14. apríl 2009

Hústaka

Hústökumálið á Vatnsstíg er um margt áhugavert.

Eigendur hússins eiga augljósan rétt á því að yfirvöld hjálpi til við að endurheimta húsið. Ekki aðeins vegna eignaréttar, heldur líka vegna ábyrgðar. Ef eitthvað kemur upp á í húsinu, það brennur eða einhver dettur niður af þaki og hálsbrotnar – þá er ekki ólíklegt að eigendur beri á því ábyrgð. Þá ábyrgð er sjálfsagt að framselja til hins opinbera með því að krefjast útburðar.

En aðgerðin sem slík er afar hugvekjandi. Það er eðlilegt að þykja óverjandi að húseignir standi auðar þegar þúsundir manna hafa hneppt sig í skuldaþrældóm til að koma þaki yfir höfuðið. Enn verra er að húseignir séu viljandi látnar grotna niður.

Það er stigsmunur en ekki eðlis á því að hertaka húsnæði eins og hústökufólkið gerir og hertaka götumyndir eins og sumir fasteignaeigendur hafa gert með niðurgrotnandi húsum.

Mér hefði persónulega þótt flottari gjörningur að hreiðra um sig í Hagatorgi eða einhverju slíku húsnæði.

Kannski er það næst.

Engin ummæli: