19. maí 2009

Tilraun til að tala skynsamlega um kvótann.

Fyrir átta árum gerði ég, ásamt góðum vini mínum, lokaritgerð í heimspeki. Rannsóknarefnið var hvort kvótakerfið væri réttlátt. Þorsteinn Gylfason heitinn var leiðbeinandi okkar og það reyndi mjög á samband okkar við hann. Ég gleymi aldrei uppgjöri sem átti sér stað á skrifstofu Þorsteins þar sem við komumst loks að kjarnanum í ágreiningi okkar við hann. Hann ætlaði ekki að gefa sig – og við ekki heldur. En við höfðum gagnrýnt grein hans um efnið nokkuð harkalega. Við gengum út frá Þorsteini í sjokki. Hann hafði beinlínis stungið upp á því að við geymdum útskrift og hugsuðum málið betur. Við neituðum. Þegar við fengum einkunn fyrir ritgerðina áttum við hálft í hvoru von á að Þorsteinn refsaði okkur fyrir óskammfeilnina. Svo var ekki. Hann gaf okkur hæstu einkunn og hafði nokkrum sinnum frumkvæði að því að kynna efni ritgerðarinnar. Upp frá þessu var vinskapur okkar við Þorstein traustur og við störfuðum báðir sem aðstoðarmenn hans við nokkur námskeið í framhaldinu. Það er mikil eftirsjá að Þorsteini. Hann var góður kennari, heiðskír í hugsun og stundum svo blátt áfram í hugsun að okkur þótti nóg um.

Í sem stystu máli sagt komumst við félagarnir að því að kvótakerfið væri ranglátt vegna þess að upphafleg úthlutun aflaheimilda hefði verið ranglát. Við færðum ennfremur rök að því hvernig réttlát úthlutun hefði getað litið út. Loks gerðum við grein fyrir því hvernig væri hægt að bæta fyrir upphaflega ranglætið. Það má segja að þar hafi okkur litist allra verst á svokallaða fyrningarleið. Mér líst enn mjög illa á hana. Ég ætla að birta hér til gamans viðtal sem tekið var við okkur árið 2003 í Mogganum. Gott ef Þorsteinn hafði ekki frumkvæði eða hvatningu að viðtalinu.

Ég vildi óska að nú væri hægt að hefja umræðuna um kvótamálin upp á örlítið hærra plan.Engin ummæli: