13. apríl 2009

Siðbót og samfélagið

Það er óhjákvæmilegt að meðlimir samfélagsins líti í eigin barm og velti því fyrir sér hvernig við gátum komið okkur í þessa stöðu. Það að kenna fámennum hópi manna um er í besta falli einföldun. Svona álíka vitlaust og að kenna Hitler, Göring, Göbbels og Himmler einum um hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar.

Fall Íslands var alhliða, bæði siðferðilegt og efnahagslegt til að mynda. Hluti vandans var að einstaklingar treystu ótrúverðugum í blindni. Aðilum sem áttu að vita, en vissu ekki. Og aðilum sem vissu, en vildu ekki að aðrir vissu.

Mig langar að vara við siðferðilegu sérfræðingaveldi. Það munu skoppa fram á völlin sérfróðir aðilar og halda að fólki hugmyndum um siðferðið sem eru ekki minna vafasamar en þær hagfræðikenningar sem stýrðu hér öllu á kaf.

Jóhann Björnsson er dæmi um siðferðilegan spunakarl. Stjórnmálamann sem notar siðfræðina sem peð á pólitísku skákborði. Pólitískum andstæðingum hans má ekki verða á, án þess að hann dragi upp úr farteskinu sérfræðisiðfræði til að berja á þeim með. Alvöru siðfræði er í senn greinandi og boðandi. Hún lítur ekki á Sjálfstæðismenn sem siðferðilega eftirbáta Vinstri grænna. Hún tekur báða flokka með í reikningin, og reynir síðan að flokka siðferðilega breytni í æskilega og óæskilega. Sú flokkun þarf að standast gagnrýni, vera skynsamleg, sannfærandi og gagnleg.

Það hefur farið fram heilmikil umræða um siðareglur á Íslandi sem víðar. Sumt er gagnlegt – annað ekki. Á tímabili voru siðareglur daglegt brauð heimspekinga og stórfyrirtæki þeirra sóknir.

Sumt, sem álitið er gott og gilt og varðar siðareglur, er að mínu mati hreinlega barnalegt og óskynsamlegt.

Um langt árabil hafa kennara- og heilbrigðisnemar verið mataðir á hugmynd um siðareglur sem m.a. er ættuð frá Sigurði Kristinssyni, heimspekingi.

Hugmyndin er í stórum dráttum sú að tiltekin störf hafi tiltekið hlutverk eða stöðu í samfélaginu og að frumskylda starfsmanns sé gagnvart þessu hlutverki.

Þetta er ekki merkileg fullyrðing. Ef hún er túlkuð mjög þröngt þá er hún ómerkileg hringskilgreining: kennara ber að kenna, lækni að lækna o.s.frv. Af slíkri skilgreiningu er ekkert gagn. En um leið og hún er víkkuð út verður hún ónákvæmari og vafasamari. Hafa ber í huga að hér erum við að tala um kröfur sem eru víðtækari en þær kröfur sem ráðningarsamningur leggur á herðar manni.

Það er í stuttu máli alrangt að tiltekið hlutverk samfélagshóps sé bindandi fyrir meðlimi þess hóps. Og ekki einu sinni þótt bent sé á að hlutverkið eins og það hefur verið rækt sé bæði mikilvægt og gagnlegt.

Skoðum húsmæður.

Húsmæður áttu allt sameiginlegt með starfshópum nema launin. Þær gegndu mikilvægu og skýru hlutverki í samfélagsgerðinni. Þær uppfylltu í raun öll skilyrði þess að siðareglur ættu við um þær. Öll skilyrði sem skipta máli, því siðareglur eiga ekki síður við um launalausa sjálboðaliða en hálaunamenn.

Það er hinsvegar fráleitt að halda því fram að húsmæður hafi á einhvern hátt verið siðferðilega bundnar því húsmóðurhlutverkinu eins og það var innt af hendi frá örófi alda. Þvert á móti voru þær í fullum rétti til að gera uppreisn gegn þessu hlutverki. Og það þótt sú uppreisn hafi af mörgum, á sínum tíma, verið talin bæði óskynsamleg og skaðleg.

Þú getur ekki lýst hlutverkum fólks og ætlast til þess að sú lýsing verði siðferðilega bindandi.

Mín skoðun er sú að hver einstaklingur beri á endanum ábyrgð á eigin lífi. Ég tel líka að hluti af gæfu hvers einstaklings sé að velja rétt úr þeim möguleikum sem opnast á lífsleiðinni („rétt“ gefur hér verið afstætt fyrir hvern einstakling). Skortum á valmöguleikum fylgir ákveðin valþröng og því felur sú krafa, að koma af virðingu fram við annað fólk, í sér kröfuna um að skerða ekki um of valmöguleika manna – og helst auka þá.

Allar skorður á valfrelsi verður að réttlæta með skýrum rökum.

Siðareglur eiga því að vera lágmarkskröfur sem skerða ekki um of rétt einstakra aðila til að líta starf sitt allt öðrum augum en starfsfélagarnir. Þær eiga að vera settar til varnar öllum sem starfsemin hnitast um. Siðareglur bankamanna eiga því að verja bankamenn, viðskiptavini bankanna og samfélagið allt. Og allt á að miða að því að enginn einn dragi til sín gæði, eða auki valfrelsi sitt, ranglega á kostnað annarra.

Að einhverju leyti á hver einasti maður að miða siðareglur sínar út frá sjálfum sér. Siðareglur án sannfæringar eru gagnslausar.

Vandamál Íslands hefur ekki verið að iðareglur hafi ekki verið til staðar. Vandamálið er að siðareglurnar hafa ekki skipt menn neinu máli og menn hafa ekki verið krafðir um siðferðislega afstöðu.

Siðferðileg afstaða kemur alltaf í ljós í verkum manna. Engar siðareglur hefði verið hægt að móta utan um þann lífsstíl sem fram fór á Íslandi síðustu ár.

Það eru leiðir til að setja bindandi siðareglur sem koma í veg fyrir sumt af því ranglæti sem annars á sér stað. Þær leiðir eru tæknilegar og margslungnar. En fullt af fólki býr yfir þeirri þekkingu.

Kröfunni um siðareglur verður að sinna. Og sinna vel. Menn verða að gera sér grein fyrir því eftir hverju er verið að slægjast. Það á að gera ekki síðri kröfur til þeirra sem koma inn í fyrirtæki til að slá upp siðferðilega tréverkinu en hinna, sem fylgja peningunum um allt og sjá til þess að vel fari um þá.

Það er ekki nóg að draga fram galgopa hverra siðferði er auðsveipur hundur í bandi tilfallandi pólitískrar afstöðu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

While I surf blog , i found a all new trick in http://pic-memory.blogspot.com/Vistor can comment and EMBED VIDEO YOUTUBE , IMAGE. Showed Immediately!
EX : View Source.
http://pic-memory.blogspot.com/2009/02/photos-women-latin-asian-pictu...(add photos and videos to Blogspot comments).
Written it very smart!
I wonder how they do it ? Anyone know about this , please tell me :D
(sr for my bad english ^_^)

email: ya76oo@ya76oo.com
thanks.