28. apríl 2009

Fullveldið og drepsóttirnar

Það er kaldranaleg tilviljun að svo virðist ætla að fara að fullveldi Íslands sé innrammað í drepsóttir. Nú, nokkrum vikum eða mánuðum áður en gengið verður til samninga við ESB vofir inflúensa yfir okkur eins og mara. Aðdragandi fullveldis landsins var eins.

Síðsumrið 1918 var markað fréttum af ógnvænlegri drepsótt í útlöndum. Einstaka menn í Reykjavík voru þá þegar komnir með róttæk flensueinkenni, t.d. Þorsteinn Gíslason ritstjóri (pabbi Gylfa Þ. og afi Þorsteins, Þorvaldar og Vilmundar). Af reynslu erlendra þjóða af pestinni þótti ljóst að lítið var hægt að gera til að sporna við henni:



Í byrjun september var lítið hugsað um flensuna en þeim mun meira um Alþingi sem þá var að koma saman í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu:




Þess má geta að þegar frumvarpið um samband Íslands og Danmerkur var tekið fyrir í þinginu lýsti Benedikt Sveinsson megnri óánægju sinni með það að Danir fengju alltof freklegan aðgang að fiskimiðunum. Á það var ekki hlustað. Kannski þótti Benedikt ekki eiga mikið inni hjá þingmeirihlutanum því hann hafði orðið uppvís að þeirri ósvinnu að mæta ekki til kirkju við þingsetninguna.

Eftir fyrstu viku septembermánaðar sér meirihluti Alþingis ástæðu til að birta opinberlega nefdarálit um að væntanlegur samningur við Dani feli í sér fullkomið fullveldi og samning jafningja þar sem hvorugur aðili skuldbindi sig meira en hann kýs.

Áðurnefndur Benedikt Sveinsson gerði breytingartillögur við frumvarpið og fólst í þeim að Danir hefðu ekki fullan og óheftan aðgang að fiskimiðum, þótt þeir mættu vissulega verja þau, og eitt og annað smálegt. Fór hugmynd Benedikts um eigingjarnar samningskröfur fyrir brjóstið á háæruverðugum þngheimi sem taldi sjálfsagt að taka hagsmuni Dana með í reikningin. Lokamálsgrein þessarar fréttar er ansi snotur.



Tillögurnar voru felldar.

Alþingi samþykkti nú lögin eftir nokkuð þóf og vantrauststillögur og boðaði til þóðaratkvæðagreiðslu laugardaginn 19. október 1918. Dagblöðin hvöttu alla til að kjósa því þjóðarsæmd lægi við.

Tók nú við venjulegt pólitískt karp með ýkjum og uppnefnum og öðrum sóðaskap. Undir lok septembermánaðar birtist lítil frétt um að spænska veikin herjaði nú ofsalega á Svía.

Sjötta október telja menn loks rétt að varpa öndinni léttar með tilliti til hinnar ægilegu spænski veiki. Hún sé annaðhvort um garð gengin eða hreinlega ókomin. Heilsufarið er barasta gott nú þegar kosningaskjálftinn er allsráðandi.



Nú byrjaði Katla að gjósa og var það mjög í stíl umræðunnar í landinu sem nú varð mjög heitfeng. Stríðsletur sást á forsíðum blaða. Áróðurinn varð persónulegri og heitfengari. Og svo var kosið.

21. október birtust fyrstu tölur. Á Ísafirði sögðu 248 já en 95 nei. Seyðisfirði 204 já en 2 nei. Vestmannaeyjar 457 já en 4 nei.

Þann sama dag birtist lítil frétt um inflúensusjúklinga á millilandaskipum:



Næsta dag bárust frekari fréttir af atkvæðareiðslunni:



Þann 26. október berast fréttir af því að inflúensan af Botníu sé hreint ekki sú sama og um sumarið og breiðist nú út með ógnarhraða. Þannig sé stór hluti af starfsfólki og nemendum Vélstjórnarskólans óvígur af veikinni sem barst í skólann með einum nemanum. Sá átti systur sem sigldi með Botníu og fór að sýna einkenni skömmu eftir að hún steig á land.

Er rætt um það í blöðum að komið geti til þess að yfirvöld loki skólum og grípi til annarra aðgerða til að hefta útbreiðslu veikinnar. En líklega sé of seint að gera nokkuð. Ekki er alvaran þó meiri en svo að næsta frétt á eftir spáir húsfylli í leikhúsi næsta kvöld.



Nú breiðist veikin út en virðist ekki vera alvarleg. 28. okt. birtist þessi frétt:



Degi seinna kemur smáfrétt um að veikin breiðist hratt út en sé ekki almenn. Danir ráðleggi fólki að liggja frá því það kenni sér meins því lungnabólga geti annars fylgt og það sé hún sem er banvæn. Enginn hefur enn dáið á Íslandi og fjölmiðlar velta því fyrir sér hvort sóttin sé nokkuð alvarlegri en þær sem oft hafi gengið yfir landið. Þær hafa enda oft verið banvænar.

30. okt er borgarstjórinn orðinn veikur.

1. nóv. er skuggaleg áminning í blöðunum. Og þótt blöð séu full af fyrirmælum frá yfirvöldum þá lúta þau fyrirmæli að útflutningi á saltkjöti en ekki sóttvörnum.



2. nóvember er Versló lokað en MR er haldið opnum þótt veikin sé komin þar upp.

4. nóv. tilkynnir Sigurður Nordal að hann fresti fyrirlestri sínum um einlyndi og marglyndi út af veikinni en næsta auglýsing fyrir neðan sýnir kæruleysið. Það er eins og Íslendingar átti sig ekki á því að veikin er jafn banvæn hér og í útlöndum.



Degi seinna lokar barnaskólinn.

Og nú hætta blöð að koma út. Fólk stráfellur um allan bæ.

Svo virðist sem lungnabólgan banvæna hafi komið upp úr flensunni og því hafi meðgöngutíminn verið svona langur.

Yfirvöld voru þónokkuð gagnrýnd fyrir að bregðast ekki við þegar veikin kom til landsins og greina hana rangt.

Yfirvöld voru alltaf nokkrum skrefum á eftir veikinni. Og það þótt nákvæmar upplýsingar lægju fyrir um gang hennar erlendis.

1 ummæli:

Andri Valur sagði...

Skemmtileg samantekt.
Ég er einmitt búinn að fylgjast með umfjöllun erlendra fjölmiðla síðan snemma í síðustu viku þegar fregnir fóru að berast af veikinni. Íslenskir fjölmiðlar virðast aðeins vera að taka við sér, síðasta sólarhringinn eða svo.
Það verður "áhugavert" að sjá hvernig þetta mun þróast.