8. apríl 2009

Hagnýtir vitleysingar

Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa sopið af vessafullum spenum gegnum tíðina. Nú á að berja á flokknum með því, m.a. til að stöðva málþófið á Alþingi sem virðist ætla að valda því að VG og Sf halda inn í kosningar án þess að hafa efnt neitt.

Örvæntingarfull vörn Sjálfstæðismanna er að ráðast á móti á VG og brigsla um að hafa stýrt búsáhaldabyltingunni. Og að sönnu er það miklu stærri glæpur stjórnmálaflokks að gera út lýð sem ræðst á Alþingi en að þiggja aura af fúlum fýrum.

Ég varð sjálfur vitni að því þegar umsátrið um Hótel Borg stóð sem hæst að nokkrir af þeim sem höfðu sig þar mest í frammi ákváðu að draga sig í hlé því einn umsetursmanna hafði fengið símtal frá Steingrími Joð þar sem honum var sagt að elvisarnir hefðu yfirgefið húsið.

Tengsl byltingarinnar við VG eru augljós þegar haft er í huga hve rækilega mótmælin runnu sitt skeið um leið og VG komst til valda. Hefur ekki verið ástæða til mótmæla síðan? Er ríkisstjórnin að standa sig vel? Er hún að skila meiru og betur en fyrri ríkisstjórn hefði gert hefðu báðir aðilar haft áhuga á því starfi?

Við búum í kolrugluðu samfélagi. Samfélagi sem er orðið svo ruglað að trúðurinn, Ástþór Magnússon, er farinn að hljóma skynsamlega.

Skipið okkar sigldi í strand og nú gerir brimið sig líklegt til að merja dallinn í sundur. Flothæfnin minnkar með hverri rifu sem kemur á skrokkinn. Og það eina sem áhöfnin gerir er að setja á óskipulagðan sjórétt. Sérfræðingur er ráðinn til að rannsaka hver beri ábyrgð á strandinu en enginn er ráðinn til að búa til björgunaráætlun.

Burt með þessa helvítis aurugu kosningabaráttu. Jú, jú, Sjálfstæðisflokkurinn er gráðugur og siðblindur. VG er fullt af fólki með ólýðræðislegar hugmyndir. Jóhanna Sigurðardóttir er ögn karlmannlegri útgáfa af Ólafi Eff. Þetta er allt satt og rétt. En skiptir engu helvítis máli.

Þessar ónýtu fjölmiðlatuskur eiga að hunskast til að taka á málum af meiri getu en þessir handónýtu stjórnmálamenn. Hverjum er ekki sama þótt tannaför Steingríms Joðs séu á slitnu akkerisfestinni eða fingraför fálkans á dósaupptakaranum sem notaður var við að skera gat á skútuskrokkinn. Við erum að sökkva, andskotinn hafi það!

Engin ummæli: