Síðustu vikur hef ég heyrt fleira fólk tala á rasískum nótum við mig en ég hef heyrt síðan sláturhúsið á Húsavík fylltist af útlendingum á haustin og ístöðulausasta liðið í bænum sá þeim allt til foráttu.
Það sem vekur mér ugg er að nú er harkaleg kreppa hafin. Hún á líklega eftir að versna mjög þótt einhverjir bjartsýnismenn haldi í þá von að einhvernveginn verði hægt að hókuspókusa Icesave í burtu með því að fella samninginn.
En svo virðist sem eina gagnrýnin sem kemur á störf stjórnvalda sé frá blönku millistéttarfólki. Fólki sem nú situr uppi með timburmenn eftir eðslufyllerí síðustu missera. Með fullri virðingu fyrir því fólki þá hef ég ekki mestar áhyggjur af því.
Áhyggjuefnið er fólk sem á lítið til að missa en missir það líklega samt.
Það er verulega misráðið að hækka álögur á nautnaefni: sykur, áfengi og tóbak. Verðhækkanirnar koma beint úr vasa þeirra sem í dag hafa hvorki efni á að fara með börnin sín til tannlæknis né veita þeim annað það sem talið er sjálfsagt í Vestrænu samfélagi.
Kreppa er ekki tíminn til að knýja fólk með kúgunum til að taka upp betri lífsstíl. Í kreppu þarf að fyrirbyggja siðferðilegt og efnahagslegt gjaldþrot þeirra hópa sem höllustum standa fæti. Stór hluti erlendra á landinnu er án atvinnu. Eitthvað af því fólki á börn. Hvernig eiga þau börn að alast upp án þess að fá á tilfinninguna að samfélaginu sé skítsama um þau? Er einhver að hlúa að þeim? Er einhver sendur út af örkinni með líflínu til þeirra allra fátækustu og vesælustu?
Eða þarf þetta fólk að fara bónleiðina að hjálpinni? Suða og sníkja inni á kontórum hjá fólki sem klæðist skóm sem kosta jafnmikið og það sem auminginn hefur til framfærslu?
1 ummæli:
það er mikið til í þessu held ég. þetta staðfestir bilið milli "millistéttarinn" sem hefur efni á að fara í golf, borða rucola og tyggja nicorette (eða lifa lífi sínu á annan hátt í samræmi við það sem talið er snoturt og snyrtilegt) og þeirra sem hafa ekki efni (eða tíma) til að stunda þessar dýrari nautnir, en njóta þó sykurs, áfengis og tóbaks. hætt við að gjárnar milli stétta dýpki og við séum að rækta óhamingju.
Skrifa ummæli