23. apríl 2009

Gerum grein fyrir atkvæðum okkar

Ég er búinn að kjósa. Stóð nokkuð lengi inni í kjörklefanum og hugsaði. Handfjatlaði stimpla. Komst að þessari niðurstöðu:

1. Frjálslyndir

Kýs þá ekki. Er ósammála grundvallarhugsjónum þeirra. Þær eru of óhreinar. Of grunnt á rasisma og afdalahætti. Hugmyndir þeirra um fiskveiðistjórnun eru einfeldningslegar. En mestu réð að ég mun aldrei, aldrei kjósa Sturlu, atvinnulausa bílstjórann.

2. Framsókn

Samvinnuhugsjónin er fögur en frá því síðustu dropar þess blóðs runnu úr flokknum fyrir einum fimmtán árum hefur hann verið á valdi pólitísks hústökufólks. Framsóknarflokkurinn er hýsill fólks með stjórnmálalega metnað og slíkt fólk er það afar áberandi - og hefur verið um langa hríð. Hin meinta „endurnýjun“ er ekkert annað en kynslóðaskipti sóttkveikja.

3. Lýðræðishreyfingin

Ástþór Magnússon er drengurinn í ævintýrinu um berrassaða keisarans. Gallinn er að í þessari útgáfu sögunnar er drengurinn með Tourette. „Keisarinn er nakinn!“ heyrist mjóróma röddu. Og einhverjir verða íhugulir á svip. Þar til sama rödd hrópar slík ókvæðisorð og svívirðingar að áður en yfir lýkur eru flestir að komast á þá skoðun að keisarinn sé ekki aðeins ekki nakinn, heldur dúðaður í vetrarklæðnað. Að auki virðist allt sem Ástþór kemur nálægt enda í kúðri og ósköpum. Hvort sem það eru kvennamál, viðskipti eða stjórnmál. Það er engin ástæða til að ætla að öðru vísi fari nú.

4. Sjálfstæðisflokkurinn

Það er Sjálfstæðisflokknum nauðsyn að fá frí, endurskoða gildismat sitt og athafnir og hreinsa burt ósómann sem hann hefur staðið fyrir síðustu ár og áratugi. Það þarf að kasta Bjarna Ben út í ystu myrkur, hann er uppvakningur íhaldsins. Einhver undarleg blanda af kjörþokka Bjarna Ben sr. og kynþokka Hannesar Hafsteins. Hræddir flokkar draga fram gamlar dulur og klæða sig í þær. Í þeim er ekkert líf, aðeins mölur. Spillingin heltók flokkinn. Hana þarf að uppræta.

Það er ekki næg ástæða að styða flokkinn vegna þess eins að hann tók á sig syndir Samfylkingarinnar í hruninu.

5. Samfylkingin

Talandi um gamlar dulur. Flokkur tuttugustu og fyrstu aldarinnar fylgir forystu tuttugustu aldar leiðtoga. Bremsan er kominn í stað inngjafarinnar. Samfylkingin kom sér algjörlega hjá því að axla ábyrgð á hruninu. Lét fjármálaráðherra sjá um samskipti við erlend ríki og bankamálaráðherrann var úti á þekju. Utanríkisráðherrann í kör. Og enginn í forystu flokksins þorði í erfiðu málinn. Og allra síst í erfiða málið í eigin flokki - að koma vanhæfum foringja frá þegar hann augljóslega þekkti ekki sinn vitjunartíma. Undir pressu varð flokkurinn seinn, hægur og hugmyndasljór. Og hægust af öllum var heilög Jóhanna sem ein hélt þegnskap sínum á lofti eftir að búið var að henda Imbu fyrir hákarlana.

Samfylkingin þarf að gera það sama og Sjálfstæðisflokkurinn og axla ábyrð. Og það með því að uppræta óværuna sem þar þrífst. Spillinguna og hugleysið fyrst og fremst.

Fólkið hrópaði „vanhæf ríkisstjórn“ og var hunsað. Vanhæfnin var líka Samfylkingarinnar. Og Samfylkingin hunsaði ekki síður en samstarfsflokkurinn.

Að lokum má ekki gleyma hvernig Samfylkingin sveik öll sín helstu loforð eftir síðustu kosningar. Forysta flokksins er karakterlaus.

6. VG

Það kom til greina að kjósa VG. Ég hugsaði mig lengi um. Hætti svo við. Flokkurinn á það ekki skilið. Hann hefur staðið sig afleitlega síðan hann tók við. Hann bíður með allar erfiðar ákvarðanir fram yfir kosningar og tekur með því eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni þjóðarinnar. Setur gælumál sín á dagskrá og ýtir í gegn og kennir svo Sjálfstæðisflokknum um að ekkert af því sem átti að gera í þinginu komst í gegn. Fellur á eigin bragði og vælir um málþóf.

Innan flokksins er fullt af fólki með stórhættulegar og andlýðræðislegar hugsjónir. Hugmyndir um betri heim sem koma skal með góðu eða illu. Vissan um að vitund venjulegs fólks sé skökk og hana þurfi að leiðrétta er rík innan VG.

Ástæða þess hve VG er laus við spillingu er einfaldlega sú hve aðstaða þeirra hefur verið takmörkuð. Þeir hafa engu ráðið. Það hefur ekki verið neinna hagur að borga þeim fyrir fylgilag, léleg fjárfesting.

7. Borgarahreyfingin

Þá var eftir Borgarahreyfingin. Ég ætlaði að kjósa hana þegar ég mætti á staðinn. En hætti við af þeirri einföldu ástæðu að hún er ekki raunhæf. Smáflokkar sem hafa fá en stór stefnumál eru gagnslitlir í fulltrúalýðræði. Þeir eru eins og unnusti sem er með heitstrengingar um frammistöðu sína á tyllidögum; afmælum, konudögum og jólum, en hefur ekki einu sinni leitt hugann að uppvaski, skítableium og heimiliserjum.

Slíkur unnusti er ekki raunsær og á ekkert erindi í annað en tilhugalíf. Þar er hann fullkominn.

Það gengur ekki að flokkur ætli sér að treysta á brjóstvit „heiðarlegs“ fólks í þingstörfum og semja stefnuna jafnóðum. Og það gengur enn síður að þetta fólk sé endalaust að sóa tíma þingsins með því að reyna að vekja athygli á málum sem aldrei eiga möguleika á samþykkt.

8. Að skila auðu

Þá hafði ég þann kost að skila auðu, ógilda seðilinn eða skila honum aftur.

Stjórnmálaflokkarnir fullyrða nú hver á fætur öðrum að það sé ekkert val að skila auðu. Með því sé maður áhrifalaus. Eina leiðin sé að kjósa.

Þetta er auðvitað hortug þvæla og ber vott um vandamálið í hnotskurn. Hverskonar stjórnmálaflokkar geta leyft sér að hunsa auð atkvæði og þau skilaboð sem í þeim felast? Autt atkvæði er oft áhrifaríkasta atkvæðið. Það skilar enginn auðu óvart. Þetta eru skýr skilaboð til stjórnmálaflokkanna. Aðvörun. Áminning. Með því ertu að segja: „Þið verðskuldið ekki að vera fulltrúar mínir í ljósi frammistöðu ykkar. Atkvæði mitt stendur öðrum til boða ef þeir koma fram.“

Ef stjórnmálaflokkarnir segja að auð atkvæði séu áhrifalaus þá eru þeir um leið að segja að þeir hunsi þessi skilaboð og ætli ekki að taka þau til greina í athöfnum sínum. Ætli ekki að bæta sig og betra. Telji sig vera seif næstu fjögur árin.

Og ef stjórnmálaflokkur dirfist að halda slíku fram þá er kominn enn frekari staðfesting þess að hann eigi atkvæðið ekki skilið.

Með öðrum orðum tel ég fulla ástæðu til þess að kjósa alls ekki neinn flokk sem lætur það spyrjast að hann líti á auð atkvæði sem áhrifslaus. Slíkur stjórnmálaflokkur hefur kosið að verða ekki fyrir áhrifum af afstöðu almennings í landinu – og þar liggur vandinn.

Stjórnmálaflokkarnir hafa allir verið opnir fyrir annarlegum áhrifum síðustu misseri og lokaðir fyrir þeim áhrifum sem síst skyldi hunsa.

Ég skilaði auðu og mæli með að enginn láti stöðva sig í því.

Ekki síst þegar haft er í huga að Samfylkingin og VG munu hunsa auðu atkvæðin „sín“ með því að reyna að sannfæra lýðinn um það að auðu atkvæðin séu öll frá ósáttum Sjálfstæðismönnum.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikill er máttur hinna auðu atkvæða! Eða svo mætti ætla eftir þennan lestur. Auð atkvæði hafa reyndar alltaf verið fullkomlega áhrifalaus og svo mun áfram verða. Í besta falli eru þau skilaboð sem ekki er hlustað á en það eina sem þau raunverulega gera er að fría kjósandann ábyrgð og halda samvisku hans hreinni næstu fjögur árin. Þú ætlar að þegja og ef enginn hlustar þögn þína og áttar sig á merkingu hennar þá á hann hvort sem er ekkert skilið nema þögn! Þetta er dásamaleg aðferð hjá þér til að halda samvisku þinni hreinni. Og þannig siglir þú sömu leið vinir þínir í Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki og neitar að axla ábyrgð.

Fagurgrænar kveðjur,
Hinn eilífi Framsóknarmaður

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það færi betur á því að stjórnmálamennirnir sjálfir fylgdu samvisku sinni af örlítið meiri hind en að áhangendur þeirra hæddust að kjósendum fyrir að fylgja sinni.

HEF sagði...

Það færi einnig betur á því að fólkið í þessu landi færi inn á völlinn og léti til sín taka frekar en að þegja upp í stúku, þó að það sé vissulega eina leiðin til að halda stuttbuxunum hreinum. En hvers virði eru hreinar stuttbuxur ef leikurinn tapast?

B.kv.
HEF

Ragnar Þór Pétursson sagði...

En best færi á því að það fólk hætti að hlaupa inn á völlinn sem hefur ekkert að bjóða nema sjálft sig og einhverja brenglaða hugsjón um að það sé þegnskylda þess að hafa vit fyrir öðrum og um leið réttur þess að skara eld að eigin köku.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með úrslitin! 3,2% er ekki svo slæmt og þessir auðu seðlar munu án nokkurs vafa virka sem gott spark í afturenda okkar siðlausu stjórnmálamanna. Eða "áminning", eins og þú orðaðir svo vel. Áfram auðir!

B.kv.
Hefner