma bjargað sér með flest öll fíkniefni á ca klukkutíma eins og staðan er í dag. Það hlýtur að segja þér að eitthvað er ekki að virka er það ekki?

Lestu nú smá sögu og tékkaðu hvað gerðist í bandaríkjunum þegar áfengi var gert ólöglegt. Al Capone er stærsti krimmi í sögunni og hann var landasali.

Ég, þú eða ríkisstjórnin hefur EKKERT með það að gera að stjórna því hvað fullorðið fólk setur ofan í sig. Að gera glæpamenn úr fólki sem er ekki að gera neinum neitt er fáránlegt.

En ef það á að banna allt þá held ég að við ættum að gera bíla ólöglega því þeir drepa víst fleiri en gras gerir á hverju ári. Flugvélar, megnið af áhöldunum sem þú ert með í eldhúsinu hjá þér og ég gæti haldið áfram. Þetta er jú allt saman stórhættulegt er það ekki?

Nafnlaus sagði...

Þessi röksemd um að cannabis geti valdið geðvandamálum var nú síðast notað nýlega í Bretlandi til að færa efnið aftur upp um flokk, eftir að hafa verið "afglæpað" í nokkur ár.

En viðkomandi ráðherra, Jacqui Smith, gerði það þrátt fyrir að hennar eigin nefnd lækna sem rannsökuðu málið hafði komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki rétt. Læknanefndin mótmælti opinberlega og spurði hvers vegna væri verið að láta lækna rannsaka málin ef svo er ekki hlustað á þá.

Svona læknanefndir hafa margoft rannsakað cannabis ,í mörgum löndum og hefur niðurstaðan alltaf verið sú sama: enginn fótur fyrir anti-cannabis áróðrinum. Þessar nefndir vinna þannig að óháðir læknar fara yfir þær rannsóknir sem gerðar hafa verið, og taka svo út þær rannsóknir sem ekki standast vísindalegar kröfur.

Um þetta fjallaði LANDLÆKNIR í grein sinni um daginn þar sem hann svarar Skorradal og félögum.

Þú ættir kannski að athuga fyrirspurn Skorradal og þá tengla sem hann vísar á, áður enn að þú kemur með þessar fullyrðingar þínar. OG bið ég þig sérstaklega að athuga SVAR landlæknisins.

Þú fullyrðir að þeir sem fyrirfara sér séu aðalega fólk með geðræn vandamál eftir cannabisneyslu.
Þvílíkt og annað eins bull. Hvað hefur þú fyrir þér?

EKKI NEITT, karlinn minn. Hvað var þetta sem þú sagðir um "vísindi í fórum áróðursseggja"?

ER Landlæknir Íslands kannski áróðursseggur líka, kannski hasshaus?

Nafnlaus sagði...

En það skiptir í raun ekki máli hvort tilgátan er rétt. Það veit enginn fyrirfram hvort hann er það sem þú kallar svo smekklega „heilbrigður“.

Einu kenningarnar um tengsl geðrofs og cannabis sem eru ennþá teknar gildar eru kenningar sem ganga út á það að: cannabis geti hugsanlega ýtt undir einkenni fólks sem er með geðrof, eða er í áhættuhópnum þ.e. þeir sem eiga nákomna ættingja með geðrof.

ÞAð er ekki rétt hjá þér að enginn geti vitað hvort hann sé "heilbrigður". Þessi áhætta á aðeins við um þá sem eru í áhættuhópnum eða eru þegar greindir sem geðklofar.

Þess má geta að þessir óheppnu einstaklingar verða að passa sig á ýmsu öðru en cannabis, því áfengisneysla bara sem eitt dæmi getur einnig ýtt undir einkenni hjá þeim. Stress er annað dæmi, einstaklingar í þessari stöðu geta einnig "fengið kast" vegna þess að þeir eru stressaðir, t.d. með því að "lesa yfir sig" í námi.

Samt dettur engum í hug að banna áfengi eða háskólanám vegna þess að það setji ákveðinn minnihlutahóp í hættu.

Ég talaði þarna um "heilbrigða" til að leggja áherslu á það að engar gildar rannsóknir benda til þess að cannabis geti valdið geðrofi eða geðveiki hjá þeim sem tilheyra ekki þessum áhættuhópi.

Finnst þér það ekki "smekklegt"?

Og svona by the way, þá hef ég spurningu til þín um smekklegheit, þú sem lætur stór orð falla um "vísindi í höndum áróðursseggja":

Þú bendlar hér í þessari færslu þinni þá sem vilja lögleiða eða afglæpa cannabis við barnaníðinga.....

Hvað segir það um smekklegheit þín? Eða rök þín? Hvaða vísindi ert þú að vísa í?

Er ekki alveg í lagi hjá þér? Heldur þú að ef t.d. landlæknirinn okkar eða einhver lögfræðingur eða vel gefið fólk almennt lesi þessa færslu hjá þér til að athuga málstaðinn lesi þetta og hugsi svo: "vá hvað þessi maður er gáfaður og vel lesinn, þetta meikar sens!!" ????????

Eða heldur þú að þannig aðilar lesi þetta hjá þér og hugsi "vá hvað þessi á erfitt", eða "vá hvað þessi er þroskaheftur"

Eigum við að athuga málið? Þú sendir bara þessa færslu og comment til landlæknisins, og svo afrit til nokkurra blaðamanna/fréttamanna svona til að auglýsa gáfur þínar.

Ég bíð spenntur.

Nafnlaus sagði...

Jesús Ragnar. Þessi grein sem þú skrifaðir er nú meira prumpið. Þú heldur þig voðalega fróðan um málið, en málið er það að ég kýs, og allir ættu að gera það, að lesa bréf landlæknis og taka meira mark á honum heldur en sullinu hérna fyrir ofan.

Einu rökin um skaðsemi kannabis (hér fyrir ofan) virðast vera einungis um tengsl cannabis og geðsjúkdóma sem er e-r langavitleysa og maður heyrir sitt á hvað hvað er rétt í þeim efnum. Hef aldrei heyrt um mann sem hefur misst vitið af völdum kannabisreykinga og ég skal segja þér að það eru fleiri hérna á klakanum sem reykja en þú heldur. Allsstaðar í kringum þig, menntað fólk, foreldrar, þingmenn, sjoppudömur o.sv.frv.
Heyrði hins vegar um íslenskan dreng sem að varð flogaveikur af völdum tölvuleiks. Það er nú heldur lífshættulegra, af hverju er þá ekki tölvuleikir bannaðir?

Er ekki rétt bara að fræða fólk um sannleikann, eyða áróðri og fölsuðum rannsóknum. Leyfa fólki að sjá sannleikann og melta svo hver fyrir sig um hvað þeir telja rétt að gera?
Þarf alltaf að vera e-r mamma sem segir hvað má ekki og hvað má? Og mömmur hafa nú ekki alltaf vit á öllu þótt maður kaupi það nú alltaf.

Fáðu þér jónu og veldu þér betra efni í blog næst kútur.

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

Það virðist fara voðalega vel saman hjá fólki sem er að berjast fyrir áframhaldandi banni á kannabis og að finna sér kannanir úr hlutdrægustu áttum sem hægt er að finna.

SKERPTU DÓMSGREIND ÞÍNA OG ÖÐLASTU HUGREKKI TIL AÐ EFAST UM AÐ STAÐHÆFINGAR STÓRA BRÓÐURS, EÐA VERTU AUÐTRÚA SAUÐUR ÞAÐ SEM EFTIR ER.

Unknown sagði...

Jaha,

Ad nota barnagirnd sem "strawman" er nu ansi ljott :S
Rettara vaeri ad bera Kannabis- og Afengis-bonnin og skoda afhverju Afengisbanninu var aflett og afhverju kannabisbanninu er ekki aflett. En u vilt vaentanlega ekki standa I thvi enda erfidari bardagi.

kv,
Birgir Hrafn Sigurdsson
Rafmagns & Tolvuverkfraedmenntadur kannabislogleidingarsinni.

Friðrik sagði...

Ragnar hinn alvitri...eða hvað?

http://kannabis.net/flokkar/reynslusogur/

" Lækningamáttur kannabis " er grein eftur mig sem að ég vil að þú lesir og vonandi notir gáfurnar þínar í að hugsa útí og pæla kannski í hvað þú myndir gera, værirðu í sömu stöðu. A.m.k. vona ég að hún opni augun þín, vegna þess að þessi þvílíka rökleysa sem þú viðhefur hér á síðunni er svö ömurlega vitlaus að ég bara gapi. Þú notar af- því- bara- aðferðina, Ragnar, einsog litlu börnin. Pældu í því. Þú ert að reyna að fá fólk sem er annarar skoðunar en þú, upp á móti þér, með því að gera lítið úr persónu þess opinberlega. Það höfum við ekki gert og munum ekki gera og það varðar við lög, Ragnar pældu í því. Ég ætla nú að hrekja alla vitleysuna eftir þig, í töluliðum 1-5.

1. Kannabis er neðanjarðar í dag, ekki vegna þess að það er baneitrað, einsog þú vilt halda fram, heldur vegna þess að af því að það er bannað, þá þorir enginn að koma með það upp á yfirborðið og hefja sölu fyrir opnum tjöldum. Einfalt mál.

2. SKAMMASTU ÞÍN fyrir að bera saman fólk sem á sér þann draum að geta átt rólegt kvöld, flissandi yfir misöfnu sjónvarpsefni og kannski borða það sem því finnst gott...og þú berð það saman við barnaníðzlu! Svo ekki sé minnst á það fólk sem notar það til að lina þjáningar sínar. Það er ekki hægt, það er beinlínis órökrétt og óréttlátt að bera samtök okkar, saman við samtök barnaníðinga. SKAMMASTU ÞÍN, mundu, þú veizt aldrei hvað fólkið sem les bloggið þitt hefur upplifað.

3. Það hefur enginn dáið úr of stórum kannabisskammti, enginn. Ekki eitt tilfelli, hvergi. Kannabis virkar ekki sem letjandi, það er hinsvegar auðvelt að nota það sem afsökun fyrir leti. Og þú talar um að kannabis leiði úti harðari neyzlu. Vinsamlegast skoðaðu lið 1 aftur og hugsaðu svo útí það sem þú hefur verið að segja. Ef einstaklingur fer í harðari efni af því að hann hefur ekki lengur kannabis, þá er hann háður hörðu efnunum, EKKI kannabis. Það er líka til svolítið sem kallast forvitni.

4. Það hafa alltaf verið til fíklar og munu alltaf vera. Munurinn á kannabis er hinsvegar sá, að " kannabisfíkn " er huglæg, ekki líkamleg, þar sem hún er ein á ferð er vel hægt að losna við hana, í erfiðasta falli, hjá sálfræðingi.

5. Ég er vinamargur, Ragnar, en enginn vina minna, hvort sem þeir neyta kannabis eða ekki, er eitthvað í áttina að vera svona mikill ónytjungur og þú ert búinn að ákveða fyrirfram. Ég held að þinn vandi sé sá að einhver hefur heilaþvegið þig með því að kannabis sé bölvað eitur, það hefur a.m.k. mikið verið talað illa um það í kringum þig og það lengi.

Farðu nú að hreinsa til í hausnum á þér og hugsaðu aðeins um hvað þú ætlar að skrifa, áður en þú gerir það...

því orð eru aldrei aftur tekin

Unknown sagði...

Skoðaðu staðreindir næst, áður en þú skrifar um kannabis. Ef fólk les þetta og athugar staðreyndirnar og kemst að því að þú lýgur, annað hvort sökum upplýsingaskorts eða viljandi, þá kemur fólk ekki til með að treysta því að þú hafir hugmynd um hvað þú ert að tala.
Ég er fylgjandi lögleiðslu kannabisefna í lækningaskyni. Ég lifi með sjúkdóm sem lýsir sér í miklum verkjum, svefnleysi, bólgum í líkama og fleiru og þessi sjúkdómur hefur verið meðhöndlaður með kannabis í ýmsum löndum og það hefur sýnt sig að það hefur mun betri áhrif á fólk í minnu stöði og orsakar mikið minni aukaverkanir.
Það er ógeðfelt að þið skulið vilja halda lyfjum frá þeim sem þarfnast þeirra.

Friðrik sagði...

Ragnar, er ekki komi tími til að þú dragir þig í hlé? Þú virðist ekki geta beitt betri aðferðum í þinn málsstað en að leggja fólk í einelti, hvað annað ertu að gera varðandi Guðmund Sigurfrey. SKAMMASTU ÞÍN fyrir að bera okkur saman við barnaníðinga og afþví að þú bendlar Guðmund við nazisma vil ég benda þér á þetta:

Hakakrossinn er reyndar rangnefni. Sólkrosssinn ( sama tákn ) kom fyrst fram hjá Forn- Egyptum sem tákn sólguðsins Ra. Seinna meir tók Júlíus Cesar hann upp og notaði sem tákn fyrir stærð og kraft Rómverja. Ég skil ósköp vel Guðmund, ég yrði sjálfur öskuvondur ef einhver myndi bendla mig við barnaníð eða nazisma. Bendi þér líka á að nazismi og Búddishmi er tvennt gjörólíkt ( á bakvið Guðmund er Búddhalíkneski, nota bene ).

Þú ert svona gaur sem skrifar eða talar áður en þú hugsar. Viltu ekki frekar fara að eyða tímanum í eitthvað annað uppbyggilegra fyrir sjálfan þig, þetta kemur þér ekkert við. Eg er ekki að segja að þú sért veikur á geði, en ég velti því fyrir mér, eftir allt það sem á undan er skrifað.

" Hverjum öðrum eiga þá allir dópsalarnir að selja efnin? " Engum, Ragnar, ENGUM. Þess vegna viljum við lögleiðingu.

Eflaust ertu ágætlega að þér í hinum ýmsu efnum, en hvað þessi málefni varðar, sýnist mér þú hreinlega heimskur.

Gerðu þér og okkur greiða og farðu að eyða tímanum í eitthvað allt annað en að níða skóinn af fólki fyrir eitthvað sem hreinlega kemur þér ekki við.

Simon sagði...

Hvort sem kannabis er skaðlegt eða ekki þá er ég þeirrar skoðunar að það eigi að lögleiða það. Mér finnst það vera réttur hvers manns til að ákveða hvað hann vill innbyrða á meðan það skaðar ekki þá sem í kringum hann eru.

Eins og Moby sagði: "People should be able to do what they want. I ultimately defer the wisdom to an adult to make their own choices. If someone wants to do drugs, I think it's their own business and not the business of the state."

Nafnlaus sagði...

Þetta væri allt mjög flottar röksemdafærslur hjá þér ef þú myndir bara vitna í rannsóknir vísindamanna en ekki ganga út frá því að það sem þú hefur heyrt sé satt.