28. apríl 2009

PISA og árangur

Nú skellir mbl.is því upp á forsíðu að við séum með lakari árangur í PISA en aðrar þjóðir. Finnar og Nýsjálendingar séu góðir.

Hér ber að gera nokkra fyrirvara.

1. Áhugaleysi

Íslenskir nemendur eru (og voru sérstaklega á þessum tíma) rannsakaðir gríðarlega mikið. Það líður ekki einn einasti mánuður að skólastjórar fái ekki beiðni um einhverja könnun sem leggja á fyrir nemendur. Víða eru nemendur allt annað en ánægðir með þessar kannanir og því fleiri sem þær verða, því kærulausari verða svörin. PISA er tveggja tíma skriflegt próf með miklu lesefni. Það hefur engin persónuleg áhrif og er nafnlaust.

2. Þensluáhrif

Það var áberandi við 2006 prófið hve árangur versnaði hjá nemendum á þenslusvæðum. Höfuðborgarsvæðið og Austfirðir skáru sig úr með versnandi árangri. Norðurland vestra bætti sig mjög. Þessi breyting sást ekki í samræmdum prófum. Það virðist vera að „góðærið“ hafi haft letjandi áhrif á frammistöðu nemenda.

3. Gamaldags

Tveggja tíma skriflegt próf er ekki sá veruleiki sem íslenskir grunnskólanemendur búa alla jafnan við. Auðvitað er hægt að þjálfa upp hæfileikann við að draga fram atriði úr texta og – það er brýn nauðsyn að það verði betur gert á Íslandi en gert er í dag. En því má ekki heldur gleyma að samfelldur texti er ekki endilega besta leið til miðlunar upplýsinga – og lestur er að breytast. Kröfur um læsi eru aðrar en þær voru. PISA er gamaldags að þessu leyti. Hún byggir á gamaldags skýrslulæsi. Íslendingar mælast vissulega verr „læsir“ en jafnaldrar þeirra – en það merkir ekki að þeir séu síður „hugsandi“. PISA leggur lestur til grundvallar hugsun og þykist mæla getu í einstökum greinum, eins og vísindum, en fylgnin á milli læsis og greinagetu er nær algjör (hún er 0,8). Prófið þyrfti að uppfærast til nútímans og vera helst margmiðlunarpróf ef það ætti að vera mjög „relevant“ í nútíma samfélagi.

4. Þýði

Íslenskir nemendur taka nær allir PISA prófin. Af 4.900 nemendum tóku 4.819 prófið 2006. Í flestum löndum eru valdir nokkrir skólar og gerð krafa um 85% svarhlutfall og ef það er lægra þá eru valdir skólar til vara. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvaða skólar eru líklegastir til að sinna ekki beiðni um könnun. Í Bretlandi voru nemendur í „sérskólum“ t.d. ekki teknir með.

5. Aldur

Þátttakendur í könnunum PISA eru jafnaldrar. Ekki er tekið tillit til þess að skólakerfin geta verið mismunandi uppbyggð. Það hefði t.d. verið hægðarleikur að breyta skólanámskrám í íslenskum skólum þannig að lögð væri áhersla á þá þætti sem rannsaka átti í PISA 2006 hjá þeim aldurshópi sem tók þátt. Það er eðli námskráa að úr þeim þarf að velja og hafna. Það eru ekki allir 15 ára nemendur búnir að læra það sama, ekki einu sinni í sama sveitarfélagi (þannig er það þó reyndar í Finnlandi). Þess vegna er ljóst að þessi munur mun veita einhverjum forskot og verða einhverjum fjötur í könnun sem metur alla út frá sömu atriðunum. Þar með er ekki sagt að það sem hinir hafa verið að læra sé minna virði. Það er erfitt að kanna námsárangur nemenda án miðlægrar námskrár.

Loks læra nemendur hlutina ekki allir í sömu röð. Íslenskir nemendur læra kannski x í 9. bekk, y í 10. og z í framhaldsskóla. Nemandi í Finnlandi lærir kannski y í 8. bekk og z í 9. en lærir aldrei x. Ef PISA mælir y og z vel en ekki x þá gæfi könnunin augljóslega ranga mynd af skólakerfinu.

6. Staðblær

Ég skoðaði könnunina 2006 og hjó strax eftir því að margt í henni var æði fjarlægt íslenskum veruleika. Spurt var um atriði sem tengjast olíunotkun, kolum og súru regni. Ekkert sem spurt var um var sérstaklega íslenskt. Könnunin var miðuð við samevrópskan veruleika þrátt fyrir að beinast að nemendum í öllum heimshlutum. Slíkt veitir að sjálfsögðu einhverjum forskot.

PISA er líka pólitísk.
- - -

Niðurstaða PISA er að lesskilningi er ábótavant á Íslandi. Það hygg ég sé rétt. Það er þó vafasamt að álykta um hæfi í stærðfræði og/eða náttúrufræði eins og gert er, þegar bæði prófin byggja á þessum sama lesskilningi.

Þá er rétt að velta því fyrir sér hvort lesskilningur á „upplýsingaöld“ geri ekki aðrar kröfur til nemendanna en í hefðbundnum skilningi.

Loks þarf að beita gagnrýni við allan samanburð milli þjóða, þegar ljóst er að úrtök eru misjöfn og áhersla í námsefni líka.

PISA má ekki vera hvati til miðstýringar eins og þeirrar í Finnlandi. Það eiga ekki allir að læra það sama. Það er fráleitt. Farsæld þarf að sníða eftir vexti hvers og eins. Það er ekki til frummynd hins menntaða manns.

Engin ummæli: