20. júní 2009

Var Jóhanna hársbreidd frá að auka ICESAVE skuldirnar?

Skylda okkar til að borga ICESAVE kemur til af tilskipun sem kallast 94/19/EB. Um hana má lesa hér.

Þar kemur fram að mikilvægt sé að innlánsfyrirtæki fái óheftan aðgang að markaði Evrópu og að innlánavernd sé á ábyrgð viðkomandi fyrirtækja og heimaríki setji þeim reglur. Lágmarkstrygging skal vera 20.000 evrur.

Áhugavert er að lesa þessa grein:
„Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.


Það má vel vera að stöðuleiki bankakerfis aðildaríkis skipti miklu máli og takmarki skyldu ríkis til að koma bönkum til hjálpar bregðist þeir sjálfir. Þarna liggur a.m.k. einn hundur grafinn sem þyrfti að fá dæmt um.

Um ábyrgð ríkisstjórna stendur líka:
„Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.“


Það virðist vera að tvennt geti leitt til ábyrgðar ríkis gagnvart innistæðueigendum.

A. að ríkið hafi ekki staðið sig í að setja tryggingarkerfi

eða

B. að ríkið skuldbundi sig sjálft í slíku tryggngarkerfi.

Á Íslandi var tryggingarkerfi sem hlýtur að ætla að sé sambærilegt við kerfi annarra ríkja. Þar með hlýtur ríkið að hafa uppfyllt skyldu sína og er þ.a.l. ekki ábyrgt umfram það.

Og varðandi B. þá er í íslensku lögunum heimild til að styðja sjóðinn með lánum en ekki skylda. Það er sagt „má“ en ekki „á“. Ríkið má sum sé hjálpa til við að útvega lán fyrir tryggingarsjóðinn ef þarf.

En nú líta Jóhanna og Steingrímur svo á að okkur beri að greiða 20.000 evrurnar. Bent hefur verið á að það sé engin ofrausn því Bretar muni sjálfir líklega greiða meira en það (það sem vantar upp á fulla tryggingu umfram 20 þ evrurnar).

Það er þá lítil huggun harmi gegn að Jóhanna Sigurðardóttir kom ekki í gegn breytingartillögu á sínum tíma þegar íslensku lögin um tryggingarsjóðinn voru sett. Hún sótti fast að gera tiltekna breytingu. Gefum henni orðið:

„Síðan kem ég að 2. tölul., sem er veigamesta brtt. okkar í minni hlutanum sem skipa ásamt mér hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson, en hún lýtur að aukinni tryggingavernd frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Þar leggjum við til að einstaklingar skuli fá kröfur sínar vegna tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum greiddar að fullu. Hér er sem sagt lagt til að full tryggingavernd sé hjá þeim sem eiga innstæður sínar í innlánsstofnunum og bönkum, þannig að þeir geti verið rólegir hvað sem á dynur, hvaða skakkaföll sem verða í bankakerfinu, þá munu þeir að fullu og öllu fá sínar innstæður greiddar.“


Jóhanna og Ömmi reyndu að breyta lögunum þannig að sjóðurinn bæri fulla ábyrgð á öllum innistæðum einstaklinga. Þannig væri það í Finnlandi og þannig ætti það að vera hér.

Hefði sú tillaga náð í gegn værum við að tala um miklu hærri upphæð.

En hún var stöðvuð.

Lögin má lesa hér.

Hér er 10. greinin um hvað gera skal ef eignir hrökkva ekki til:

„ Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.
Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.“


Hvernig má skilja þetta öðruvísi en svo að sjóðurinn skuli ausinn þar til allt er búið hvort sem 20þ evru markinu er náð eða ekki?

Það er að vísu heimild til að taka lán en benda þarf nákvæmlega á þessa brýnu ástæðu sem sjóðsstjórnin á að sjá fyrir því auk þess sem réttlæta þarf hvers vegna ríkið á að greiða af því láni en ekki sjóðurinn sjálfur með peningum þeirra sem hann tryggir, þ.e. bankanna.

Ríkið á nebblega ekki að bera kostnað af tryggingunum. Fyrirtækin eiga að gera það sjálf.

Það versta sem gæti gerst í töpuðu dómsmáli væri að við værum skylduð til að greiða 20 þ evrurnar. Við höfum engu að tapa nema meintum velvilja Breta og Hollendinga.

Við eigum að neita að borga.

Engin ummæli: